Hinn eilífi forseti lýðveldisins
Sumt er svo „vírað“ á Íslandi að almenn skynsemi og skilningur ná bara ekki utan um það. Maður stendur bara og klórar sér í höfðinu og á ekki til orð.
Og núna líður mér eins og ég búi í Norður-Kóreu. Þar er enn starfandi forseti sem er ekki í tölu lifenda. Hann er ,,hinn eilífi forset lýðveldisins“ en kvaddi jarðlífið árið 1998 og milljónir íbúa landsins grétu sig rauða, hvað annað, enda landið marx-leníniskt alræðisríki af ,,bestu gerð.“
En svona er þetta bara hérna á Íslandi, við erum svo ,,vel stödd“ að við bara losnum ekki við forsetann. Það gengur allt svo rosalega vel að hann er algerlega ómissandi. Það er allt í himnalagi, eins og segir í laginu með Helga Björns og Grafík!
Auðvitað eigum við bara að vera þakklát. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að eitthvað lið utan úr bæ, sem hefur ekki hundsvit á stjórnarskránni, þekkir ekki muninn á VG, Pírötum eða Framsóknarflokknum og mun aldrei kunna að beita málskotsréttinum, ætli sér að verða forseti. Nei takk, það er fagmaður á staðnum, sem kann þetta allt saman miklu betur en allir aðrir. Við þurfum enga ,,grillara" á Bessastaði! Jú, kannski þá sem geta grillað þjóðina, aftur og aftur.
Og það að hann njóti blessunar bændanna í Stjórnarráðinu, það er bara frábært. Sigurður Ingi og Ásmundur Einar vita það að gamla bændalýðræðið er það sem er best fyrir hina hræddu og reiðu þjóð.
Ég ætla ekkert að fjalla efnislega um rök forsetans, en hann er náttúrlega búinn að stela senunni eina ferðina aftur og búinn að ryðja úr vegi framboðum annars fólks, sem langaði til að verða forseti, vildi fá eitthvað nýtt blóð á Bessastaði. Hann gerir það aftur á móti ekki vegna sinnar löngunar, heldur vegna þess að hann heldur að hann sé ómissandi. En enginn er ómissandi. Ekki einu sinni kamelljónið á Bessastöðum. Hann bara þekkir ekki sinn vitjunartíma. Og bara neitar að fara!
En það er deginum ljósara að valdaelítan hefur gjörsamlega farið á límingunum við mótmælin sem sköpuðust vegna Simma Gunnlags og Wintris. Þar hefur valdastéttin virkilega áttað sig á að það er til afl hér í þessu samfélagi, sem hún álítur ógn við sig og þau forréttindi sem hún nýtur. Ólafur Ragnar er maður þessa fólks; sem vill engar breytingar, sem vill hafa áfram óheftan aðgang að kjötkötlum þessa lands og þeirra auðæfa sem þeir færa valdastéttinni og fylgisveinum hennar.
Ný stjórnarskrá skiptir þetta fólk til dæmis engu skrambans máli, afnám verðtryggingar, hvað þá síður eða loforð um þjóðaratkvæði um framhald viðræðna við ESB. Öll þessi atriði eru bara svo léttvæg í samanburði við þá þjóðarnauðsyn að spillingaröflin haldi sínu, að valdamaskínurnar haldi áfram að mala í skjóli bóndans á Bessastöðum. Það er Íslandi fyrir bestu. Gleðilegt sumar.
Athugasemdir