Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Fólkið sem velur alltaf frið framyfir réttlæti

Fólkið sem velur alltaf frið framyfir réttlæti

Áhugaleysi og sinnuleysi á stjórnmálum og réttlætisbaráttu eru forréttindi þeirra sem lifa þægilegu lífi án skorts. Að sama skapi eru það forréttindi sama hóps að krefjast ávalt friðar í samfélaginu, framyfir réttlætið sjálft. Að sussa á baráttuna fyrir betra samfélagi og gagnrýna aðferðafræðina: „Ég er sammála markmiði þínu, en ég get ekki verið sammála aðferðinni“ segir friðsama og hófasama fólkið sem skortir ekki neitt og upplifir ekkert merkjanlegt óréttlæti. Viðkvæðið virðist oftar en ekki vera: Getið þið ekki barist hljóðlega og fallega fyrir réttlæti svo ég geti stutt ykkur? Barist fallega svo það raski ekki ró minni og valdi mér ekki óþægindum á sama tíma?

Þessi krafa um neikvæðan frið er áberandi í tengslum við baráttu láglaunafólks í Reykjavík. En fátækt og kúgað fólk hefur alltaf orðið að há sína baráttu gegn þessu sama hófsemdarfólki til viðbótar við rasistana sem telja grímulaust að ójöfnuður og mismunun eigi einfaldlega rétt á sér. Þetta var það sem Martin Luther King skrifaði um í bréfi sínu úr fangelsinu í Birmingham 1963 eftir að vera handtekinn í tengslum við ofbeldislausa baráttu og aðgerðir til að mótmæla aðskilnaðarstefnunni sem var í fullu gildi á þeim tíma. Bréfið var svar við gagnrýni nokkurra KKK meðlima sem vildu að King og fylgismenn hans myndu berjast fyrir réttlæti, ekki úti á götum, heldur aðeins í réttarsalnum. Rökin voru að það væri enginn sómi af því að vera með einhver læti þó svo að óréttlætið væri vissulega fyrir hendi.

Þetta er krafan um að allir séu í sama liði, þó svo við séum ekki alltaf sammála þá verði alltaf að ríkja ákveðinn friður í samfélaginu. Tilfinningar og uppsteyt leysi aldrei neinn vanda. Að þó svo að fátækt þrífist á Íslandi og lítið gangi í baráttunni gegn heimilisleysi sé mikilvægt að menn geti snætt saman í mötuneyti Alþingis og skilið ágreiningsmálin eftir inn í þingsalnum. Að þó svo að hægrið komi markvisst í veg fyrir aukinn jöfnuð og framgöngu lýðræðisins sé mikilvægt að stunda ávallt ítrustu kurteisi í samskiptum við valdið.

Nú þegar friðelskandi hófsemdarfólkið finnur sér hverja afsökunina á fætur annarri til að styðja ekki baráttu Eflingarfólks, láglaunakvenna í Reykjavík, skulum við rifja upp þessi orð Kings úr fangelsinu í Birmingham:

„Ég þarf að játa það að ég hef orðið fyrir djúpum vonbrigðum með hinn hvíta hófsemdarmann. Ég hef næstum því komist að þeirri niðurstöðu að stærsti þröskuldur á vegi Negrans á leið hans til frelsis sé ekki sá sem situr í Ráði Hvítra Borgara eða meðlimurinn í Ku Klux Klan, heldur hinn hófsami hvíti maður; sem velur frekar neikvæðan frið án togstreytu heldur en jákvæðan frið sem inniheldur réttlæti; sem segir í sífellu: „Ég er sammála markmiði þínu, en ég get ekki verið sammála baráttuaðferðum þínum og beinum aðgerðum“; sem föðurlega trúir að hann geti sett frelsi annarrar manneskju tímamörk; sá sem lifir í mýtískri hugmynd um tíma og ráðleggur Negranum ævinlega að bíða „eftir hagfelldari tíð“. Grunnhygginn skilningur fólks sem meinar vel er meira svekkjandi, en hinn altæki misskilningur fólks sem lætur ráðast af illvilja. Hálfvolgt samþykki er margfalt illskiljanlegra en hin skýra höfnun.“ [1]

Því miður er þessi ábending Martin Luther King enn í fullu gildi. Í umræðunni á samfélagsmiðlum má sjá mikið óþol gagnvart réttlætisbaráttu láglaunafólks. Talað er um að Eflingarfólk vilji í raun ekkert semja heldur aðeins skapa óreiðu í samfélaginu. Aðrir telja að starfsfólk borgarinnar sé að láta útsmogna sósíalista plata sig til að koma höggi á Dag B. Eggertsson. Skoðun Björn Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, olli þónokkrum vonbrigðum þegar hann endurómaði viðhorf hófsemdarfólksins: „Ég styð láglaunafólk en ekki Eflingu“.

Sama viðhorf má greina í kröfu margra sem eru orðnir þreyttir á verkfallinu en virðast ekki skilja óréttlætið sem liggur að baki. Talað er um sandkassaleik. Hættið þessu veseni og skeytasendingum segir hófsemdarfólkið. Drífið ykkur bara í að semja. Við viljum frið, þó það þýði að réttlætið þurfi að bíða enn um sinn.

Gleðilegann alþjóðlegann baráttudag kvenna. 

1. Þýðingin er að hluta fengin að láni frá Sigríði Guðmarsdóttir og tekin af vef Þjóðkirkjunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni