Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Guð skapaði ekki Manninn

Guð skapaði ekki Manninn

Goðsögur, arfsögur og sköpunarsögur geta haft áhrif um aldir á viðhorf kynslóða, jafnvel þótt vísindin hafi gert grein fyrir uppruna lífsins og mannkyns. Stundum eru margar sköpunarsögur á kreiki innan sömu menningar, sögur sem hafa hafa orðið undir eða viðteknar. Strax á fyrstu síðum Biblíunnar birtast tvær sköpunarsögur.

Genesis, eða fyrsta Mósebók, hefst á sköpunarsögu sem er sögð í örstuttum 35 versum og telur ekki nema 667 orð á ísensku. Ótal margar bækur, ritgerðir og greinar í mörgum fræðigreinum hafa verið skrifaðar af leiknum, lærðum og skáldum um þetta stutta upphaf sem tók sjö daga.

Ef til vill er þetta meðal þekktustu textabrota veraldarsögunnar, mikilvæg í trúarbragðafræði og spennandi fyrir heimspekinga, mannfræðinga, bókmenntafræðinga, ljóðskáld og rithöfunda, dæmi: Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: Verði ljós.

Sköpunarsagan í þessum versum er nokkuð heilsteypt. Það er ósegjanlega áhugavert og gefandi að túlka hvert vers fyrir sig en það sem knýr lesturinn áfram er forvitni, aðdáun og undrun. Textinn bæði opinberar og felur, allt eftir því hversu opinn eða lokaður lesturinn (hugurinn) er.

Hannah Arendt heimspekingur og séní opnar augu og hug túlkenda sköpunarsögunnar með athugasemd í lok fyrirlestursins Heimspeki og stjórnmál (1954) sem lesa má í bókinni Af ást til heimsins (Háskólaútgáfan 2011). Hún skrifaði eða bendir á að guð í þessum texta hafi ekki skapað Manninn heldur „skóp þau karl og konu“. (119).

Þetta er hugvekjandi athugasemd sem gerir goðsögnina um meðhjálpina og rifbeinið í 2. kafla Genesis um Eden að allt annarri sögu í mótsögn við þá fyrri. Í sköpunarsögunni, sem hér er til umræðu, segir guð einfaldlega í fleirtölu: Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. (26). Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu. (27). Guð blessaði þau. (28). Þar með var sköpun þessarar lífveru lokið og þessi „hann“ var í raun „þau“ eða „við“.

Þessi fyrsti kafli sögunnar gefur til kynna að hugtakið Guð merki konu og karl alveg eins og hugtakið Maður átti að tákna konu og karl (þótt karlinn hafi síðar lagt hugtakið undir sig). Hér er það alls ekki karlguðinn sem skapar fyrst og fremst karlinn í sinni eigin mynd.

Ég held að allar þessar goðsagnir, táknsögur, dæmisögur o.s.frv. hafi mikil áhrif á menningu, viðhorf og jafnrétti. Það er því ómaksins vert að endurlesa og endurtúlka þær til að vekja umræðu í stað þess að vera alltaf með sömu tugguna. Þetta er bara eitt brot úr einni sögu og fellur undir stöðu kynjanna í gegnum aldirnar og vekur m.a. spurningar um kúgun kvenna og undirskipun.

Spyrja má hvers vegna var þessi sköpunarsaga ekki í hávegum höfð:

Guð skapaði manninn í sinni mynd: skapaði þau karl og konu? Þessi spurning vekur einnig aðrar spurningar um vald og valdakarla.

Ef lesendur eiga bráðlega leið til Berlínar þá er þar sýning um meistarann Hönnuh Arendt og tuttugustu öldina í Deutsches Historisches Museum til 18. október 2020. Hún var einn af helstu hugsuðum 20. aldarinnar.

P.S. Sigríður Þorgeirsdóttir hefur bent á að verk eftir Nínu Tryggvadóttur er að finna á sýningunni í Berlín, verk sem hékk í íbúð Hönnuh Arendt í New York. Nína og Al Copley maður hennar voru vinir Hönnuh og Heinrich Blücher. 

P.P.S. Ritstjóri bókarinnar Af ást til heimsins er Sigríður Þorgeirsdóttir. Þýðandi greinarinnar Heimspeki og stjórnmál er Egill Arnarson. Heimspekistofnun - Háskólaútgáfan gaf út 2011.

Tenglar

Hannah Arendt and the Twentieth Century is showing

Hér er hægt að hlusta og skoða sýninguna

Hér eru textar af sýningunni, myndir, myndbönd og upptökur - líka á ensku

Sköpunarsagan

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni