Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Hvernig eiga sósíalistar að hafa áhrif á samfélagið?

Hvernig eiga sósíalistar að hafa áhrif á samfélagið?

Góð byrjun er að átta sig á því að við eigum enga raunverulega samherja meðal stjórnmálaflokkanna. Ástæðan er sú að við viljum grundvallarbreytingar, sársaukafullar, sem miða að því að kollvarpa núverandi kerfi til lengri tíma. Allar tilraunir til að innleiða einhverskonar efnahagslegt réttlæti mun mæta harðvítugri andstöðu frá hægrinu, miðjunni og fjölmiðlum. Þess vegna er best að átta sig á því strax að við getum ekki bæði náð fram réttlæti og verið tekið fagnandi innan meginstraums stjórnmálanna eða fjölmiðla.


Miðjan og hægrið í stjórnmálunum eiga sameiginlega hagsmuni og eru í raun aðeins tvær hliðar á sama peningunum. Miðjan og hægrið sameinast um að viðhalda kapítalismanum og nýfrjálshyggjunni. Framkoma krata undanfarið við sósíalista er enn frekari sönnun þess að miðjan hefur lítinn áhuga á því að byggja upp stjórnmál til vinstri. Stanslausar árásir og ásakanir hugmyndafræðina jafnaðarmanna um að sósíalistar séu alræðissinnar, Pútínistar og Stalínistar segir alla söguna í raun. Nýjasta útspil Samfylkingarinanr um að taka sér stöðu gegn nýkjörnum formanni Eflingar, Sólveigu Önnu, er enn frekari vísbending. Þegar á hólminn er komið munu jafnaðarmenn, Píratar, og aðrir miðjumenn alltaf snúa sér til hægri og verja kerfið, kapítalismann og heimsvaldastefnuna.


Á tíunda áratugnum, þegar Samfylkingin var stofnuð, var talað um að sagan væri komin á leiðarenda (end of history). Kapítalisminn og vestrænt og frjálslynt lýðræði, á hápunkti nýfjrálshyggjutímans, væri endastöð. Engin þörf væri lengur að ræða um sósíalisma eða neitt slíkt. Hægrið og kratar voru þarna í raun búin að sameinast hugmyndafræðilega. Allur hugmyndafræðilegur ágreiningur á milli þessara tveggja hópa í dag er aðeins um útfærslur innan kapítalismans. Arðránskerfisins sem er uppspretta stórs hluta þess ójafnaðar, fátæktar, glæpa og stríðsátaka sem við lifum við í dag.

Sósíalistaflokkurinn er á markvissan hátt byggður upp á þeirri hugmynd að pólitík snúist ekki aðeins um kosningar til þings heldur ekki síður um verkalýðsbaráttu og baráttu í öðrum hagsmunasamtökum verkafólks utan þings. Þetta er í samræmi við hugmyndir sósíalista um að ríkið innan kapítalismans sé oft lítið annað en tæki kapítalista til verja eigin hagsmuni. Í það minnsta er ríkið alls ekki þessi hlutlausi vettvangur þar sem hægrið og vinstrið, verkafólk og auðfólk, takist á um að útkljá deilumál með lýðræðislegum hætti.


Undanfarið hefur komið í ljós að baráttan innan verkalýðshreyfingarinnar er rétt að hefjast. Kjör Sólveigar Önnu og Rangars Þórs var ekki fullnaðarsigur á hægri-krötum sem höfðu snúið ASÍ upp í stéttasamvinnubandalag með atvinnurekendum, sem lagði helst áherslu á inngöngu í ESB, heldur aðeins upphafið að lengri baráttu sem snýst um að hrista nýfrjálshyggjuslenið af verkalýðshreyfingunni svo að verkalýðsbarátta geti aftur farið að snúast um raunverulega stéttabaráttu. Baráttusinnaða stéttabaráttu en ekki þá skrifstofuvæddu og stofnanavæddu hreyfingu sem enn er í raun við líði í of stóru mæli.


Sósíalistar muna til lengri tíma hafa áhrif með því að halda áfram baráttunni um að róttæknivæða verkalýðsbaráttuna, byggja upp önnur og fleiri baráttusamtök verkafólks eins og samtök leigjenda, og á sama tíma vinna að því að mynd pólitískt afl sem getur farið inn á þing og tekið sæti í borgar og bæjarstjórnum, til þess að tala máli verkafólks. Þessi leið sósíalista er heldur ekki séríslensk heldur í fullu samræmi við baráttu sósíalista um allan heim. 

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni