Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Goðsögnin um "elsta lýðræðisríki" í heimi

Goðsögnin um "elsta lýðræðisríki" í heimi

Um daginn heyrði ég í útlendingi sem var að ræða einhver íslensk málefni, ég man ekki nákvæmlega hvað.

Í því samhengi notaði hann orðin "oldest democracy in the world" um Ísland. Fátt er fjarri sannleikanum.

Þetta er einmitt gott dæmi og eina af goðsögnunum um Ísland (önnur var sú að Ísland væri svo laust við spillingu, en annað hefur jú komið á daginn).

Þegar þeir bændur (flestir sem komu frá Noregi á sínum tíma voru bændur), sem hingað komu á árunum 870 - 930 höfðu komið sér almennilega fyrir varð til samfélagsskipulag sem kallaðist Þjóðveldi eða Goðaveldi. Goðar voru valdamestu menn landsins.

Í því fólst að með reglulegu millibili söfnuðust menn saman til Alþingis á Þingvöllum og gerðu út um málin, kváðu upp dóma og þess háttar.

Að mörgu leyti sýnist manni þetta hafa verið nokkuð gott kerfi, en það voru þó alls ekki allir sem fengu að vera með.

Segja má að það hafi verið rjóminn af samfélaginu sem fór til þings og stundaði pólitík, rétt eins og í Grikklandi til forna, þar sem elítan í Aþenu (sem átti þræla til þess að láta vinna fyrir sér) lifði og hræðist í stjórnmálavafstrinu.

Sökum græðgi og innbyrðis deilna um völd og áhrif  leið þetta skipulag hér á landi undir lok með Gamla sáttmála árið 1262, eftir morð og mannslát(Sturlungaöld), þar sem ættir landsins höfðu borist á banaspjótum í um 50 ár eða svo.

Með sáttmálanum runnu því "nýbúarnir" aftur undir sína gömlu herra í Noregi og Þjóðveldið hrundi til grunna. Þannig fór um sjóferð þá. Síðan kom að því árið 1380 að Íslendingar fengu nýja herra með andláti Hákons 6. Hann hafði gifst danskri dömu, Margréti og eignuðust þau soninn Ólaf. Sem tók við af föður sínum látnum. Þar með hófst ríkjamsamband Dana og Norðmanna sem varði í rúmlega um 430 ár og ríkjasamband Íslendinga og Dana sem stóð í heil 564 ár. 

Ekki komst á lýðræði í Noregi fyrr en í byrjun 19.aldar og einveldið féll i Danmörku árið 1848. Noregur varð sjálfstætt ríki árið 1905, eftir að hafa losnað úr þvinguðu sambandi við Svía, sem hafði staðið frá 1814. Fyrsta kosning til Stortinget í Noregi var einmitt árið 1814.

En hvað með Ísland? Fullyrða má að lýðræðishefð á Íslandi sé stutt. Hér fengu karlar kosningarétt árið 1843 og konur 1915, eða fyrir rétt rúmlega 100 árum síðan. Og á árunum frá 1874 (þegar við fengum stjórnarskrá) til 1903 höfðu aðeins um 10% þjóðarinnar kosningarétt. Fyrstu nútíma Alþingiskosningarnar fóru fram árið 1845 og giltu um þær ströng lög, meðal annars var kosningaréttur manna bundinn við eignir viðkomandi. Til dæmis gat enginn kosið í Vestmannaeyjum í þessum kosningum, einmitt vegna skorts á eignum. Segja má því að lýðræðishefðin hér á landi sé því aðeins um 170 ára gömul. Og ekki er það langur tími í sögulegu samhengi.

Það má því segja að þegar útlendingar (eða Íslendingar)tala um "elsta lýðræðisríki í heimi" fari viðkomandi með fleipur. Að þetta sé bara goðsögn. Íslendingar voru meira og minna áhrifalausir um eigin mál í fleiri hundruð ár og án allra lýðræðislegra réttinda. Að mínu mati verður að skoða sögu landsins í ljósi þessara staðreynda.

Mynd: Sögusafnið (breytt í svart/hvítt: GHÁ). Alþingi, eins og menn sjá það fyrir sér á Þjóðveldistímanum.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni