Gordon Gekko snýr aftur
Sannleikurinn verður að vera að leiðarljósi í opinberri umræðu.
Í kjölfar bloggs sem birtist hér þann 30.8 hafði aðili úr bankakerfinu samband við mig og átti við mig áhugarvert spjall. Og benti mér á að í raun sé lítil tenging á milli Arion-banka og þess eignarhaldsfélags Kaupþings-banka (fór á hausinn í hruninu 2008) sem nú var að samþykkja svimandi háar bónusgreiðslur til "lykilstarfsmanna."
Hafi ég haft starfsmenn Arion-banka fyrir rangri sök, biðst ég velvirðingar á því.
Í samtali okkar kom fram að innan bankakerfisins vinnur heiðarlegt fólk, sem vinnur sinnu sína af heilindum. Efast ég ekki um það.
En þær brotalamir sem og í raun það siðrof, sem átti sér stað árið 2008 og í "góðærinu" þar á undan verður vonandi Íslendingum ævinleg áminning um það að það er ekki hægt að skapa verðmæti úr lofti.
Við verðum sem samfélag að passa okkur á því að sú græðgi sem tröllreið íslensku samfélagi á árunum fyrir hrun verði aldrei veruleiki.
Það sem Ísland þarf að mínu mati er heilbrigð nálgun á kapítalisma og kapítalískt hagkerfi. Með því á ég við að "eðlilegur hagnaður" verði af rekstri fyrirtækja - að þau lifi heilbrigðu lífi, en ekki einhverju falslífi, eins og raunin var í "góðærinu" - sem einkenndist af loftbóluhagnaði.
Við megum ekki láta efnahagskerfi Íslands lenda í þeim sömu hörmungum og þeirri blekkingu sem um var að ræða á þessum tíma.
Mörg teikn eru hinsvegar á lofti sem benda til þess að Ísland sé hinvegar að færast í áttina til þess ástands sem leiddi til hrunsins, t.d. spenna á fasteigna og vinnumarkaði, sem og styrking krónunnar.
Þessar bónusgreiðslur, sem eru bæði ákveðnar af útlendingum og Íslendingum, vekja upp slæmar minningar og eru eins og köld vatnsgusa framan í fólk. Fólk sem stritar við það mánuð eftir mánuð við að láta enda ná saman við hver mánaðarmót og því miður eru margir sem tekst það ekki. Það er ekki við hæfi í þjóðfélagi sem vill kenna sig við velferð.
Hjá stendur vanmáttugt og í raun viljalaust Alþingi og talar út í loftið, en gerir ekkert. Og mun væntanlega ekki gera neitt. Hvað þá ríkisstjórnin, gleymum því!
Þess vegna munu "lykilstarfsmennirnir" bara hlæja og taka brosandi við spikfeitum tékkunum og sjá bankabækur sínar fitna eins og púkinn á fjósbitanum. Já, svona er Ísland í dag.
Ps. Svo læddust hetjurnar út bakdyramegin :) Og þetta: Gordon Gekko er aðalpersónan í kvikmynd Olivers Stone, Wall Street, frá árinu 1978. Hans mottó var: Græðgi er góð.
Athugasemdir