Tortóla-geit Sigmundar
Tortólu-mál Sigmundar Davíð og eiginkonu hans er allt hið vandræðalegasta. Svona gott dæmi um það þegar menn skjóta sig í fótinn, nokkuð sem hefði verið hægt að forðast, hefði rétt verið að málum staðið. En kannski er forsætisráðherra vor ekki með nógu góða ráðgjafa, hver veit?
Að sjálfsögðu hefði Sigmundur átt að koma strax fram og viðurkenna að honum hefðu orðið á mistök í málinu og viðurkenna þá staðreynd að þetta er mjög vandræðalegt fyrir hann og eiginkonu hans. Auðvitað er leiðinlegt að vera skrifa um konuna hans, hún á ekkert vera í sviðsljósinu sem skapast í kringum persónu Sigmundar, sem er opinber persóna, enda æðsti stjórnandi okkar litla eyríkis. En þetta er einn af fylgikvillum þess að vera í pólitík og það valdi Sigmundur Davíð.
Fj...nálægðin!
Málið afhjúpar líka þá staðreynd hvað það er erfitt að vera ríkur í jafn litlu landi og Íslandi. Já, það er erfitt að vera ríkur og vita ekki hvernig maður á nota sitt fé, upplifa hindranir í því að láta peningana vinna fyrir sig eins og fram kefur komið. Það hlýtur að vera martröð hvers fjármagnseiganda.
Hér kemur líka íslenska nálægðin og smæðin inn af fullum þunga. Nokkuð sem menn hafa litið á sem mikinn kost í gegnum tíðina (sérstaklega í góðærinu - „stuttu boðleiðirnar“ og allt það!). En í þessu er þetta óhjákvæmilega mikill ókostur. Og á tímum allsherjar netvæðingar Íslendinga, sem er sú hæsta í heimi, verður ekki hjá því komist að mál sem þessi komist í hámæli. Annað væri jafnvel eitthvað skrýtið.
Súrréalismi
En fólki finnst þetta allt saman svo rangt og sjúkt, þó að þetta sé kannski ekki rangt í lagalegum skilningi. Þó að allir skattar og allt hafi verð borgað þarna á Tortóla (sem er hvar?). Það er líka sérkennilegt fyrir fólk að horfa upp á manninn sem hefur barist svo hatrammlega við hrægammana/kröfuhafana allt í einu vera kominn í þá stöðu að hans eigin kona er í þeim hópi. Þetta verður allt svo öfugsnúið og fráránlegt, eins og tekið út úr súrréalísku leikriti, þar sem áhorfendur botna ekki neitt í neinu.
Og svo er það að sjálfsögðu þetta með traustið. Á Íslandi er traust ,,skortvara“ að því leyti að það er mikil leitun að trausti í samfélaginu. Og út lit fyrir að svo verði áfram. Það má jafnvel velt því upp hvort hið pólitíska kerfi sé bara ekki komið í allsherjar blindgötu, alla leið inn í skrambans botnlangann. Það þarf í raun algeran viðsnúning, heildar endurræsingu.
Þó að það séu liðin átta ár frá Hruni, að þá eru enn mikil sár í samfélaginu. Og heift. Hún getur brotist út með ýmsum hætti, þar á meðal á netinu og í fjölmiðlum. Sem hún og gerir.
Stíga fram?
Það besta sem forsætisráðherra getur gert núna er að stíga fram og tala við þjóðina. Ekki bara við Útvarp Arnþrúði (Sögu). Viðurkenna að hann hefði kannski getað gert betur eða gert öðruvísi. Viðurkenna að þetta sé óheppilegt. Ekki fela sig á bakvið hluti (,,Bar ekki siðferðileg skylda...“ o.s.frv.). Það er bara mannlegt að gera mistök. Og forsætisráðherra; þú ert bara maður, einstaklingur með kosti og galla. Eins og við öll hin, almúginn.
-GH
Athugasemdir