Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Norðursíld '83

Norðursíld '83

Verbúðin hefur vakið upp minningar margra um verbúðarlíf og stemninguna í samfélaginu á níunda áratugnum. Sjálfsagt ekki síst hjá minni kynslóð sem var að komast til mans eða manns á þessum árum. Ég hef ekki farið varhluta af innrás minninga af verbúðarlífi en ég náði því að salta síld á vertíð á Seyðisfirði árið 1983, eða 1982?

Við Dögg vinkona mín réðum okkur sem sagt á síldarvertíð hjá Norðursíld á Seyðisfirði haustið 1983 (hallast ég frekar að en 1982). Pabbi hefur sjálfsagt reddað okkur þessu jobbi en ég er alin upp á Egilsstöðum og hann þekkti Hreiðar Valtýsson sem átti Norðursíld. Nema að við höfum svarað þessari auglýsingu sem birtist í Degi 7. september 1983.

Flest fyrirtæki voru að taka upp vélbúnað til að salta síld á þessum árum og Norðursíld minnir mig að hafi verið eitt af síðustu síldarsöltunarfyrirtækjunum þar sem síldin var handsöltuð. Eigandinn var kominn á eftirlaunaaldur og almennt má segja að aðstaðan hjá Norðursíld hafi borið þess keim að þar var ekki verið að byggja upp en stefnt að því að leggja niður vinnslu á staðnum. T.d. var enginn lyftari en mikill kraftajötunn, Norðurhjarabjörninn, af Norðurlandi, eins og Hreiðar, sá um þau verk sem lyftari hefði annars hentað í.

Við Dögg vinkona mín dvöldum í verbúðinni í Norðursíld ásamt fjölbreyttum hópi fólks á öllum aldri. Nokkrar stelpur voru á okkar aldri og komu frá Norðurlandi eins og flest aðflutt starfsfólk Norðursíldar. Eldri bóndi úr Hörgárdalnum, sem hafði fylgt Hreiðari lengi, og fullorðin kona að norðan, sem var ekki alltaf ánægð með hinn hressa félagsskap verbúðarinnar og samdi ég um hana vísur sem ekki verða hafðar eftir hér. Hún var úr Fljótunum og hafði sérstakan framburð, huggði, laggði, saggði og hebbði hljómaði fagurlega þegar hún skammaði okkur stelpugálurnar fyrir að halda fyrir sér vöku.

Aðstaðan var nú ekki upp á marga fiska en við höfðum aðgang að þvottavél sem var frekar eins og pottur. Við þurftum að fylla hana með vatnsslöngu og setja í gang og þá snéri hún þvottinum þangað til slökkt var á henni og þurfti þá að skipta um vatn handvirkt til að skola. Síðan var þvotturinn undinn með vindu ofan á vélinni.

Á miðri vertíð bilaði vélin og fréttir bárust af því að Hreiðar væri að kaupa nýja vél í borginni. Þegar hann kom svo með nýju vélina duttu af okkur andlitin þar sem „nýja“ vélin var samskonar og sú gamla, þvottahrærivél með vindu. Var almennt talið að hann hefði farið á Þjóðminjasafnið að finna staðgengil fyrir þá gömlu.

Ég man að uppáhaldsbuxurnar mínar á þessum tíma voru eldrauðar flauelisbuxur og ef ég man rétt voru þær erfðagripur frá Árna pabba Daggar. Þær hafa væntanlega fengið nokkrar ferðir í hrærivélinni.

Við höfðum líka aðgang að bifreið þar sem Norðursíld er utarlega í Seyðisfirði sunnanverðum og nokkur spotti að ganga inn í bæinn. Farartækið var mjög forn Landrover sem bara var hægt að keyra í fyrsta gír. Það var því lítil hætta á hraðasektum þegar rúntað var í sjoppuna.

A person standing on a dirt road

Description automatically generated with low confidence

Ég var almennt lítið inni í svokallaðri „eighties“ tísku og fundust hárvængir, herðapúðar og hárbönd mjög hallærislegt dæmi. Meðfylgjandi mynd er tekin sama ár og ég var í síldinni, held ég, en úti á Snæfellsnesi þar sem við vinkonurnar vorum að heimsækja systur Daggar, ráðskonuna í Hrísdal. Ég er í gömlum anorakk af pabba sem ég hafði saumað út í bleik blóm með tvinna, sennilega líka verið í föðurlandi af honum, peysu sem ég hannaði og prjónaði sjálf með mjög misheppnuðu súluritamynstri, sem sést sem betur fer ekki á myndinni, og buxum sem mér sýnist að geti líka verið erfðagripur. Ég hef greinilega ekki fundið hárburstann um morguninn en Camel-pakkinn hefur verið á sínum stað. Kannski hefði ég bara átt að vera í diskótískunni?

Þegar við komum austur var síldin ekki á því að láta sjá sig og því var boðið upp á vinnu við færibandið að hreinsa og snyrta fisk. Eftir hálfan dag við þá iðju kom verkstjórinn og sagði mér að þetta væri mjög vel gert hjá mér, engir ormar í mínum flökum, en ég myndi seint ná miklum tekjum á þessum hraða. Ég fann ekki fyrir metnaði til að ná frekari færni í þessu sporti og fékk að fara í að umstafla og vigta saltfisk í staðinn. Það var skemmtilegri vinna en þó þurfti ég að umgangast þar karl sem #Metoo-hreyfingin hefði væntanlega bæði slaufað, krossfest og veitt í sín nornanet. Ég var of ung og óörugg til að forða mér úr þessum aðstæðum en þessi karl sem var rúmlega 40 árum eldri en ég hafði mjög gaman að því að því að klæmast við unglinga.

En svo kom síldin og þá magnaðist fjörið. Oft var mikil vinna og borgað fyrir hverja tunnu sem var söltuð. Við borgarstúlkurnar þurftum því að halda okkur vel að verki til að fá eitthvað kaup. Mér varð það til óhapps að ég laskaði þumalinn á vinstri hönd í fjörugum dansi við Magnús Reyni, ljósmyndara með meiru, sem einnig bjó á Seyðisfirði, á dansleik á Iðavöllum uppi á Héraði. Þumalfingur vinstri handar gegnir því lykilhlutverki að þrýsta slóginu út úr síldinni þegar hausinn hefur verið skorinn af og það var sársaukafull áminning um skemmtilegt ball í hvert sinn sem ég þrýsti slóginu út það sem eftir var vertíðarinnar. Ég man hins vegar ekki til þess að hafa ráðfært mig við heilbrigðisstarfsmann um þetta vandamál.

Mikill hamagangur var í öskjunni í söltuninni enda mikilvægur hluti teknanna sem fólk gat náð inn á síldarvertíðinni. Margar konurnar voru ótrúlega snöggar að salta og sannkallaðar bónusdrottningar. Jón Vídalín sá um að stála hnífana okkar, mjög eftirminnilegur og ljúfur maður. Ég man eftir því að ein aðal hamhleypan í söltuninni hálfskar af sér fingur við söltun og var brunað með hana á spítalann. Hún var komin aftur eftir nokkra klukkutíma og byrjuð að salta aftur eins og ekkert hefði í skorist með myndarlegar umbúðir um fingurinn.

Það var oft fjör á verbúðinni og þótti verkstjóranum Jóni M. nóg um og kom eitt sinn æðandi inn í herbergi hjá okkur frekar frústreraður á unga fólkinu. Ég man nú ekki hvað hann sagði en við stelpurnar ákváðum að kæra hann til lögreglunnar og örkuðum þangað til að tilkynna atburðinn. Ég man ekki heldur hvaða lög við töldum hann hafa brotið en okkur fannst við aðallega mjög fyndnar og þrátt fyrir leikræna tilburði á lögreglustöðinni var lítið mark tekið á okkur. (PS. Dögg rifjar upp í kommenti hér að hann hafði kallað okkur hórur af því að einhver strákur fékk að leggja sig á gólfinu í herberginu okkar.)

A person sitting on a couch

Description automatically generated

Með síldinni komu líka sjómenn og þá magnaðist fjörið stundum svo mikið að við læstum okkur inni á herbergi til að verða ekki fyrir í skemmtanahaldi þeirra. (Á myndinni er Dögg að dytta að buxunum sínum á herberginu okkar, rúmteppið voru gamlar gardínur sem við fundum á verbúðinni). Einn morguninn þegar við komum niður í matsal eftir slíkt skrall var óvenjumikið um kúkabrandara í morgunmatnum og þá kom í ljós að einn skipverji af togaranum, Ottó Wathne ef ég man rétt, sem landaði í Norðursíld hafði skilið stykkin sín eftir á stórri pönnu í eldhúsinu og hafði matseljan okkar hún Alla komið að þessu um morguninn. Sannkallaður verbúðarhúmor þar á ferð.

Mér fannst gaman í síldinni og Seyðfirðingar upp til hópa þægilegt og gott fólk. Ég er alin upp við hrepparíg í næsta plássi, hinu taktfasta kaupfélagsplássi Egilsstöðum, og þar var frekar litið niður á fólk í óreiðusama sjávarplássinu þó að fólk léti sig hafa það að fara þangað í Ríkið, hið eina á Austurlandi, og svo til að versla við Köllu frænsku mína sem rak tískuvöruverslunina Bjólfsbæ þar sem ég fékk auðvitað fermingarfötin. Lekkert bindi, skyrtu og ullarvesti. Mamma saumaði pils. Ég var búin að fara í klippingu þegar ég fór í myndatöku í höfuðborginni.

Ég kunni vel við óreiðu þegar ég var 18 ára. Í einu var þó taktur í Norðursíld og það var í máltíðum. Hin indæla Alla matráðskona sá til þess að 6 máltíðir voru framreiddar daglega. Fyrst var smurt brauð sem hún hafði tekið til kvöldið áður sem við gripum fyrir vinnu. Svo var fjölbreyttur morgunmatur kl. 9.30. Þá var auðvitað fiskur í hádeginu og svo kaffitími, kvöldmatur og þessu matarsvalli lauk svo sem kvöldkaffi kl. 9, ef ég man þetta rétt.

Við vinkonurnar vorum nýfluttar frá Danmörku þar sem máltíðir höfðu verið heldur óreglulegri og ef ég man þetta rétt náði ég að bæta á mig 10 kílóum á þessum þremur mánuðum sem ég vann í Norðursíld. Þar held ég að mikið hafi munað um að ég sat við hliðina á Norðurhjarabirninum og varð fyrir áhrifum af hans matarvenjum.

Hreiðar seldi Norðursíld nokkrum árum seinna og síðan fór félagið í gjaldþrot. 

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Inga Jona Traustadottir skrifaði
    Skemmtileg grein frá mínum fæðingarstað 😂 en bjó svosem aldrei þar enn eyddi mörgum sumrum þar hjá ömmu minni á Norðurgötunni og seinna á Austurveginum 😏
    0
  • Dögg Árnadóttir skrifaði
    Þetta var mjög skemmtilegur tími. Takk fyrir að rifja upp. Vegna stöðugrar brælu barst ekki mikil síld á Seyðisfirði og við eyddum held ég meira en við græddum. En við ætluðum að kæra Jón fyrir meiðyrði. Hann kallaði okkur hórur þegar hann sá einhver gaur sofandi á gólfinu hjá okkur.
    1
  • Viglundur Sigurðsson skrifaði
    Skemmtilegur pistill. Höfundur hefur húmor fyrir sjálfri sér.
    1
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Gaman að lesa þessa grein ,sönn og góð.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni