Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Glundroðakennd málsvörn Menntamálaráðuneytisins

Það ríkir glundroði á mörkum grunn- og framhaldsskóla. Án nokkurra faglegra raka var skorið ár af framhaldsskólanum og ákveðið að hér eftir skyldu nemendur útskrifast úr grunnskóla nógu góðir í grunnfögum til að hefja nám í erfiðara framhaldsskólanámi en áður. Grunnskólamegin var ekki gerð nein grundvallarbreyting af þessu tilefni. Skyndilega fóru nemendur að útskrifast úr grunnskólum sem settir voru beint í of þungt efni í framhaldsskóla.

Þetta er ein ástæða þess að framhaldsskólinn vill verja sig með einhverju móti. Það er hinsvegar enginn hægðarleikur. Það er kerfislægur galli til staðar sem framleiðir vandamál – allt vegna þess að síðasti menntamálaráðherra óð áfram án þess að vanda sig.

Flestir framhaldsskólar þurfa að klóra sig fram úr vandanum. Svo eru það nokkrir skólar, rjómabúin svokölluðu, sem vilja ekki mennta aðra en þá sem eiga mjög auðvelt með nám. Þeir eru í miklu uppnámi vegna þess að breytt námsmat segir aðeins til um grófa stöðu nemandans. Bókstafakvarðinn spannar öðruvísi bil en talnakvarðinn þar sem gefið var í heilum og hálfum tölum. Þessir skólar þrýsta mjög á um að fá nánari vísbendingar um það hverjir eru „bestir“.

Þeir hótuðu á tímabili að nota inntökupróf. Nú hefur menntamálaráðherrann ákveðið að afhenda þau. Hann hefur breytt samræmdum prófum í inntökupróf fyrir framhaldsskóla. 

Í stað þess að axla ábyrgð á því kennir hann framhaldsskólunum um. Hann vísar í það að „framhaldsskólum sé heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla“. 

Reglurnar eru alveg skýrar. Framhaldsskólar eiga að fara eftir skólaeinkunnum. Þessi klausa sem ráðuneytið er að vísa í er algjörlega ótengd þeirri ákvörðun hans að breyta umsóknarforritinu fyrir framhaldsskóla þannig að framhaldsskólinn sjái samræmduprófseinkunnir. Það ákvað hann sjálfur í samstarfi við hina samviskusömu en drottnunargjörnu og óvandvirku fótgönguliða sem hann erfði frá síðasta ráðherra inni í Menntamálastofnun.

Ef klausan hér að ofan er tekin bókstaflega geta skólar algjörlega fylgt eigin geðþótta við innritun. Þeir mega gera sérstakar kröfur. Slíkar kröfur gætu allt eins verið þær að æfa fótbolta, tilheyra trúfélagi, vera af skagfirskum ættum eða hafa horft á The Wire. Það væri allt augljóslega ranglátt – og heimskulegt.


Það er ekki alveg eins augljóst en samt er það að nota samræmd próf sem inntökupróf líka bæði ranglátt og heimskulegt.

Það er alveg hægt að kenna nær eingöngu fyrir samræmd próf. Ég fékk fréttir af kennurum sem eyddu vetrinum í að greina með nemendum tölfræðilega hvaða atriði væru algengust í krossaspurningum á samræmdum prófum. Síðan var drillað. Það er hægt. Og það er jafnvel hægt að ná töluverðum árangri. Ég hef sjálfur verið svona kennari og þá náði ég fínum árangri á prófunum.

Það þýðir hvorki að kennslan hafi verið góð né námið í samræmi við Aðalnámskrá.

Skólar eiga að kenna eftir námskrá. Samræmd próf fanga aðeins lítinn hluta hennar og alls ekki kjarnann. Menntamálastofnun á líka að vinna út frá Aðalnámskrá. Það þýðir ekki að það sé nóg fyrir hana að benda á að verkefnin megi réttlæta með einhverju sem stendur í námskránni. Það er eins og að grýta hommann í næsta húsi og vitna í Biblíuna. Það þarf að lesa námskrána í samhengi og nám, kennsla og mat þarf að vera í samræmi við þá heildarsýn sem þar kemur fram. 

Nú er harður kjarni fólks með tilteknar jaðarskoðanir á menntun að beita Menntamálastofnun og hinum máttlausa nýja ráðherra til að búa til nýja námskrá – sem er ekki nema í sæmilegu samræmi við hina eiginlegu námskrá. Og þeir gera það í kyrrþei. Hafa núna undanþegið sig því að sæta gagnrýni fyrir prófgerðina (nóta bene, eftir að hafa sætt harðri gagnrýni málsmetandi aðila).

Þessu þurfa kennarar og skólastjórnendur að andæfa. Hér þarf mótstöðu. Þingheimur þarf að taka á þessu og krefja menntamálaráðherra svara. 

Það er of seint fyrir flesta foreldra og nemendur að sniðganga þessi próf. Ég veit að sumir hugleiddu það þegar forsendum þeirra var breytt í skjóli nætur. 

En það er ekki of seint að sniðganga þá framhaldsskóla sem ætla að nota prófin sem inntökupróf. Nemendur voru ginntir í þessi próf á fölskum forsendum. Að þeim var logið. Það er engin ástæða til þess að styðja við þá sem taka þátt í því.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu