Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Stunda Rússar þjóðernishreinsanir í Úkraínu?

Stunda Rússar þjóðernishreinsanir í Úkraínu?

Slobodan Milosevic, leiðtogi Serbíu í borgarastríðinu á árunum 1991-1995 í gömlu Júgóslavíu (og síðar forseti Serbíu) átti sér draum um Stór-Serbíu.

Þessi draumur hans byggðist meðal annars á atburðum sem gerðust árið 1389 þar sem nú er Kosovo. Þar börðust Serbar við Ottómana (Tyrki). Fyrir meira en 600 árum síðan.

Í stríðinu í Júgóslavíu var beitt grimmilegum þjóðernishreinsunum (,,ethninc cleansing“), sem fólust í því að sprengja upp híbýli fólks í sundur, hrekja það á flótta og myrða. Sterkari birtingarmynd fordóma er ekki hægt að hugsa sér.

Vukovar lögð í rúst

Þetta sást meðal annars vel í árás Serba og Alþýðuhers Júgóalvíu á króatísku borgina Vukovar árið 1991. Alþýðuher Júgóslavíu var einn stærsti og öflugasti her Evrópu á þessum tíma. Á um 90 dögum sundursprengdu liðsmenn hans Vukovar og hröktu íbúana, sem flestir voru Króatar, á brott. Um 1800 borgarbúar féllu.

Í framhaldi af stríðinu var Milosevic handtekinn og kærður fyrir þjóðarmorð (genocide), glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi af sérstökum dómstól í Haag. Hann lést hins vegar árið 2006 í varðhaldinu, áður en dómur var kveðinn upp. Tekið skal fram að aðilar frá bæði Króötum og Bosníu (Bosníu-múslimar) voru einnig handteknir og ákærðir fyrir stríðsglæpi. Flestir voru þó Serbar frá serbneska lýðveldinu í Bosníu, Republika Srbska.

Slátrun í Srebrenica

Alvarlegustu stríðsglæpirnir í þessu stríði voru þó á nokkurs efa framdir þegar Bosníu-Serbar, undir stjórn Radko Mladic slátruðu um 7-8000 múslimskum drengjum og körlum í bænum Srebrenica sumarið 1995. Fóru með þá út í skógana í kringum bæinn og myrtu þá.

Önnur dæmi um þjóðernishreinsanir má nefna; Þjóðernishreinsanir Serba (aftur!) í Kosovo árið 1999, sem leiddu til loftárása NATO á Belgrad, sem og framferði hersins í Myanmar (áður Burma) í Asíu, þar sem þúsundir Róhingja (múslimar) hafa verið myrtir og um 700.000 hafa flúið heimili sín.

Mér detta þessir atburðir í hug þegar ég sé myndir frá framferði Rússa í Úkraínu og ég fæ ekki betur séð en þetta sé sama aðferðafræði; að sprengja allt í tætlur og hrekja íbúana þannig á brott. Og þar með ,,hreinsa“ viðkomandi svæði af Úkraínumönnum. Er það þá ekki það sem kallast ,,þjóðernishreinsanir“?

Grozný lögð í rúst

Miskunnarleysi Rússa virðist vera algert og þetta minnir mjög á aðferðir þeirra í Téténíu í tveimur styrjöldum sem þeir áttu í þar við íbúa þess héraðs, sem vildi kljúfa sig frá Rússlandi. Þetta var á árunum 1994-1996 (fyrra Téténíustríðið) og frá 1999-2009 (það seinna). Þá bókstaflega sprengdu þeir höfuðborg Téténíu, Grozny, í tætlur. Myndir af henni minna helst á Stalíngrad, og ýmsar borgir í Þýskalandi, í seinni heimsstyrjöld. Hörmuleg mannréttindabrot fylgdu þessu; rán, nauðganir og aftökur án dóms og laga.

Snilldarplan Pútíns?

Er þetta virkilega snilldarplan Pútíns? Að ráðast á almenna borgara, sjúkrahús, skóla, fæðingarheimili? Ætlar hann að taka sundurspengja Úkraínu inn í ,,heimsveldi“ sitt sem hann er að reyna að ,,byggja“ með þessum ömurlega hætti? Ætlar hann síðan að stuðla að uppbyggingu Úkraínu? Því eins og segir í hinni frægu Víetnam-stríðsmynd, Apocalypse Now, eftir Francis Ford Coppola; ,,..one day, this war is going to end,“ eða ,,dag einn mun þessu stríði ljúka.“ Eða ætlar hann bara að skilja eftir sig sviðna jörð? Manni dettur það í hug.

Að hlusta á ræður ráðamanna Rússa um fasista, efnavopnaverksmiðjur og fleira slíkt er eins og að horfa á leikhús fáránleikans. Rússar eru búnir að tapa Úkraínu um fyrirsjáanlega framtíð. Hafi þeir einhvern tímann átt einhverja sameiginlega þræði og góðvilja Úkraínumanna, er nánast gulltryggt að það er endanlega farið út á hafsauga. Pútín er maðurinn sem fékk alla Úkraínu upp á móti sér, nema helst þá íbúana í Donetsk og Luhansk, í svokölluðum ,,alþýðulýðveldum" sem klufu sig frá Úkraínu árið 2014, sama ár og Pútín innlimaði Krímskaga. Þá hófst fyrsti fasi þessara átaka og í honum hafa um 14.000 manns látið lífið.

Lítið um bræðralag

Úkraínumenn eru um 44 milljónir og nú eru meira en 2 milljónir þeirra á flótta. Úkraína gekk í gegnum ólýsanlegar hörmungar í seinni heimsstyrjöld, ásamt Rússum, en gjarnan er talað um þessar tvær þjóðir sem bræðraþjóðir, enda skyldleikinn mikill. Saman áttu þær stóran þátt í að brjóta nasismann á bak aftur. Nú er allt tal um bræðralag horfið.

Og nú er það svo að ,,stóri aðilinn“ í þessu sambandi, Rússar, virðist ætla að ganga á milli bols og höfuðs á hinum minni, með aðgerðum sem ég get ekki betur séð en að flokkist undir ,,þjóðernishreinsanir“ og því sem kalla mætti ,,hin sviðna jörð“-stefnu Pútíns. Hendur hans eru nú ataðar úkraínsku blóði og það án nokkurrar ástæðu. Umræða um stríðsglæpi er þegar hafin.

Öllum aðferðum lyga og svika er beitt, þetta er líka mikið áróðursstríð. Ekki má tala um ,,stríð“ eða ,,innrás“ í Rússlandi, við því liggur fangelsi allt að fimmtán árum samkvæmt nýlega settum lögum. Rússland er nánast orðið algert einræðisríki undir stjórn Pútíns og tökin eru í sífellu hert.

Mesta innrás frá seinna stríði

Það sem Vladimír Pútín (ber sama fornafn og forseti Úkraínu!) kallar ,,sértækar hernaðaraðgerðir“ er ekkert annað en mesta innrás i Evrópu frá lokum seinna stríðs. Pútín hefur kastað álfunni út í stríðsátök og auki gríðarlega á spennu í alþjóðasamskiptum. Það er sannleikur málsins, en sannleikurinn er eitthvað sem virðist skipta Pútín litlu máli.

Í hans huga er það vald, algert vald, yfirráð og draumur um endurreist heimsveldi, sem einu sinni var til, en ekki lengur. Og að ætla sér að endurreisa það með sprengjuregni og ofbeldi er vægast sagt einkennilegt, sú aðferð virkar einfaldlega ekki lengur. Þú sprengir ekki fólk til hlýðni.

Greinin birtist fyrst á www.kjarninn.is

Mynd (samsett): Vladimír Pútín, Vukovar 1991, grafreitir í Srebrenica, Slobodan Milosevic: Wikimedia Commons 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.