Hvað getum við gert fyrir Palestínu?
Jafnvel þótt átakasaga Ísraela og Palestínumanna sé kölluð hin fullkomna deila, því hún er „annað hvort eða ...“ og engin lausn hefur dugað vegna þess að Ísrael vill ekki hætta við hernámið, þá er engin leið að vera sama eða líta undan. Hvað getum við gert?
Vopnahlé í þessu máli er að flestu leyti svikahlé og friðarferli í þessu samhengi er rangnefni, því Ísrael býr yfir öflugasta her og hernaðarvörnum í víðri veröld og langtímamarkmiðið er algjör yfirráð.
Ótti við ofbeldi
Íbúar á Gazasvæðinu og Palestínumenn í Mið-Austurlöndum hvarvetna búa við daglegan ótta við ofbeldi. Jafnvel þótt það sé vopnahlé geta þeir átt von á flugskeytum um miðja nótt eða vopnaða lögreglumenn á torgum og hústökufólk á heimilum sínum.
„Ég er ekki viss þegar ég leggst til svefns hvort ég muni stíga á fætur á morgun, svo mörgum flugskeytum er beint að svæðinu,“
sagði kona í samtali við NYT í vikunni.
Að bíða og sjá ... hvað?
Það er eins og valdamestu ríki heims ætli að bíða, eins og venjulega, og horfa aðgerðarlaus á næstu árin. Hræddir heimsleiðtogar hlusta á rasískar raddir. Það er ekki nema von að óbreyttir borgarar víða um heim fallist hendur þegar þeir kynna sér sögu þessarar deilu.
Orð og hugtök geta verið vopn, eða orðspjót, í áróðri, þannig er sérhvert flugskeyti sem skotið er frá Gaza flokkað undir hryðjuverk en flugskeyti úr vopnabúri ísraelska hersins flokkað sem hefðbundinn hernaður.
Þingkona Demókrata í Bandaríkjunum, Alexandria Ocasio-Cortez, líkti ástandinu í ástandinu í Palestínu að apartheid eða aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku. Það gerði einnig Jón Ormur Halldórsson í þættinum Heimskviður og nefndi að það væru ekki síst kristnir Bandaríkjamenn sem mynda kjarnann í hópi þrýstihópa á vegum Ísraelsstjórnar.
Já, hernaður en ekki hryðjuverk, jafnvel þótt þau kosti margfalt fleiri dauðsföll, fleiri hús eyðilögð, fleiri ólífutré eru brennd, aukið landrán og aukið arðrán, eins og Yousef Ingi Tamimi hefur bent á. Í grein í Stundinni stendur „Ísraelski herinn hefur með skipulögðum hætti hernumið allar vatnslindir á svæðinu, auk þess sem vatnsleiðslur og dælustöðvar Palestínumanna liggja í gegnum svæði sem eru girt af “ (Stundin 24.5.2021). Þannig er staðan í þessu vopnahléi.
Öflugasta leiðin til að hafa áhrif á stjórnvöld í Ísrael, öflugasta sem við getum lagt til er viðskiptabann og að sniðganga vörur frá Ísrael.
Verkefni sem blasir við á Íslandi
Hvað getum við gert andspænis 73 ára óslitinni deilu í Mið-Austurlöndum? Jafnvel þótt deilan virðist óleysanleg í alþjóðlegu samhengi getum við ekki bara horft eitthvert annað, það eru alltaf verkefni sem þarf að leysa og núna blasir eitt þeirra sárlega við á Íslandi.
Oft er sagt að fólk eigi að líta sér nær. Hvað merkir það í þessu samhengi?
Verndarsvið Útlendingastofnunar hefur vísað hópi Palestínumann á götuna eftir að hafa synjað beiðni þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þeir hafa um tvennt að velja, fara í COVID 19 test og svo á götuna í Grikklandi eða fara á götuna strax hér á landi án fæðis og húsnæðis. Þeir neituðu að fara í sýnatöku fyrir brottför (eru ekki veikir) og hafa sagt í samtölum við Kjarnann að það geri þeir vegna þess að þeir treysti sér ekki aftur til Grikklands, þar bíði þeirra ekkert annað en gatan. Enga vinnu sé að fá og nær ómögulegt að fá húsnæði.
Hvað getum við gert?
Það er heimsfaraldur sem gengur yfir heiminn sem hefur verið miskunnarlaus fyrir hælisleitendur í Grikklandi og mörg ríki hafa hætt að endursenda hælisleitendur þangað. Einnig eru fjölskyldur þessarar hælisleitenda á Íslandi í sárum eftir linnulausar loftárásir Ísraelshers á Gazasvæðið í 11 daga þar sem 243 létust í loftárásum Ísraels, þar af 66 börn og hundruð slösuðust (sjúkrahús á svæðinu fá aðeins rafmagn í átta tíma í senn).
Ástandið á Gaza núna, hefur ekki endilega áhrif á flutning þessara einstaklinga úr landi, segir ÚTL og að það hafi ekki heldur áhrif: að ástandið í Grikklandi fyrir hælisleitendur er bágborið. „Þetta er algjörlega síðasta úrræðið sem við notum,“ segir fulltrúi ÚTL við blaðamann Kjarnans.
Síðasta úrræðið?
Nei alls ekki, síðasta úrræðið er að veita þeim alþjóðlega vernd á Íslandi. Það er eitt af því sem við getum gert á meðan heimurinn fylgist með eða lítur undan þegar þegar fólk deyr, húsum er sundrað og land er tekið af Palestínumönnum innan múrsins.
Pistillinn Ekki líta undan, ekki gefast upp!
Greinin Blóðbaðið á Gaza átti sér aðdraganda en nú gæti allt breyst
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði.Ljósmynd/Sunna Ósk Logadóttir
Athugasemdir