Þessi færsla er meira en 11 ára gömul.

Ísland: Langur vinnutími, lélegt kaup

Endurskoðun kjarasamninga er nú lokið. En núna er kominn tími til að hugsa um næstu kjarasamninga. Ein krafna fyrir næstu samninga hlýtur að verða stytting vinnudags; enda full ástæða til.

Til að skilja af hverju dugar að velta fyrir sér tveimur staðreyndum um Ísland. Önnur er að vinnutími hér á landi er langur og hin er að vinnutíminn er vandamál sem kemur m.a. fram í þreytu.

Það er vert að skoða þessar tvær staðreyndir betur. Alþjóðleg rannsókn sem gerð var fyrir fáum árum sýndi fram á að í engu öðru þátttökulandi rannsóknarinnar voru fleiri (hlutfallslega) sem sögðust koma of þreyttir úr vinnu til að sinna heimilisstörfum, en einmitt á Íslandi (um fjórðungur). Þá kom einnig í ljós að í aðeins tveimur löndum voru fleiri sem sögðust eiga erfitt með að klára öll verkefni í vinnunni, en hér á landi. Þátttökulöndin voru m.a. öll Norðurlöndin, fjöldi Evrópulanda, Bandaríkin og fleiri.1

Hagstofa Evrópusambandsins gaf nýlega út niðurstöður rannsóknar á vinnutíma sem náði til allra aðildarríkja sambandsins, auk sjö annarra ríkja, þar á meðal Íslands.² Hér að neðan má sjá nokkrar af áhugaverðustu niðurstöðunum – niðurstöður sem varða mjög vinnutíma á Íslandi.

 

Myndin er fengin úr skýrslu Hagstofu Íslands² – höfundur aðlagaði myndina.

Myndin sýnir hvað við á Íslandi unnum margar vinnustundir sem hlutfall af því sem unnið var í hinum löndunum sem tóku þátt. Ísland er efst Norðurlanda og Danmörk er neðst allra landanna í könnuninni. Þetta sýnir hversu mikið meira er unnið hérlendis en á hinum Norðurlöndunum.
Í rannsókninni var sérstaklega skoðað hversu mikil yfirvinnan var og reyndist hún vera mest á Íslandi af öllum þeim löndum sem voru skoðuð.

Myndin er fengin úr skýrslu Hagstofu Íslands, en höfundur aðlagaði.²

Þessi mynd sýnir tímakaup á svonefndu jafnvirðisgildi, sem þýðir að tekið er tillit til áhrifa mismunandi gjaldmiðla. Ísland er hér talsvert fyrir neðan meðaltal Evrópusambandslandanna; á Íslandi er tímakaup að meðaltali 82% þess tímakaups sem fólk hefur í Evrópusambandlöndum. Hin Norðurlöndin eru öll með hærra tímakaup en gengur og gerist í aðildarlöndum Evrópusambandsins. Við á Íslandi erum langt á eftir.

Framleiðni

Með aukinni framleiðni má framleiða meira á skemmri tíma. Þannig má vinna minna, án þess að tapa lífsgæðum. Nú er það svo að á Íslandi er framleiðni á hverri vinnustund heldur léleg miðað við nágrannalöndin (og Evrópu almennt), en hins vegar er framleiðni á hvern mann svipuð miðað við þessi lönd. Þau lönd sem fylgja fast á eftir Íslandi í þessum efnum eru einkum lönd í Austur- og Suður-Evrópu.³

Mjög líklega er lágt tímakaup, langur vinnudagur og erfiðleikar við að klára verkefnin og léleg framleiðni tilkomin vegna lélegs vinnuskipulags. Skipulagið er líklega verra en á öðrum Norðurlöndum og mörgum öðrum löndum, t.d. Þýskalandi og Frakklandi.

Þetta lélega vinnufyrirkomulag verður ekki upprætt svo auðveldlega og til þess þarf að gera eitthvað róttækt. Sumir verkalýðsforingjar sem ég hef rætt við virðast halda að við byrjum á því að bæta framleiðnina og skipulagið, og styttum svo vinnutímann eftir það. Nú er svo komið að síðastliðin þrjátíu ár hefur vinnutími á Íslandi lítið sem ekkert styst, en framleiðni hefur aukist um næstum helming.4 Eigum við bara að halda uppteknum hætti, láta vinnutímann eiga sig,og bíta á jaxlinn varðandi vinnutímann? Halda áfram að vinna miklu meira en önnur samfélög?

Nei, takk. Styttum vinnutímann rækilega í næstu kjarasamningum og bætum vinnufyrirkomulagið í kjölfarið. Það myndi strax skila sér í bættri líðan fjölskyldna. Og eru allar líkur á því að það sé hægt. Þjóðverjar hafa reynslu af því með því að stytta vinnutímann og bæta vinnufyrirkomulagið. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Athugasemdir:

  1. Kolbeinn H. Stefánsson (2008). Samspil vinnu og heimilis: Álag og árekstrar. Rannsóknarstöð þjóðmála: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Óútgefið handrit.

  2. Hagstofa Íslands (18. desember 2012). Evrópskur samanburður á launum 2010 . Hagtíðindi: Laun, tekjur og vinnumarkaður (2012:11).

  3. Þorvaldur Gylfason (2007, vor). Evrópa: Minni vinna, meiri vöxtur. Skírnir, 181, 61-81.

  4. Gögn úr Total Economy Database. Sótt af http://www.conference-board.org/data/economydatabase/ .

 

***

Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni