Þessi færsla er meira en ársgömul.

Vantrauststillaga á stjórn Ferðafélags Íslands

Vantrauststillaga á stjórn Ferðafélags Íslands

Á morgun, fimmtudag 27. október er haldinn félagsfundur í Ferðafélagi Íslands þar sem ræða á stöðu félagsins. Ég hef átt í bréfaskiptum við núverandi forseta eftir að ég sendi þeim spurningar sem ég óskaði svara við, mest er varða áreitnis- og ofbeldismál og úrvinnslu þeirra innan félagsins. Þau kusu að boða mig á fund í stað þess að svara spurningunum skriflega, sem mér hefði þótt eðlilegra, og mætti ég forseta og framkvæmdastjóra á fundi í gær. 

Eftir fundinn ákvað ég að leggja fram vantrauststillögu á stjórn félagsins og framkvæmdastjóra og hér er bréfið sem ég sendi þeim rétt í þessu: 

Sæl Sigrún og stjórn FÍ.

Eftir fund okkar í gær og nokkra íhugun hef ég ákveðið að leggja fram vantrauststillögu á stjórn og framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands á félagsfundi 27. október.  Ég óska því eftir að vantrauststillagan verð sett á formlega dagskrá fundarins og að leynileg atkvæðagreiðsla fari fram um hana.

Á fundi okkar varð ég þess áskynja að stjórn og framkvæmdastjóri virðist ekki gera sér fyllilega grein fyrir því hversu alvarlegt er að taka kvartanir um áreitni og ofbeldi ekki alvarlega.

Lagalegar skilgreiningar á áreitni eru skýrar um það hversu alvarleg áreitni er og þær er m.a. að finna í hegningarlögum:

199. gr.

[Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.] 

Og í jafnréttislögum:

14. gr.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.

Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana, félagasamtaka og íþrótta- og æskulýðsfélaga skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og notendur þjónustu verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða skólum.

 

Í yfirlýsingu stjórnar segir að undanfarin fimm ár hafi komið upp sex mál er varða „kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi eða einelti. Öllum málunum er lokið nema eitt er í skoðun hjá faglegum utanaðkomandi aðila.“

Þá segir í yfirlýsingu stjórnar að málin hafi ýmist verið „leyst með sátt á milli aðila, afsögn, skriflegri áminningu, tiltali og tilfærslu í starfi eða samstarfi var hætt eða það ekki endurnýjað.“ Af þeim fimm málum sem við fórum yfir á fundinum enduðu fjögur með því að þolendur þurftu að axla alla ábyrgð á lausn málsins á meðan að menn sem hafa gerst brotlegir við reglur félagsins og landslög, hafa sumir fengið fleiri en eitt tækifæri til að brjóta aftur af sér. Fimmta málið var leyst snaggaralega, en ekki án mótbyrs innan stjórnar, af Önnu Dóru Sæþórsdóttur sem nú hefur sagt af sér embætti m.a. vegna þess hversu lítinn stuðning hún fékk til faglegra og ábyrgra vinnubragða til að leysa slík mál.

Á fundinum varð ljóst að stjórnendur halla sér að mjög þröngum skilgreiningum varðandi áreitnis- og ofbeldismál og er það líkleg skýring á því hversu fá atvik félagið viðurkennir. Þá er tilhneiging til að horfa fram hjá atvikum af völdum þeirra sem starfa fyrir félagið ef áreitnin/ofbeldið á sér stað utan vinnu eða yfirráðasvæða félagsins.

Undanfarna daga hef ég verið í sambandi við fjölda kvenna sem hafa sögur að segja sem tengjast Ferðafélaginu og auðheyrt er að þolendur hafa ekkert traust til félagsins til að leysa slík mál á farsælan hátt. Mér hafa t.d. borist upplýsingar um að atvik er varða einn fararstjóra félagsins skipti jafnvel tugum á vettvangi félagsins. Fjöldi erinda hefur borist mér varðandi sama aðila í störfum hans á öðrum vettvangi.

Því er mín ályktun að stjórn og framkvæmdastjóri hafi brugðist þolendum og fært ábyrgðina af áreitnis- og ofbeldismálum af höndum félagsins og gerenda yfir á axlir þolenda. Málunum er því ekki lokið fyrir þolendur þó að félagið telji sig hafa lokið þeim. Þeim er heldur ekki lokið fyrir almenna félaga og gesti í ferðum félagsins þar sem slík vinnubrögð skapa mikið óöryggi og vantraust. Frumskylda félagsins er gagnvart því fólki sem hefur treyst því fyrir sjálfu sér í sinni útivist og starfi fyrir félagið og því ber skylda til að tryggja öryggi þessa fólks skv. lögum sem vitnað er í hér að ofan.

Í þeim málum sem rakin voru á fundinum er ljóst að það er ekki réttur skilningur sem fram kemur í yfirlýsingu stjórnar að málin hafi verið leyst á farsælan hátt og ekki heldur í samræmi við reglur félagsins né stöðu slíkra mála í landslögum. Þá má ætla að vegna þess hversu illa hefur verið haldið á málum séu þau í raun mun fleiri vegna þess að þolendur tilkynna síður þar sem svo illa er haldið á málum og staðið með fólki í valdastöðum gegn almenningi sem verður fyrir atvikum í þjónustu félagsins.

Ferðafélagið er 95 ára stofnun í íslensku samfélagi sem er almenningseign. Ljóst er að komið er að tímamótum í starfi þess þar sem fara þarf fram stefnumótun sem tekur tillit til þess samfélags sem við lifum í, í dag. Samfélags þar sem konur hafa skorið upp herör gegn aldalangri kúgun í #MeToo-byltingunni. Við gerum miklu meiri kröfur til öryggis okkar, faglegrar úrvinnslu og gagnsæis heldur en núverandi yfirstjórn er fær um að tryggja. Allar lýsingar á því hvernig barist hefur verið gegn úrbótatillögum og -starfi Önnu Dóru fráfarandi forseta vitna um þörfina á endurnýjun. Hluti af þeirri vinnu þarf að vera ítarleg rannsókn á áreitni og ofbeldi innan félagsins. Best er ef slík könnun yrði gerð af rannsóknarstofnun við háskóla og nauðsynlegt er að kynjafræðileg þekking sé í rannsóknarteyminu.

Þó að nú sé verið að breyta vinnubrögðum með því að kalla til fagaðila er það of seint. Of mikill skaði hefur orðið á orðspori og trúverðugleika félagsins af völdum núverandi stjórnenda. Til að endurvinna traust þarf nýtt fólk að taka við stjórn félagsins sem fyrst svo hægt sé að hefja uppbyggingarstarf.

Virðingarfyllst,

Kristín I. Pálsdóttir

 

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni