Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Fellir ellikerling Pútín?

Fellir ellikerling Pútín?

Hinn alkóhólíseraði Boris Jeltsín, þáverandi forseti Rússlands, var að niðurlotum kominn í embætti þegar hann birtist landsmönnum í sjónvarpsræðu um áramótin 1999/2000 og tilkynnti Rússum að hann hygðist láta af embætti. Það var, að því er virtist, gamall og þjakaður maður sem birtist landsmönnum á skjánum, þó var hann ekki orðinn sjötugur (fæddur 1931, látinn 2007).

Jeltsín var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Rússlands, en hann tók við því embætti árið 1991 og gegndi því til ársins 1999. Á þessum árum fór rússneska þjóðin í gegnum einn hrikalegasta hreinsunareld sem nokkur þjóð hefur farið í gegnum á síðari áratugum. Þá er átt við þær raunir sem þjóðin fékk í hendurnar við fall Sovétríkjanna (1922-1991). Þetta sést kannski best á því að á árunum frá 1990-1995 minnkuðu lífslíkur Rússa um 5 ár og fóru niður í um 64 ár að meðaltali. Nú eru þær um 72 ár, það hefur heldur rofað til.

Nýr valdhafi kynntur

Í áramótaræðu sinni árið 1999 tilkynnti Jeltsín um arftaka sinn, Vladimír Pútín, fyrrum yfirmann FSB (leyniþjónustu Rússlands, arftaka KGB) og þáverandi forsætisráðherra. Þar var á ferðinni ungir og sprækur karategaur sem smakkaði ekki áfengi. Þetta var umpólun!

En rifjum aðeins upp sjúkra og dauðasögu leiðtoga Sovtéríkjanna og Rússlands: Byltingargaur nr.1, Vladimír Lenín, varð leiðtogi Rússlands (að afstöðnu valdaráninu/byltingunni í október 1917) og síðar Sovétríkjanna, sá fyrsti í röðinni. En hann entist ekki lengi, lést vegna þriðja heilablóðfallsins (sem hann fékk árið 1923 ) árið 1924 og þá tók Georgíumaðurinn Jósef Stalín við. Lenín var 54 ára þegar hann fór yfir móðuna miklu.

Stalín var hinsvegar þaulsetinn í embætti en lést sjálfur úr heilablóðfalli þann 5.mars 1953, þá búinn að vera einræðisherra Sovétríkjanna í 29 ár. Atburðarásin um dauða hans er umfjöllunarefni hinnar stórgóðu kvikmyndar, The Death Of Stalin. Stalín, sem iðnvæddi Sovétríkin, bar einnig ábyrgð á dauða milljóna manna, meðal annars vegna hreinsana sem hann fyrirskipaði innan Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, Gúlags og almennri ógnarstjórn. Förum ekki nánar út í það, en Stalín var 74 ára þegar hann lést.

Niðurlæging Krústsjovs

Við af honum tók Niktia Krústsjov, Úkraínumaður, sem barði í ræðupúlt, reif kjaft og var með uppsteit. Eitt þekktasta „afrek“ hans var Kúbudeilan árið 1962, þegar einhverjir fengu þá hugmynd að það væri sniðugt að setja upp kjarnorkuvopn við túnfót Bandaríkjanna, á Kúbu. Kanar trylltust og úr urðu 13 dagar þar sem heimurinn rambaði á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar, en allt fór vel að lokum og skynsemin sigraði. Krústsjov var bolað frá völdum árið 1964 og var því 11 ár við völd, en hann lést 77 ára gamall úr hjartaáfalli. Hann fékk ekki útför á kostnað sovéska ríkisins og því var niðurlæging Nikíta Krústsjovs algjör.

Við einu valdamesta embætti í heimi tók Leoníd nokkur Brésnev (Brezhnev), sem entist í embættinu í 18 ár, eða frá 1964 til 1982, þegar hann lést þá um vorið af völdum heilablóðfalls, 76 ára gamall. Tími hans við völd er gjarnan sagður hafa einkennst af spillingu og stöðnun. Á valdatíma hans, 1979, réðust Rússar inn í Afganistan og síðan þá hefur verið stríð í því landi og Afganistan gjarnan talið með á listum yfir ,,misheppnuð ríki“ (failed states).

Þá koma hér við sögu, tveir „stuttir“; Júrí Andropov, fyrrum yfirmaður KGB, arftaki Brésnevs, en Andropov tórði í embætti frá nóvember 1982 til dauðadags í febrúar 1984, eða aðeins í um 15 mánuði. Hann var 69 ára þegar hann lést eftir að hafa fengið lifrarbilun. Að lokinni jarðarför tók Konstantín Chernenko við, en stoppaði enn styttra, tók við þann 13. Febrúar 1984, en lést þann 10.mars 1985, 73 ára að aldri. Dánarmein hans var blanda af hjarta og lifrarbilun.

Stúkumaðurinn Gorbatsjov

Eftir þessa ótrúlegu atburðarás kemur svo Mikaíl Gorbatsjov til sögunnar, fæddur 1931 og er því bara 54 ára ,,unglamb“ þegar hann tekur við embætti sem Aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, eins og opinber titill þessara manna var. ,,Gorbi“ eins og hann er gjarnan kallaður er ,,stúkumaður“ og það kom í hans hlut að reyna að bjarga þessum risa, Sovétríkjunum, frá falli. Það tókst ekki. Sjúklingurinn var of veikur, allar öndunarvélar heimsins hefðu ekki dugað til!

Fáni Sovétríkjanna var því á annan jóladag 1991 (vestrænt tímatal) dreginn niður í Kreml í síðasta sinn. Gorbachev lifir hinsvegar enn og kannski má þakka það áfengisleysinu, hver veit? Hann verður 90 ára gamall á næsta ári.

Hreystimennið Pútín

En hvað með Pútín? Hann er fæddur 1952 og verður því sjötugur eftir tvö ár (7.október). Hann er ekki sama „unglambið“ og þegar hann tók við, 47 ára gamall, þó hann sé bara yfirleitt eldhress (sjáum að minnsta kosti ekki annað). Kannski er það áfengisleysið hér líka, hve veit? Og ekki er því að neita að Pútín hefur allan sinn valdaferil reynt eftir fremsta megni að sýna af sér ímynd hreysti og karlmennsku.

Eftir að hafa leyst þreyttan Jeltsín af var Pútín forseti Rússlands til 2008, mátti Pútín ekki vera lengur samkvæmt stjórnarskrá Rússa. Því var leikinn millileikur og besti vinur og hollasti liðsmaður Pútíns, Dimitrý Medvedev, sat í fjögur ár. Sá tími var notaður til að breyta stjórnarskránni, þannig að Pútín gat orðið forseti aftur. Til 2024 sögðu allir, bara þangað til um daginn.

Kosmónátkonan stígur fram

Þá steig fyrsta konan sem fór út í geiminn, ,,kosmónátinn“ Valentína Tereskóva, á stokk í rússneska þinginu og bar upp tillögu þess efnis að gera Pútín kleift að sitja sem fastast. Tillagan gengur meðal annars út að ,,núllstilla“ eða þurrka út embættistíma Pútíns. Hún var samþykkt á rússneska þinginu með 383 atkvæðum gegn 0. Þetta kallast ,,rússnesk kosning“!

Ætlunin var að kjósa um þetta þann 22.apríl næstkomandi, en öllum kosningum hefur verið frestað fram í júní í Rússlandi vegna kórónaveirunnar.  Þegar þessar kosningar fara hinsvegar fram eru yfirgnæfandi líkur á að þetta verði samþykkt og þá ætti Pútín að geta setið í embætti til 2036, eða í tólf ár í viðbót. Hætti hann þá, verður hann því búinn að vera forseti og leiðtogi Rússlands í 30 ár, ári lengur en Stalín. Þá verður Pútín, lifi hann þetta allt saman af, 83 ára gamall.

Í myndbandi um þetta á rússneska þinginu sést Pútín einmitt ræða þessar breytingar og réttlæta þær meðal annars með því að þetta ,,sé í takti við þróun mála í nágrannalöndum okkar“ eins og hann segir. Sem og í nafni stöðugleika, en svo virðist vera sem Pútín sé eini maðurinn í öllu Rússlandi sem getur veitt landinu stöðguleika. Að minnsta kosti að hans eigin mati. Formúlan er einföld; Pútín = stöðugleiki.

Valdakarlar framlengja völd sín

Fjöldinn allur af valdaköllum hefur gripið til þess ráðs á undanförnum misserum að láta breyta stjórnarkrám til að þeir geti setið sem allra lengst eða fengið sem mest völd, t.d. Erdogan í Tyrklandi, Xi Jingping í Kína og Abdel Sissi forseti Egyptalands. Og fyrir skömmu tók Viktor Orban, forseti Ungverjalands, sér alræðisvald, vegna ástandsins sem kórónaveiran hefur valdið í landinu. Engin takmörk eða tímamörk eru sett á alræðisvald Orbans og tímaritið Foreign Policy kallar þetta „kórónavaldaránið“. Einu sinni var Orban talsmaður lýðræðis og frelsis, en það gildir greinilega ekki lengur. Aðgerðir þessara valdakarla eru afskræming á lýðræðinu og ekkert annað (þó Kína sé að sjálfsögðu ekki lýðræðisríki).

Rússland er einnig ríki sem erfitt er að tengja við orðið lýðræði og hugtök á borð við ,,framhliðarlýðræði“ eða ,,sýndarlýðræði“ eiga mun betur við. Rússnesku samfélagi er stýrt af fámennri valdaklíku í kringum Pútin, rétt eins og á tímum Sovétríkjanna. Yfirstéttin,  ,,nomenklatúran“, virðist enn lifa þar góðu lífi. Og sennilega mun hún lifa Pútín af.

Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans.

Mynd: AFP.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni