Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Framsókn með ósannindaformann?

Framsókn með ósannindaformann?

Á maður virkilega að trúa því að Sigmundur Davíð, sem nú er kominn til baka eftir tæplega tveggja mánaða fjarveru, hafi ekki séð eða horft á hinn alræmda blaðamannafund forsetans, eftir fund þeirra á Bessastöðum þann 5.apríl síðastliðinn?

Blaðamannafund, sem er einstakur í stjórnmálasögu Íslands! Blaðamannafundur, þar sem Sigmundur segir að forsetinn hafi rofið trúnað við sig og vangaveltur hafa verið um að tilgangurinn hafi einungis verið að niðurlægja Sigmund. Sem forsetinn, valdi framyfir Bjarna Benediktsson, eftir síðustu kosningar og veitti Sigmundi umboð til þess að mynda ríkisstjórn.

Gekk forsetanum það eitt til að niðurlægja Sigmund? Varla getur það verið skýringin, hún virkar að minnsta kosti langsótt. Forsetinn tók það skýrt fram að mikil óvissa hefði verið um vilja Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma sem Sigmundur kom til Bessastaða, þess vegna hefði forsetinn neitað honum um þingrofsheimild. Enda ekkert sem maður gerir að gamni sínu eða nota sem eitthvað vopna í glímum stjórnmálanna.

Á blaðamannafundinum kom skýrt fram í orðum forseta að erindi Sigmundar hafi verið að óska eftir heimild til að rjúfa þing, ,,annaðhvort nú þegar eða síðar.“ Ástæðurnar fyrir þessari ósk hafi verið óvissa um stuðning Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnina (vegna Wintris-viðtals Kastljóss) og að valdabarátta hafi verið innan Sjálfstæðisflokksins. Skýringar á meintri valdabaráttu hafa aldrei fengist og sennilegt að hún haf hreinlega ekki verið til staðar.

Sigmundur var í viðtali í þættinum Sprengisandi um síðustu helgi (22.5) og vakna upp ýmsar spurningar í kjölfarið á því. Hér eru nokkrar:

Var þingrofsheimild með í för Sigmundar eða ekki?

Var ríkisstjórnin í raun að falla?

Var blaðamannafundur ÓRG til þess eins að niðurlægja SDG?

Hver var meint valdabarátta innan Sjálfstæðisflokksins? (Var Ólöf Nordal að reyna að taka völdin?)

Var forsetinn búinn að hugsa upp utanþingsstjórn?

Nú er það svo að svörin við þessum spurningum liggja ekki fyrir, því bæði Sigmundur og Ólafur Ragnar hafa ekki talað um efni fundarins í smáatriðum, heldur meira farið ,,í kringum“ efni hans, t.d. Sigmundur í áðurnefndu viðtali. En kannski fáum við svör við þeim í endurminningum síðar.

Á fundinum sagði Ólafur Ragnar að krafan um kosningar (vegna Wintris-málsins) væri bæði eðlileg og skiljanleg. Enda kom hún fram í kjölfarið á einum mestu mótmælum sem vitað er um hérlendis.

En greinilegt er að Sigmundur Davíð er ekki á sama máli. Hann ásamt harðasta kjarna flokksins, ,harðlínumönnunum“ Gunnari Braga Sveinssyni og Ásmundi Einari Daðasyni, telja enga þörf á kosningum í haust. Það eru nefnilega svo mörg ,,verkefni“ sem þarf að klára, enda var áðurnefndur Ásmundur eins og biluð plata, þegar hann talaði endalaust um ,,verkefni“, þegar mesti stormurinn geisaði í kringum Sigmund. Það var beinlínis hlægilegt.

En stærsta verkefni Framsóknar er hinsvegar að hreinsa upp hjá sjálfri sér, kannski að skaffa sér formann, sem er með hreinan skjöld, en er ekki flekkaður af ósannindum og tvískinnungshætti. Það er nefnilega staðreynd að Sigmundur Davíð sagði ósatt í hinu fræga Kastljósþætti. Og ætlar elsti stjórnmálaflokkur landsins að vera með slíkan formann? Á bara að gleyma því? Strjúka svona nett yfir það með pennastriki? Er slíkur formaður til dæmis góð fyrirmynd fyrir unga framsóknarmenn? Nei, tæplega.

Til viðbótar er það risastórt verkefni í íslenskumstjórnmálum er að efla traust. Já, sennilega það stærsta. Og það er ekki gert með þessum hætti. Það er alveg á hreinu. 

Annað mjög merkilegt við viðtalið var sú staðreynd að Sigmundur Davíð gat með engum hætti viðurkennt að hafa gert mistök í sambandi við Kastljós-málið. Þáttastjórnandinn, Páll Magnússon, gaf honum færi á því, en það endaði þannig að Páll raðaði upp punktum, sem Sigmundur síðan meðal annars viðurkenndi að hefðu verið mistök. En að segja það sjálfur kom ekki til greina. Það segir mér aðeins eitt: Sigmundur Davíð hefur ekkert lært á fjarveru sinni og auðmýkt er ekki til hjá honum. Það er leitt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni