Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

HITNAR Í NÝJU KÖLDU STRÍÐI STÓRVELDANNA

HITNAR Í NÝJU KÖLDU STRÍÐI STÓRVELDANNA

Margt bendir til þess að nýtt kalt stríð sé í uppsiglingu á milli Rússlands og Bandaríkjanna/Vesturveldanna, já og það sé jafnvel hafið.

Sjaldan hefur eftirspil eftir kosningar í Bandaríkjunum valdið eins miklu fjaðrafoki og nú. Donald Trump vann kjörmannavalið, en Hillary vann kosningarnar á landsvísu og er með um tæpum þremur milljónum fleiri atkvæði en Trump. Ekki skrýtið að raddir um endurskoðun á kosningakerfinu hafi gerst háværar. Litlar líkur verða þó að teljast á því að slíkt muni gerast.

,,Hökkunarmálið" er þó það mál sem hefur hleypt hvað verstu blóði í samskipti Rússa og USA/Vestursins, en það snýst í sem fæstum orðum um það að Rússar hafi hakkað sig inn í tölvukerfi demókrata og lekið þaðan upplýsingum um Hillary Clinton í Wikileaks, sem lak þeim síðan áfram.

TÖLVUSTRÍÐ

Þetta er hin ,,nýja tegund stríðs“ - ,,Cyberwarfare“ – tölvuhernaður, ef svo má að orði komast. Öll alvöru herveldi hafa verið að búa sig undir þessa tegund af hernaði í þó nokkurn árafjölda og meðal Norðurlandaþjóðanna eru Svíar kannski hvað helst þeir sem eru komnir nokkuð á veg með þetta. Í orðfæri þeirra er tala um hinn ,,stafræna hermann“ (digitala soldat).

Allir sem vita eitthvað um internetið gera sér grein fyrir að baráttan um upplýsingarnar er að komast á hærra plan en áður, og þetta plan er óþekkt. Sama hvort um er að ræða misheppnuð ríki (failed states) á borð við N-Kóreu eða helstu hernaðarveldi heims; Rússa eða Kana. Baráttan um hinn ,,stafræna heim“ er ef til vill þriðja heimsstyrjöld hinnar 21.aldar.

ÓGEÐSLEG KOSNINGABARÁTTA

Það er sagt að fyrsta fórnarlamb allra stríðsátaka sem sannleikurinn. Þetta hljómar eins og klisja, en þetta er engu að síður satt. Ef líta má á baráttuna um forsetaembættið á milli þeirra Trump og Clinton, sem ,,stríð“ – baráttu, þá var hún blóðug og skítug. Já, hún var ógeðsleg! Öllum meðulum var beitt. Rétt eins og í alvöru stríði.

Falsaðar fréttir frá Makedóníu, þar sem næstum heilt þorp var sett á launaskrá við að búa til ,,drullu og skít“ og ósannindi, eru ef til vill besta dæmið um þann pólitíska veruleika sem við nú búum við. Spunameistarar 21.aldarinnar nýta sér vesæld atvinnulausra ungmenna til þess að búa til lygi og óhróður og þetta er allt saman gert gjörsamlega grímulaust. Rétt eins og þetta sé bara orðið ,,norm“ – hið eðlilega. Síðan á pöpullinn að reyna að greina lygina og bullið frá því sem sannara reynist. Og mynda sér skoðun út frá því!

VALDASJÚKLINGAR

Út frá þessu ,,hökkunarmáli“ Rússanna er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að Trump sitji (að minnsta kosti að hluta til) í embætti (eftir hann tekur við þann 20.janúar á næsta ári) í skjóli herrans í Kreml, Vladimírs Pútíns. Það var áhugavert að heyra Trump mæra Pútín í kosningabaráttunni og lýsa fjálglega leiðtogahæfileikum Rússans, en á mót að gera sem minnst úr leiðtogahæfileikum Baracks Obama, sem hefur verið forseti í Bandaríkjunum í átta ár. Hann er ekki valdasjúklingur eins og Pútín, sem lét breyta stjórnarskrá landsins á sínum tíma, til þess að tryggja sér völdin í Rússlandi til 2024.

Við þennan valdasjúka mann þarf Trump að ,,díla“ við á alþjóðasviðinu, en Trump sjálfur er jú vanur að hafa öll völd á sinni hendi, þannig að þessi ,,slagur“ verður mjög athyglisverður. Val Trumps, á annarri Pútín-sleikju, olíuguttanum Rex Tillerson, sem utanríkisráðherra er einnig mjög athyglisvert. Sá segist hafa mjög góð sambönd við Pútín og fékk hann sérstaka vináttuorðu Rússlands (Order of friendship) árið 2013. Má vera að þeir Rex (konungurinn) og Pútín nái mjög vel saman á olíusviðinu, en alþjóðamál eru ekki bara olían ein, þó hún sé nokkuð stór hluti af valdaspili heimsins.

HALTU ÓVINUM ÞÍNUM NÆR

Samkvæmt frétt í Dagens Nyheter þann 21.desember eru samskipti Rússa og Kana (vegna hakkmálsins) nú sögð vera í algeru lágmarki og sögð vera á lægsta sviði stjórnsýslu ríkjanna. Sem þýðir að steymi upplýsinga er í lágmarki. Það er hættulegt. Vegna þess að það er nauðsynlegt að vita hvað andstæðingurinn er að gera, hvernig og hvenær. Og hér sannast hið fornkveðna: ,,Haltu vinum þínum nálægt þér, en óvinum nær.“ (Keep your friends close, but keep your enemies closer).

Hökkunarmálið og samskiptin við Rússa verða því að öllum líkindum fyrsti og helsti prófsteinn Trumps og olíu-Rex gagnvart ,,hinni sterku hönd Rússlands“ – Vladimír Pútín, sem kallar ekki allt ömmu sína í alþjóðamálum og hikar ekki við að brjóta alþjóðalög og reglur.

Hér er mjög góð heimildamynd frá FRONTLINE (ekki BBC, eins og segir á Youtube) um Pútín: https://www.youtube.com/watch?v=NOCJENwsdJw

Uppfærsla 22.12.2016: Bandaríska NBC birti frétt þess efnis að verið væri að opna skriðdrekageymslur í Hollandi, sem yrðu fylltar á ný með bandarískum M1 Abrams skriðdrekum, sem eru þeir fullkomnustu í heim. Þetta er enn ein staðfestingin á versnandi sambúð Austurs og Vesturs. Mjög langt er síðan skriðdrekaherdeildir hafa verið í Evrópu. 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni