Tilfinningamál fyrir langreyðar
Umræða um aflífun hvala í landhelgi Íslands fór fram í Vikulokunum á Rás 1, laugardaginn 13. maí 2023. Þar voru ræddar sláandi niðurstöður í skýrslu Matvælastofnunar um meðferð á langreyðum, hvort réttlætanlegt væri að veiða hvali með þeim hætti sem gert er. Velferð þeirra er augljóslega fórnað fyrir óljósa hagsmuni en dauðastríðið er oft verulega langvinnt og sársaukafullt.
Stjórn Dýralæknafélagsins hefur sent ráðherrum, meðal annarra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, afdráttarlaust bréf með kröfu um að hagsmunir dýranna verði skilyrðislaust settir ofar öðrum takmörkuðum hagsmunum manna.
Sú tækni sem notuð er við veiðar á stórhvelum uppfyllir ekki þau viðmið sem teljast ásættanleg út frá dýravelferð en nefna má að lágt hlutfall þeirra dýra sem drepst samstundis eða fljótt er um 67%. Það er staðreynd að um 33% dýranna heyja langt dauðastríð. Þessar upplýsingar hreyfa við mörgum og er undirskriftasöfnunin Stoppum hvalveiðar í fullum gangi, þar sem ómannúðleg meðferð þeirra er tiltekin sérstaklega sem ástæða.
Leyfir skynsemin dráp á hvölum?
Í umræðum á Rás 1 sagði utanríkisráðherra Íslands að málið væri einfaldlega ekki tilfinningamál, hvorki til að færa rök með eða á móti. Þetta væri okkar réttur, þetta væru veiðar sem eru byggðar á ákveðnum leyfum og þessi leyfi væru í gildi.
„Ekki tilfinningamál,“ sagði hún, en hins vegar þyrfti að vega það og meta efnahagslega hvort það væri lógískt fyrir Ísland að halda áfram að veiða hvali, kanna eftirspurnina eftir kjöti og áhrif veiðanna á geira eins og ferðaþjónustuna.“ Hún sagði að heilt yfir byggjum við ákvarðanir okkar á rétti fólks til að stunda atvinnurekstur. Við þyrftum að fylgja okkar lögum og reglum, veiðarnar væru hluti af okkar sögu og við værum að stunda þær út frá vísindum og útgefnum leyfum.
Þar með var rökfærslu ráðherrans lokið.
Samantekt á rökum ráðherra
Þetta er okkar réttur, við eru búin að gefa út leyfin og við hættum ekki að veiða hvali fyrr en hægt verður að færa efnahagsleg rök fyrir því. Þetta er ekki tilfinningamál, þetta er skynsemdarmál. Ef viðmið skynseminnar bresta þá getum við hætt að drepa hvali eða þegar eftirspurnin verður lítil, þegar áhrifin á ferðaþjónustuna verða of mikil, þegar leyfin renna út.
Utanríkisráðherra hefur greinilega ekki lagt það á sig að endurskoða viðhorf sín og skoðanir út frá rannsóknum á vistkerfinu og sjónarmiðum vísindafólks á hinum ýmsum sviðum. Einnig efast enginn lengur um að dýr búi yfir tilfinningum, þau gleðjast, syrgja, óttast, annast ungviði, tala saman, sýna kærleika og samkennd.
Meðferðin er mikið tilfinningamál fyrir langreyðar.
Mannhverf sjónarmið ráðherra
Sjónarmið utanríkisráðherra flokkast sem mannhverf en samkvæmt þeim felst verðmæti náttúrunnar í nýtingu og þjónustu við manninn. Ekki er tekið tillit til þess að langreyður og aðrir hvalir hafi eigingildi sem merkir að hafa gildi í sjálfum sér og dýrin þarfnast þar af leiðandi engra réttlætinga til að lifa. Dráp á þeim krefjast aftur á móti gildra raka og sjónarmiða. Utanríkisráðherra færir ekki gild rök fyrir skoðun sinni heldur beitir fyrir sig sjónarmiði sem leið undir lok á 20. öld. Þessi rök eru ótæk og ekki boðleg á okkar tímum, þau eru of sjálfhverf og opinbera skort á innsýn í vistkerfið og á samhengi hlutanna.
Annað val á skoðun nefnist lífhverf náttúrusýn sem metur ekki langreyðar út frá nytjagildi þeirra fyrir manninn heldur vegna þess að þær eru stórfenglegar lífverur í eigin rétti, sem hafa þróast samhliða mannkyni á þessari jörð. Hér dugar hvorki útgefið mannlegt leyfi til að réttlæta dráp eða efnahagsleg rök til að útiloka lífhverfa náttúrusýn.
Þriðja val á skoðun er visthverf náttúrusýn. Vistkerfi og lífverur jarðarinnar eru í öndvegi þegar meta á verðmæti náttúru og tímabundnar þarfir og tilbúin leyfi mannsins víkja fyrir þörfum hinnar lifandi náttúru þar sem allt er tengt.
Skyldan við lífkerfið
Við höfum skyldur gagnvart hverju öðru og gagnvart lífinu í kringum okkur. Við getum reynt að réttlæta hvalveiðar við Ísland með sögulegum rökum, skynsemisrökum, efnahagslegum, litlum áhrifum á ferðaþjónustu, en það vegur bara alls ekki þungt.
Utanríkisráðherra sagði að hvalveiðar við Ísland væru stundaðar út frá vísindum. Ég spyr hvers konar vísindum og fræðum? Ekki líffræði, ekki heimspeki eða siðfræði, ekki loftslagsvísindum, ekki læknisvísindum, ekki vísindum um líffræðilega fjölbreytni ...
Nýlega var haldið málþing um náttúrusýn á 21. öld í tilefni af hátíð líffræðilegrar fjölbreytni, þar lagði vísindafólk áherslu á þverfaglega nálgun en mannhverf sjónarmið eru greinilega ekki hátt skrifuð um þessar mundir í þeirra fræðum.
Stoppum hvalveiðar!
Athugasemdir