Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sláturtíð stjórnmálanna

Sláturtíð stjórnmálanna

Svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn með nýtt slagorð: ,,Berjum á bumbur.“ Bumbur miðaldra karlmanna, sem virðast, samkvæmt útkomum úr prófkjörum flokksins fyrir skömmu hreinlega hafa valtað yfir konur flokksins. Konum í flokknum var hreinlega hent út á hafsauga í þessu prófkjöri. Fýlan lekur af þeim og kannski ekkert skrýtið.

Hversvegna það gerðist veit í raun enginn – það virðist enginn vita, aldrei, hversvegna það gerist í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins, sem gerist. Það bara gerist einhvern veginn  og menn (og konur) kalla það lýðræði.

Kannski er það bara þannig að þeir vinna í prófkjörum ,,Bumbuflokksins“ sem eru duglegastir við að smala, eins og menn séu í réttum, dragandi í dilka, hanga í símanum, hringja út og suður, vera á fésbókinni, senda tölvupósta og þess háttar. Annað eins hefur maður nú heyrt.

En það fer alltaf einhvern veginn allt upp í loft í Sjálfstæðisflokknum þegar haldin eru prófkjör, en samt eru menn sannfærðir um að þetta sé besta leiðin. Að prófkjör séu besta ,,markaðslausnin“ sem í boði er, og lögmálið; hinir hæfustu lifa af, er haft í heiðri.

Þannig er nú það og ,,ég áidda - ég máidda" blívur hjá flokknum.

En það er sláturtíð víðar en í hinum markaðssinnaða Sjálfstæðisflokki.

Framsóknarflokkurinn virðist einnig vera að slátra sér í frumeindir. Og það er bara allt í lagi. Það er ekkert lögmál að Framsóknarflokkurinn eigi að vera til. Farið hefur fé betra!

Flokkurinn er eins og knörr (víkingaskip) sem er að brenna í sundur, en á sitthvorum bátsendanum er sitthvor skipperinn; Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi. Með sína víkingahjálma, sverð og skjöld, eru þeir að reyna að stýra þessu fleyi, sem er þó stefnulaust og er á góðri leið með að tortíma sjálfu sér.

Það er átakanlegt að fylgjast með þessu. En ,,óheppnasti“ formaður Íslandssögunnar (sem ,,lenti“ óvart í því að vera kröfuhafi í föllnu bankana og segja ósatt í fjölmiðlum- Wintris, þið munið), á í vök að verjast og berst fyrir sínu pólitíska lífi. Svo er þetta náttúrlega allt saman eitthvað risastórt samsæri, hann er hundeltur og ,,hakkaður“ og hvaðeina. Það eru erfiðir tímar, segir í kvæðinu og það á svo sannarlega við um sitjandi formann íslenska Bændaflokksins. 

Já, þetta er allt saman hábölvað. 

En við skulum bara slaka á og fá okkur slátur, frá landbúnaði, sem núverandi ríkistjórn virðist líka vera orðin nokkuð sammála um að slátra, sérstaklega hjá þeim sem stunda rolluskjátubúskap. Enda hefur ekki neinn lifandi maður lifað almennilega af því að vera með rollur og því þurft að stunda aðra vinnu með. 

Þegar uppi var hér sú hugmynd að sækja ætti um aðild að ESB, görguðu bændur manna hæst að aðild að ESB myndi ganga af landbúnaðinum dauðum.

Mér sýnist núverandi forsprakkar íslenska landbúnaðarkerfisins hinsvegar vera á góðri leið með að gera það sjálfir. Það er mjög kaldhæðnislegt.

Og þetta gerist á vakt flokksins sem einu sinni þóttist vera velferðarflokkur og flokkur bænda og dreifbýlis. Flokkurinn virðist vera fullkomlega vanhæfur um að sjá um ,,sitt eigið fólk“ – enda logar flokkurinn stafnanna á milli. Og slökkviliðið er ekki á vakt, vegna niðurskurðar.  

Óneitanlega skondið, en sorglegt þó.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni