Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Geta bókmenntir eflt frið og traust?

Geta bókmenntir eflt frið og traust?

Árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið, var haldin 8. október 2021 í Veröld – húsi Vigdísar. Áherslan var á sjálfbæra friðarmenningu.

Friðarráðstefnan skiptist í þrjár málstofur sem sneru ólíkum hætti að mikilvægi trausts fyrir sjálfbæra friðarmenningu.  Ein um ástandið í Afganistan og ábyrgð alþjóðasamfélagsins á stöðu mála. Önnur um áhrif loftslagsbreytinga á frið og öryggi í heiminum og mikilvægi þess að ríki, borgir og almenningur vinni saman á alþjóðavettvangi að úrlausnum á þessari alþjóðlegu ógn.

Hvernig efla megi friðararmenningu með menntun í hnattrænni borgaravitund (Global Citizenship Education for Peace) var viðfangsefni þriðju málstofunnar en henni fylgdi einnig vinnustofa. Spurt var:

Hvernig þróum við hnattræna borgaravitund og virkjum almenna borgara til aðgerða?

Á málstofunni var lögð áhersla á hvernig nýta megi bókmenntir sem hreyfiafl til breytinga, til þess að auka samkennd milli ólíkra einstaklinga og efla gagnrýna hugsun.

Eva Harðardóttir var málstofustjóri en hún er aðjunkt á menntavísindasviði HÍ. Við Eva, Bjarni Jónasson kennari við Menntaskólann á Akureyri, María Rán Guðjónsdóttir og Þorgerður Agla Magnúsdóttir útgefendur Angústúru höfum undanfarið glímt við þetta verkefni út frá nokkrum verkum í bókaflokk Angústúru, Fáum heiminn heim, í ljósi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Á málstofunni fengum við liðs við okkur mexíkóska rithöfundinn Juan Pablo Villalobos en tvær bækur hafa komið út eftir hann á íslensku í þessum bókaflokki, Veisla í greninu og Ef við værum á venjulegum stað, Ólaf Pál Jónsson prófessor við Menntavísindasvið, Hildi Jónsdóttur nemanda við MA og Margréti Unni Ólafsdóttur stúdent.

Ég flutti örerindi á málstofunni þar sem ég tengdi alþjóðaár SÞ um frið og traust við bókmenntir og hnattræna borgaravitund.

Hverju friðarmenning getur áorkað

Friður er ekki aðeins vopnahlé eða fjarvera átaka heldur líferni án hlekkja, landamæra, flokkunar og haturs. Og ekki aðeins það heldur staður og ástand þar sem vinátta og traust eflast og kærleikur vex. Þar sem við erum öll manneskjur.

Friðarmenningu fylgir líferni þar sem fólk tileinkar sér æðruleysi og örlæti. Hún felst í því að koma í veg fyrir aðskilnað, heift, heimsku og að draga hvarvetna úr líkum á félagslegu óréttlæti.

Eitt er víst að friðsemdin stendur með lífinu og gleðinni en ofbeldið með dauðanum og þjáningunni. Hugtökin friður og traust eru lykilhugtök í öllum samskiptum og einnig í skilningi á sjálfum sér. Við þurfum að tala um frið og traust, rannsaka þau, skrifa um þau, læra þau og miðla þeim. Virkur borgari situr ekki hjá og fylgist bara með heldur tekur þátt og leggur eitthvað til.

Að treysta sjálfum sér

Við reiðum okkur á margt í lífinu, við reiðum okkur á lögmál náttúrunnar og við reiðum okkur á valda þætti í efnahagslífinu en við búumst ávallt við frávikum. Sá sem treystir tekur óhjákvæmilega áhættu því í mannlífinu getur alltaf einhver brugðist, oftast óvart en stundum vísvitandi með svikum. Ef spurt er um traust þá er í raun spurt um ýmsa þætti, m.a. Hvernig má  treysta öðrum, stofnunum, fjölmiðlum og ekki síst:

Hvernig má treysta sjálfum sér?

Fólk treystir sér til þess að gera hluti eða standast þrýsting eftir að hafa lært að þekkja sjálft sig, æft sig og þjálfað. Það lærir hvar hæfileikar þeirra liggja og vinnur út frá því. Það speglar sig í öðrum, það metur málin út frá reynslu og öðlast sjálfstraust. Til dæmis á óskipulögð manneskja helst ekki að vera verkefnastjóri. Kærulaus maður sem jafnframt er utan við sig veit að honum á ekki að treysta fyrir mikilvægum tímasettum verkefnum. Hverjum og einum ætti  að treysta fyrir því sem hann hefur hæfileika til og unnið fyrir. Allt eftir því hvar styrkleikar hans liggja.

Sá sem engum treystir nema sjálfum sér einangrast. Sá sem öllum treystir verður leiksoppur annarra. „Öngum að trúa ekki er gott, öllum hálfu verra“, segir málshátturinn. Traust er göfugt og gott en það er jafnframt áhætta. Enginn ætti að treysta öðrum manni fyrir öllum fjöreggjum sínum. 

Blekking þurrkar út traust

En hvernig á sá sem temur sér að treysta, veitir öðrum virðingu og stendur við skyldur sínar: að koma fram við lygara? Væri ekki ráð að ljúga og blekkja líkt og svikarinn? Svarið er afdráttarlaus neitun vegna þess að langtímaverkefnið í samfélaginu er að segja skilið við lygar og blekkingar. Hvers vegna? Blekking þurrkar út það traust sem er til staðar og eyðileggur samfélagssáttmála. Og þá er friðurinn úti líka.

Verkefnið er að læra að treysta sjálfum sér og öðrum – að treysta og að vera treyst – Án traust er enginn friður. Borgarinn vonast til að geta treyst. Áreiðanleiki er lykilorð hvað traust varðar. Spyrja má: Er áreiðanlegt að almennar reglur gildi fyrir alla? Er áreiðanlegt að mannúðarsjónarmið gildi alltaf?

Eru mælikvarðar mannúðar til staðar?

Friðarmenning felst í því að hlúa að veikustu þáttum samfélagsins og ráðast að rótum vandans sem oft er falinn í fátækt, óréttlæti, efnahagslegu misrétti, pólitík og félagslegum aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi. Friðarmenning er ekki vopnahlé eða ógnarjafnvægi. Hún er mennska.

Skáldskapar sem afhjúpar stríðsmenningu

Þessari mennsku er svo oft miðlað vel í bókmenntum, til dæmis í í skáldsögunni Uppljómun í eðalplómutrénu eftir Shokoofeh Azar. Í skáldsögu eins og þessari má safna saman staðreyndum og varpa ljósi á sáran sannleikann á hugvekjandi hátt. Skáldsagan veitir innsýn í afleiðingar þess og stríðsmenningar á fjölskyldur. Við skynjum hvernig fjölskyldum er sundrað, hvernig framtíð þeirra er þurrkuð út, ástin, fræðin, lífið og öryggið brotið niður.

Góð skáldsaga getur verið sem vitnisburður jafngild skýrslu, fréttaskýringu eða sagnfræðiriti um sama mál eða tímabil. Skáldsagan birtir sálina, andann, gleðina og sársaukann. Fyrir mér veitir „Uppljómun“ sanna innsýn í Íran-Íraksstríðið og nærði samkennd mína gagnvart heimamönnum, það hætti að vera fjarlægt og varð hluti af heild - því það er ævinlega rangt að flokka og kúga fólk.

Lestur bókmennta sem stuðlar að friðarmenningu

Skáldsagan sannar að sannleikurinn er ekki aðeins safn af staðreyndum, og hún hjálpar okkur til að tileinka okkur alþjóðlega borgaravitund og stuðla að trausti og friðarmenningu.  

Það er hægt að mennta börn og ungmenni, þess vegna er von. Þrátt fyrir átakanlegt efni bókanna, býr í þeim innri fegurð og lesendur finna hlýju í hjarta sem skapar samlíðun og vekur löngun til að vinna áfram að friði og trausti í veröldinni.

Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Streymi ráðstefnunnar:

Dagskrá ráðstefnunnar  

Juan Pablo Villalobos: Veisla í Greninu (Mexíkó) 

Khaled Kalifa: Dauðinn er barningur (Sýrland)

Trevor Noah: Glæpur við fæðingu (S-Afríka)

Bandi: Sakfelling (N-Kórea)

Nawal El Saadawi: Kona í hvarfpunkti (Egyptaland)

Gaëls Faye: Litla land Rúganda/Búrúndí

Shokoofeh Azar: Upp­ljóm­un í eð­al­plóm­u­trénu

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni