Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Sjarmatröllin

Sjarmatröllin

Höfundar: Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir

Til sjarmatrölla teljast þau sem leyfist meira en venjulegu fólki af því að þau er sjarmerandi, skemmtileg, óútreiknanleg og, það sem mestu máli skiptir, eru með völd.

Til hagræðingar skulum við tala um sjarmatröll í karlkyni fleirtölu. Þau fyrirfinnast vissulega í kvenkyni en ekki í sama mæli, konur hafa nefnilega ekki sama svigrúm í samfélaginu til að taka sér jafn mikið pláss og sjarmatröllin. Þau eru í fjölskyldum, vinahópum, á vinnustöðum og opinberum vettvangi.

Sjarmatröllin eru yfirleitt sjálfselsk, eða sjálfsdýrkendur, allt snýst um þá og þeirra réttindi – sem eru auðvitað miklu meiri en okkar hinna. Þeir krefjast athygli, virðingar, aðdáunar og skilyrðislausrar fyrirgefningar án þess að sýna iðrun. Ef ekki verða þeir móðgaðir, reiðir, sárir og mikil fórnarlömb. Þeir sýna skaðlega framkomu, svíkja, baktala og hóta. Margir þeirra beita andlegu ofbeldi og sumir einnig líkamlegu.

Að ofansögðu mætti ætla að þessir karlar kæmust ekki langt, við myndum segja við þá; „Nei góði minn, hingað og ekki lengra“. Af hverju gerum við það ekki? Af hverju verða svo miklu fleiri reið, móðguð og sár fyrir þeirra hönd en ekki þeirra sem verða fyrir barðinu á þeim? Af hverju fá þessir tröllkarlar að beygja viðmið um viðeigandi hegðun? Af hverju finnst fólki þeir fyndnir, eldklárir, meistarar, hetjur, snillingar og síðast en ekki síst forsetaefni? Svarið er einfalt. Þeir hafa völdin og þau færa þeim titilinn sjarmatröll.

Við eigum orð yfir þessa hegðun sem styður við bakið á tröllunum, afsakar þá og tryggir þeim áframhaldandi völd. Orðið er „gerendameðvirkni“. Mörgum finnst að sjarmi tröllanna veiti undanþágu frá reglum samfélagsins. Það má ekki tala um að þeir misbeiti völdum sínum, ætlist til sérmeðferðar og undanþága frá reglum samfélagsins.

Sjarmatröllin eru svo sjarmerandi, þeim er fyrirgefið allt og þöggun ríkir um skaðlega framkomu þeirra.

Þegar við veitum slíkar undanþágur frá skráðum sem óskráðum reglum samfélagsins verðum við jafnframt samsek í þeim skaða sem sjarmatröllin valda, bæði opinberlega og í einkalífi. Þagnarmúrinn um bandarískan kvikmyndamógúl og sjarmatröll brast einmitt með miklum hvelli þegar #Metoo-byltingunni var hrundið af stað.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni