Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kalt stríð í sjóðheitum Mið-Austurlöndum - B52 mætt til leiks

Kalt stríð í sjóðheitum Mið-Austurlöndum - B52 mætt til leiks

Athyglisverður atburður átti sér stað fyrir skömmu í lofthelgi Íraks, yfir borginni Mósúl (íb. 2,5 millj.) Þá voru stærstu sprengjuþotur heims, B-52, notaðar í stríðinu gegn Íslamska ríkinu (ISIS). Mósúl er stjórnað af ISIS og hefur verið frá því að borgin féll í hendur liðsmanna þess sumarið 2014.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti um þátttöku B-52 vélanna síðastliðinn miðvikudag og um þetta er meðal annars fjallað í The Washington Post. Með frétt blaðsins eru birtar myndbandsupptökur frá fyrstu árásum vélanna á Mósúl þann 14.apríl síðastliðinn. Mósúl er næst-stærsta borg Íraks og er í N-hluta landsins. Um er að ræða nýjan kafla í baráttunni gegn ISIS, sem nú hefur staðið yfir í nokkur ár.

B-52 er engin venjuleg sprengjuflugvél. Hún er orðin meira en hálfrar aldar gömul, var reyndar tekin í notkun árið 1955 og er knúin átta þotuhreyflum og er um 50 metra löng og með um 60 metra vænghaf. Fullhlaðin getur svona vél borið um 35 tonn af sprengjum og allskyns tegundum af þeim; napalm, sprengjuteppi og þess háttar. Eins og sjá má á mynd sem fylgir þessari grein.

Vélin var notuð í umfangsmiklum sprengjuherferðum í Víetnam-stríðinu (USA með 1965-1975), en í því stríði var varpað um fjórum sinnum meira magni af sprengjum en í seinni heimsstyrjöldinni. Sprengjuherferðirnar ,,Rolling Thunder“ og ,,Arc-Light“ voru þeirra alræmdastar.

Vélin er einnig eitt helsta tákn Kalda-stríðsins, það er hinna hugmyndafræðilegu átaka risaveldanna Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á árunum 1945 – 1991, þegar þau síðarnefndu leystust upp. Eftir að kalda stríðinu lauk voru þær ekki notaðar að ráði fyrr en að Bandaríkin réðust inn í Afganistan í kjölfarið á árásunum á Tvíburaturnana, þann 11.september 2001. Þá sprengdu þær fjallgarðinn Tora Bora í Afganistan, í þeirri von að svæla Osama Bin Laden upp á yfirborðið úr helli sínum þar, en tókst ekki.

En nú gengur B-52 vélin í endurnýjun lífdaga, í baráttunni gegn ISIS. Svo virðist sem Bandaríkjamenn séu að herða aðgerðir gegn ISIS, því þeir hafa einnig tilkynnt að þeir hyggist nú byrja að beita einni fullkomnustu árásarþyrlu heims, Apache, gegn ISIS. Það mun því sennilega hitna hressilega í kolunum í kringum Mósúl og nágrenni á næstu vikum. Markmiðið er að ná borginni úr höndum Íslamska ríkisins, sem að mati margra er farið að gefa nokkuð eftir og samkvæmt þessari frétt Washington Post eru fjárhagsvandræði farin að hrjá ISIS.

Þess má svo geta að leikstjórinn Stanley Kubrik gerði B-52 vélina nær ódauðlega í kvikmynd sinni, Dr.Strangelove, en hún gerist að stórum hluta í vél af þessari tegund. Kubrik fékk ekki leyfi til þess að nota alvöru vél og var því neyddur til þess að gera nákvæma eftirmynd af henni í tökum á myndinni. En í því brást honum ekki bogalistin, frekar en öðru.

Ps. Mæli heilshugar með bandinu, B 52's!

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni