Rússíbanareið inn í helvíti
Það tók mig um 10-15 mínútur að jafna mig eftir þessa mynd. Því mér leið eins og ég hefði farið í rússíbanareið inn í helvíti. Á jörð. Það var eins og ég hefði verið fylltur af blýi. Langt er síðan kvikmynd hefur skilið eftir sig jafn mikinn hrylling, óbragð í munninum og mikla löngun til þess að líta undan. Því þetta var verulega óþægilegt. Og maður klípur sig í handlegginn og spyr sig - hvernig er þetta hægt? Hvernig VAR þetta hægt? Getur þetta gerst aftur?
Kvikmyndin sem um ræðir er Sonur Sál (Son of Saul) og er sýnd í Bíó Paradís. Hún er frá því í fyrra og er eftir Ungverjann Lázló Nemez. Hún lýsir um sólarhring í útrýmingarbúðunum Auschwitz og þeirra ,,starfsemi“ sem fór þar fram.
Án þess að fara nánar út í söguþráðinn, þá er langt síðan ég hef séð jafn mikla ringulreið, óskipulag, örvæntingu, mannvonsku, hatur, djöfulgang og brjálæði samankomið í einni kvikmynd.
En í grundvallaratriðum fjallar myndin líka um það hvað verður um okkur þegar alræðisstefnur á borð við fasisma, nasisma og botnlausa kynþáttahyggju, taka völdin. Það er ekki fögur sjón sem birtist þá.
Þess vegna á þessi Óskarsverðlaunamynd erindi einmitt núna, þegar uppi eru áhyggjuraddir einmitt þess eðlis að frjálslyndi og umburðarlyndi eigi verulega undir högg að sækja í stjórnmálum og þar af leiðandi samfélagsmálum. Beggja vegna Atlantshafsins og jafnvel hér á Íslandi líka.
Og þá erum við að ræða um skort á virðingu gagnvart því sem er öðruvísi en við, hvort sem það er kynþáttur, trú, skoðanir og gildi, eða eitthvað annað. Aukin óþolinmæði, styttri ,,kveikiþræðir“ og þess háttar.
Dokum við, hugsum aðeins. Það eru til sagnfræðilegar viðvaranir, sem við getum ekki horft framhjá. Viljum við að þær verði aftur raunveruleiki?
-GH
Athugasemdir