Bréf til framkvæmdastjóra Strætó á Gleðigöngudaginn, sem hann hefur ekki séð ástæðu til að svara
Eftifarandi bréf sendi ég framkvæmdastjóra Strætó þann 6. ágúst í gegnum heimasíðu Strætó, en ég hef ekkert almennilegt svar fengið. Það finnst mér lélegt.
-------------
"Daginn, langar að lesa yfir þér/ykkur vegna ömurlegrar þjónustu á Gleðigöngudaginn.
Þannig er að ég ætlaði að taka strætó niður í bæ og skoða mannlífið á þessum ágæta degi. Við Aktu taktu í Garðabæ komu hinsvegar tveir yfirfullir strætóar og farþegunum sem biðu þar, var neitað um far (nokkrir tróðu sér reyndar inn).
Datt ykkur ekki í hug að bæta við vögnum, eða hafa stærri vagna á þessari leið? Á þessum degi, þegar bærinn fyllist af fólki? Þetta er afspyrnuléleg þjónusta! Fyrir þetta er ég að borga! Reynið vinsamlega að gera betur næst. Eftir síðari vagninn gafst ég upp, enda búinn að bíða í meira en klukkustund!
Og mér finnst það eiginlega skilyrði að vagnstjórnarnir ykkar tali íslensku, þ.e. þeir sem eru erlendir. Fyrri vagnstjórinn skildi ekki orð í íslensku, en ég sagði honum á ensku að taka þetta up við sína yfirmenn.
Lenti meira að segja í því í sumar að útlendur vagnstjóri varð bara reiður við mig, þegar ég var að spyrja hann út í þjónustuna (leiðin var breytt þennan dag vegna framkvæmda), en hann vissi ekki hvar næsta stoppistöð var! Þá varð hann bara fúll og benti mér á skiltið sem segir að það megi ekki tala við vagnstjórana á ferð!
Kennið vagnstjórum ykkar íslensku, það er bæði gott fyrir þá og kúnnana!
Ps. Og er það rétt að vagnstjórar neiti/ eigi að neita túristum um far sem vilja borga með peningum? Hef séð þetta gerast nokkrum sinnum í sumar."
Viðbót: Þann 9.ágúst barst reyndar þessi tölvupóstur frá einum af þjónustufulltrúum Strætó: ,,Leitt að heyra þetta. Er búin að senda þetta á framkvæmdastjóra, skipulagssvið og stjórn Strætó. Biðjum við þig afsökunar á þessu."
En af hverju svara topparnir ekki? Er það fyrir neðan þeirra virðingu að tala við almenning? Mig langar að benda á þá staðreynd að laun stjórnar og framkvæmdastjóra (samkvæmt ársreikningi 2015) voru 29 milljónir króna! Ég giska á að um 2/3 að minnsta kosti fari til framkvæmdastjórans. Fela þessi laun það ekki í sér að taka við kvörtunum frá óánægðum viðskiptavinum? Og jafnvel svara þeim?
,,The customer is always right" segja Kanar, en ég er ekki að senda þetta til þess að hafa bara rétt fyrir mér. Mér finnst hinsvegar það vera réttur minn sem neytandi að kvarta yfir slakri þjónustu og sjálfsagt mál að maður fái almennileg svör. Strætó á jú að heita þjónustufyrirtæki.
Athugasemdir