Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Glæpsamleg samræmd próf

Í próffræðum er gerður skýr greinarmunur á áhættuprófunum (high stakes test) og lághættuprófum (low stakes test). Á Íslandi hefur verið mörkuð sú stefna að samræmd próf falli í seinni flokkinn. Ástæðan er fyrst og fremst sú að áhættupróf hafa gjarnan veruleg skaðleg áhrif á skólastarf. 

Jafnvel þótt íslensku samræmdu prófin væru góð próf (en þau eru það alls ekki) væri það stór ákvörðun að breyta þeim í áhættupróf. Það væri einhver mikilvirkasti hvati til þrengingar námskrár og gengur raunar þvert gegn yfirlýstum tilgangi skólakerfisins á margvíslegan hátt.

Í sjálfu sér er enginn munur á áhættu- og lághættuprófum. Þetta geta verið sömu prófin. Það, í hvorn flokkinn þau falla, fer eftir afleiðingunum sem prófin hafa fyrir próftakandann. Ef mikið er í húfi er prófið áhættupróf. Þannig er bílpróf skýrt dæmi um slíkt próf. Sá sem fellur á því fær einfaldlega ekki að keyra.

Þegar íslenskir nemendur sækja um framhaldsskóla hafa þeir lengi mátt senda með ýmis gögn. Þannig má hengja við umsóknin persónulegar upplýsingar, meðmælabréf eða annað. Fyrir örfáum mánuðum barst sú tilkynning frá Menntamálaráðuneytinu að búið væri að breyta orðalagi doldið í reglunum um þetta atriði. Hér eftir gætu nemendur hakað við þann möguleika að framhaldsskólaumsókn fylgdu einkunnir þeirra á samræmdum prófum. 

Þetta vakti strax furðu og illar grunsemdir. Hvað hefðu framhaldsskólar að gera með eldgamlar upplýsingar (hér eftir eru samræmd próf tekin meira en ári fyrir útskrift) um stöðu nemandans á tilteknu prófi? Einhverja (þar á meðal mig) grunaði að hér væri verið að fara bakdyramegin að því að breyta grundvallareðli samræmdra prófa, þ.e. breyta þeim í áhættupróf – þrátt fyrir að það gangi gegn yfirlýstum tilgangi þeirra.

Kannski voru það þessar efasemdir sem urðu til þess að yfirvöld ákváðu að taka það sérstaklega fram að hér væri ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Aðeins væri verið að skerpa á hlutunum, skýra þá betur. Nemendur hefðu getað sent hvað sem er með umsóknum sínum, nú væri bara verið að telja upp nokkur dæmi og auðvelda nemendum umsóknargerðina.

Svo líður og bíður.

Í morgun hefjast svo samræmd próf. Þá er birt í Mogganum lítil klausa. Þar er útskýrt að framhaldsskólar megi gera samræmd próf að forsendu inntöku. Skólarnir þurfi aðeins að setja sér reglur um það.

Þessi breyting er með vitund og vilja menntamálaráðuneytisins. Og hvað sem hver segir er hér um að ræða mikla stefnubreytingu. 

Breytingu sem nóta bene var hvorki kynnt fyrir nemendum né foreldrum fyrr en fyrsta prófdaginn. Og þá í Mogganum!

Það er ekki aðeins svo að þetta gerist án faglegrar umræðu, þetta gerist þvert á yfirlýsingar sem gáfu í skyn að engar svona breytingar væru í farvatninu.

Það er vesælt menntakerfi sem misvitrir embættis- og stjórnmálamenn geta ráðskast með að eigin vild án þess svo mikið sem að þurfa að taka umræðu um hugmyndir sínar. Það eru aum yfirvöld sem gera stefnubreytingar í kyrrþey og þræta jafnvel fyrir þær.

Það er nokkurnveginn það síðasta sem menntakerfið þarf að eldgamlar einkunnir nemenda á lélegum og einhæfum prófum verði stóri dómur um möguleika þeirra á framhaldsskólavist. Þótt ekki væri annað mun þetta hertaka kennslu í 7. og 8. bekk sem mun hér eftir miða að því að toppa á þessum prófum í 9. bekk. Námskráin verður svelt og að henni þrengt til að sinna aðeins þeim þrönga hluta náms sem þessi próf megna að mæla með sæmilegu viti. Nemendur verða enn frekar sviknir um list- og verknám. Meiri tími fer í andlaust stagl og tafs og minni í sköpun, samvinnu og hina frjóu þætti náms. Áhrifin á skólastarf eiga svo eftir að koma í ljós. Nemandi sem leggur mikið á sig til að toppa á samræmdum prófum í 9. bekk mun lítinn hvata hafa til að bæta sig eftir það – alveg eins og nemandi sem stendur höllum fæti í 9. bekk mun engan möguleika eiga á skólavist í ákveðnum skólum þótt hann stórbæti sig eftir það.

Af langri reynslu veit ég að tíminn frá 9. og fram að útskrift er mikill uppgangstími, sérstaklega hjá drengjum, sem margir hrökkva þá í gang, öðlast tilgang í námi og sjálfsaga og leggja grunn að traustum námsferli. 

Það er algjörlega óboðlegt að litla einræðisklíkan sem stjórnar menntamálum á Íslandi í krafti áhugaleysis stjórnmálanna fái að snúa skólakerfið niður í forina þar sem lágfleygustu fuglar íslenskrar menntapólitíkur hafa gert sér hreiður í leðjunni.

Það er í raun glæpsamlegt.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu