Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Horft úr gálganum

Við lifum á undarlegum tímum. Ríkisstjórn landsins er nýbúin að skjalfesta svik sín við skólakerfið í landinu með fjárlögum. Ekki stóð til að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og því síður að standa við loforð um stuðning við framhaldsskólana.

Spila átti harðan bolta í kjarasamningum og meitla Salek í stein.

Fyrir örfáum dögum síðan var staðan sú að BHM og kennarar áttu næsta leik: Að fara í kjaraátök og mæta þar líklega fullum þunga löggjafans.

Og þá sprakk allt í tætlur. Vegna þess að einn vanhæfasti ráðherra í sögu landsins tapaði dómgreindinni við að fela tengsl milli fjölskyldu forsætisráðherra og viðbjóðslegs barnaníðings.

Dómsmálaráðherrann og forsætisráðherrann fara að dæmi níðingsins og iðrast einskis. Rífa bara kjaft. Staðreyndin er samt sú að stálhnefinn sem titraði í loftinu yfir höfðum háskólamanna og framhaldsskólakennara hefur tímabundið verið lagður á hliðina.

Nú er lag.

Næstu kosningar verða að fá að snúast um menntamál. 

Forystufólk kennara þarf að stíga upp og sjá til þess að svo verði.

Böðulinn hefur tímabundið tekið snöruna af hálsi okkar og notar nú reipið til að berja á hinum böðlunum. Það væri fullkomin flónska að bíða rólega á fallhleranum meðan það gengur yfir.

Við búum í snautlegu landi sem kóar með kynferðisbrotamönnum, lúffar fyrir lögbrjótum og mölvar sundur menntakerfið. Samfélagið verður aldrei reist upp til þess sóma sem börnin okkar verðskulda nema allar grunnstoðir þess verði reistar upp á nýtt.

Hið sama gildir um menntun og fjölmiðla. Þetta eru hinar tvær meginstoðir hins upplýsta samfélags. Hin eiginlega bólusetning gegn heimsku. Hægt og rólega er verið að eyðileggja báðar þessar stoðir. Fólk með annarsamar hvatir reynir að leggja bæði kerfin undir sig og misnota. Kjör kennara og blaðamanna eru skammarleg og ein og sér nánast fullkomin færnifæla.

Við hefðum ekki losnað við svívirðu nýlegra ríkisstjórna án fjölmiðla. Þeir hafa bjargað því sem bjargað verður. Þjóðin stendur í þakkarskuld við hugrakka blaðamenn.

Við munum heldur ekki bjarga okkur til lengri tíma nema mennta unga fólkið okkar nægilega vel svo það sneiði hjá þeirri forarvilpu sem samfélagið okkar er orðið. 

Við þurfum að koma í veg fyrir það að framtíðarörlög menntakerfisins verði í höndum þeirra andlegu leiguliða sem skíta í ruslafötur á austfirskum hótelum og selja sál sína fyrir dropa af búsi og klink í klíkubaukinn.

Það er mikið að hjá okkur. Það stóð til að gera það verra.

Við verðum að stöðva stríðið gegn menntakerfinu áður en það verður of seint.

Og við verðum að standa vörð um fjölmiðlana meðan ástandið er að skána.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu