Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Strengajabrúðulýðræði, nei takk!

Strengajabrúðulýðræði, nei takk!

Eftir hina æsilegu pólitísku atburði vikunnar er eitt alveg á hreinu; Ísland þarf ekki að innleiða strengjabrúðulýðræði: Þar sem varaformanni og pólitískri varaskeifu Framsóknarflokksins er skipað inn á leikvöllinn í stað forsætisráðherra og formanns, sem framdi sjálfur pólitískt harakiri, með sneypuför sinni til Bessastaða. Sem var svo sneypuleg að forseti Íslands rauf eftir fundinn ákveðna hefð og hélt einstakan blaðamannafund. Þar skammaði hann forsætisráðherra með smekklegum hætti, en innihaldið á mannamáli var að sjálfsögðu: Svona gera menn ekki og mér líkar ekki að vera notaður sem pólitískt verkfæri forsætisráðherra, til þess að aga samstarfsflokkinn.

Og eftir þetta allt saman, afsögn forsætisráðherra (sem menn eru með fáránlegum hætti að reyna að draga til baka með enskri fréttatilkynningu og sem blaðamaður Financial Times kallaði ,,farsa“) þá á að stíga á stokk maður sem hvað dyggast hefur varið gjörðir fyrrum (?) forsætisráðherra  (,,flókið að vera ríkur á Íslandi – einhversstaðar verða peningarnir að vera“) og sem EKKI nýtur trausts nema 3% landsmanna, samkvæmt könnun nú í mars!

Ætlar þessum fíflagangi bara ekkert að linna?

Markmið gærdagsins með öllum spunanum og öllum fléttunum (sem faðir Sigmundar Davíðs er svo ofboðslega stoltur af) er aðeins eitt: Að stjórnmálamenn, sem eru kjörnir fulltrúar landsmanna á lýðræðislegan hátt, en eru búnir að glata og missa úr höndunum traust almennings, geti haldið heljartökum um VALDIÐ í samfélaginu. En eftir mestu og fjölmennustu mótmæli frá upphafi byggðar á Íslandi, þar sem skýr krafa um kosningar kom fram, en ekki Sigurð Inga sem forsætisráðherra. Með þessu er lýðræðinu gefið langt nef.

Það einu sinni virðist ekki duga til þess að menn fari að hugsa sinn gang. Er þá ekki allt keyrt um þverbak? Er þá ekki búið að gefa bæði fullkomlega skít  í (afsakið orðbragðið) bæði almenning og lýðræðið á Íslandi? Hvað er þá raunverulega eftir? 

Og ég endurtek: Engar strengjabrúður á leiksviðið, nei takk!

(Mynd: Pixpay.com - Open Source)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni