Hagsmunir framhaldsskólakennara
Í tilefni af formannskjöri í FF - Félagi framhaldsskólakennara:
Dagana 17. til 23. september fer fram kosning til formanns Félags framhaldsskólakennara. Þar er ég í framboði sem áskorandi á starfandi formann, en hann tók við fyrr á þessu ári, þegar Guðríður Arnardóttir fyrrum formaður lét af embætti.
Eftir jákvæða hagsveiflu frá 2010/11 (einnig nefnt ,,góðæri”) má kannski segja að það séu nú frekar dimm ský við sjóndeildarhringinn í efnahagsmálum landsins. Hagvöxtur hefur verið að minnka og sérfræðingar segja að það geti brugðið til beggja átta í þeim efnum. Við vitum þó ekki fyrir víst hvernig næstu misseri verða hjá okkur, en vonum að sjálfsögðu hið besta.
Launin mál málanna
Óneitanlega spilar þessi staða inn í eitt helsta hagsmunamál okkar framhaldsskólakennara, þ.e.a.s. launamálin. Sumir segja að við séum þegar byrjuð að dragast aftur úr, en í síðustu samningum náðum við fram ákveðinni ,,leiðréttingu”. En ég er orðinn svolítið leiður á að vera sífellt að tala um leiðréttingar fyrir okkur kennara. Auðvitað á starf kennara að vera metið sem eitt mikilvægasta starf samfélagsins og það á ekki sífellt að vera að ,,leiðrétta" það.
Æskilegt væri að geta sótt fram í þessum málum og ná því sem ég vil kalla ,,framsækna samninga”. Hinsvegar er staðan flókin, tugir félaga standa í samningaviðræðum við ríkið og má eiginlega segja að þetta gangi frekar illa. Ríkisvaldið er gjarnan þungt og erfitt í taumi. En nýr formaður og stjórn FF verða að vera á tánum.
Hagsmunir framhaldsskólakennara felast fyrst og fremst í samningum sem styrkja stöðu þeirra launalega séð og ekki tel ég það koma til greina að fórna einhverjum réttindum í launabaráttunni. Yfirleitt tekur það langan tíma fyrir hagsmunahópa að afla sér réttinda og því afar dýrkeypt að fórna þeim. Launin og réttindin eru stóra málið.
Eftirköst leyfisbréfamálsins
Annað mikilvægt mál er leyfisbréfamálið og eftirköst þess. Í því máli var rúllað yfir framhaldsskólakennara og skynja ég bæði reiði og biturð meðal félagsmanna FF vegna þess. Því hefur spurningin um aðild okkar að KÍ eðlilega vaknað. Hvað vilja félagsmenn FF gera í þeim efnum? Vilja þeir skoða aðra möguleika? Ef svo er, þá fyndist mér ekki óeðlilegt að sá vilji verði kannaður meðal félagsmanna. Það er ekki meitlað í stein að FF sé að eilífu innan KÍ, eða hvað?
Árið 2014 voru þessi mál könnuð og gefin út skýrsla, en í byrjun hennar segir orðrétt að; ...,,mikilvægt sé að skoða reglulega stöðu félagsins og kalla eftir sýn félagsfólks,” og að FF þurfi ávallt að vera vakandi yfir ...,,starfsrými sínu og sjálfstæði innan KÍ.”
Árið 2014 var ekkert leyfisbréfamál og það hefur breytt stöðunni að mínu mati. Hvernig á þá að bregðast við því nú? Hver er vilji félagsmanna FF? Auðveldlega væri hægt að skoða það.
Ein mikilvægasta stofnun landsins
Framhaldsskólinn er ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins og næst-hæsta skólastigið, þar sem nemendur eru búnir undir háskólanám. Því verður að sinna framhaldsskólanum af mikilli alvöru, því ,,inni í honum” býr gífurleg þekking og reynsla. Ég vil stuðla að því á sem breiðustum grundvelli. Segja má að um þessar mundir ríki sé kannski heldur jákvæðari tónn um menntamálin (kannski að ,,leyfisbréfamálinu” frádregnu) og á fjárlögum þessa árs er um eilitla raunaukningu á framlögum að ræða, eða um 1,15%. Óskandi væri að fá meira fjármagn, því allir vita að menntun er undirstaða framfara.
Ríkisvaldið verður einnig að vera tilbúið að borga framhaldsskólakennurum mannsæmandi laun og laun í samræmi við menntun þeirra og ábyrgð. Öðruvísi fæst ekki ungt fólk til starfa við framhaldsskólakennslu í framtíðinni.
Í frétt Morgunblaðins frá 16.september síðastliðnum segir: „Helstu áherslurnar sem við höfum verið að ráðast í eru aðgerðir til að bæta starfsumhverfi kennara og nýliðun,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, við mbl.is eftir kynningarfund þar sem ný skýrsla OECD um Ísland var kynnt.
Lilja segir að það þurfi að styrkja menntakerfið enn frekar en menntamál eru sérstakur áhersluþáttur í skýrslunni að þessu sinni.”
Það er gott þegar svona orð eru látin falla. Hlutverk nýs formanns FF hlýtur að vera að fylgja þeim eftir. Til þess er ég reiðubúinn.
---------------------------
OECD-skýrslan og fleira henni tengt: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/09/16/Ny-skyrsla-OECD-Lifskjor-a-Islandi-med-thvi-besta-sem-thekkist-/
Athugasemdir