Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Taugalíffræðiþráhyggjan

Taugalíffræðiþráhyggjan

Á föstudag var útsending í tilefni af árlegri söfnun SÁÁ. Það kom mér á óvart hversu umræðan var einangruð við sjúkdómsorðfæri í þættinum, ekki síst hjá fagfólkinu, og lítil sem engin áhersla á félagslegar og kynbundnar breytur þegar kemur að þróun vímuefnavanda. Þetta er í hrópandi ósamræmi við þær miklu breytingar sem eru að verða í málaflokknum, bæði hér á landi og erlendis, þar sem verið er að hverfa frá sjúkdómsvæðingu vímuefnavanda. Segja má að íslensk yfirvöld hafi viðurkennt með frumvarpi félags- og barnamálaráðherra að vímuefnavandi er að mestu leyti félagslegur og afleiðing erfiðrar reynslu í æsku.

Það er því furðulegt að hlusta á hversu ríkjandi sjúkdómshugtakið og meðvirknihugmyndfræðin er í orðræðu og meðferð hjá SÁÁ. Tolli braut þessa umræðu þó upp en að öðru leyti var þátturinn óþægilega nálægt því sem þótti gott og gilt á níunda áratugnum og tungutakið hjá fagfólki, og stjórnendum þáttarins, var oft á þeim nótum sem alþjóðlegar stofnanir hafa dæmt úr leik. T.d. kemur fram í nýlegri handbók um forvarnir frá EMCDDA – Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn - að nota skuli orðin ‚vímuefnanotandi‘ og ‚vímuefnanotkun‘  en ekki ‚fíkn‘ og ‚fíkill‘ sem séu úrelt, erfitt að skilgreina og henti ekki breyttum viðhorfum samfélagsins.  

Auðvitað skilgreinir fólk sig sjálft og notar þau hugtök sem það vill en fagfólk, yfirvöld og blaðamenn ættu að vera ábyrg og fylgja leiðbeiningum alþjóðastofnana um bætta og nútímalega hugtakanotkun.

Af hverju er fíkn ekki heilasjúkdómur? Lance Dodes hefur skrifað mikið um það efni og eftir að hafa hlustað á þáttinn þýddi ég ágæta grein hans „Hættuleg taugalíffræðiþráhyggja“ og þar segir m.a:

Í fjölda ára hefur þeirri hugmynd statt og stöðugt verið haldið að almenningi að fíkn sé „heilasjúkdómur“ sem þróist vegna galla í taugalíffræði heilans. Þetta er rangt. 

Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að þessi ranghugmynd er hluti af stærri rangtúlkun, þ.e. á sálarfræði mannsins, og að hægt sé að smætta þau hugarferli sem gera okkur mennsk niður í rafboð sem taugafrumur senda í heilanum. Þessi hugmynd horfir alveg fram hjá þekkingu sem orðin er hluti af nútíma eðlisfræði, flækjufræði (e. Complexity Theory).

Greinin er aðgengileg á vef Rótarinnar.

Á þessari mynd úr World Drug Report 2018 má sjá verndandi- og áhættuþætti varðandi þróun vímuefnavanda:

Þarna má sjá hina skýru félagslegu tengingu vímuefnavanda og á þeirri næstu niðurstöður rannsóknar á erfiðri reynslu í æsku (ACE Study) um aukna hættu á skaðlegri notkun áfengis eftir því hvað fólk hefur lent í mörgum tegundum áfalla í æsku. ACE-spurningarnar eru 10 og stigin eru mæld með því að telja hversu mörgum jáum og neium fólk svarar með. Á myndinni sést að aðeins 2,4% þeirra sem svara því játandi að þau hafi ekki lent í neinum áföllum í æsku eru með áfengisvandamál en 16% þeirra sem segjast hafa lent í fjórum áföllum.

En af hverju skiptir það máli fyrir fólk sem leitar sér meðferðar við sínum vanda hvort að vímuefnavandi er að miklu leyti félagslegur eða byggir á erfðum? Það er af því að meðferðin mótast mjög af því hvort hún byggir á þeirri hugmynd að um sé að ræða brenglaða taugalíffræði eða ef áhersla er á að vinna með sögu einstaklingsins. Það er líka athyglivert að þrátt fyrir gríðarlega áherslu á að vímuefnavandi sé heila- og taugasjúkdómur vinnur mér vitanlega enginn heila- og taugalæknir við vímuefnameðferð hér á landi. Heilasjúkdómskenningin hefur þar að auki mjög litlu bætt við „lækningar“  á fíkn. 

Nýlegar rannsóknir á þjónustuþegum SÁÁ sýndu „að 99% þátttakenda höfðu upplifað alvarlegt áfall á lífsleiðinni. Þá höfðu 81% orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og 55% upplifað kynferðisofbeldi. Niðurstöður bentu ennfremur til að 67% skjólstæðinga SÁÁ uppfylltu viðmið fyrir einkennum“ áfallastreituröskunar. Önnur rannsókn á þjónustuþegum SÁÁ sýndi að um 59% karla og 75% kvenna náðu skimunarmörkum fyrir áfallastreituröskun. 

Einu sinni voru það mannréttindi fyrir fólk með vímuefnavanda að fá viðurkenningu á því að ‚alkóhólismi‘ sé sjúkdómur. Það er ansi langt síðan og í dag þykir lítið valdeflandi að vera með „ólæknandi heilasjúkdóm“ og mannréttindin falin í því að horfast í augu við að vímuefnavandi er að mestu leyti afleiðing áfalla, ofbeldis, vanrækslu, tauga- og þroskaraskana og jaðarsetningar. Því er erfitt að horfa upp á að enn sé verið að innræta ungu fólki sem kemur til meðferðar, iðulega með erfiða sögu, að ‚sjúkdómurinn‘ eigi eftir að fylgja þeim til æviloka, þegar rannsóknir sýna allt annað. 

Starfsferill Lance Dodes hefur snúist um rannsóknir á vímuefnavanda hjá nokkrum af virtustu mennta- og heilbrigðisstofnunum Bandaríkjanna og bókin hans The Sober Truth: Debunking the Bad Science Behind 12-Step Programs and the Rehab Industry fjallar á gagnrýninn hátt um þær hugmyndir sem hafa verið ríkjandi í meðferðarkerfinu hér og ég mæli eindregið með henni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu