Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Verið róleg, ekkert að óttast, látið sem ekkert sé

Okkur var tilkynnt það með jarðarfararrómi í fréttum Stöðvar 2 að það hefði orðið verðhrun í kauphöllum heimsins eftir að bóla sprakk í Kína.

Og það varð einnig verðhrun hér líkt og grafalvarlegur fréttamaðurinn sagði okkur.

Það var svo alvarlegt að ósjálfrátt byrjaði maður að heyra Adagio Albinoni hávært með tilheyrandi kvíðakasti yfir því að þurfa að horfa ásamt öðrum á sjónvarpsávarp Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sem endaði á því að hann myndi biðja Guð um að blessa Ísland.

Næsta Hrun semsagt.

Kínverska bólan að sprengja upp heimsbyggðina með græðgisgrefti sínum.

En svo þegar maður hugsaði betur þá var þetta nú kannski bara hefðbundið fjármálafár í þetta sinn.

Ég meina þeir einu sem taka á sig eitthvað alvarlegt högg verða lífeyrissjóðirnir sem eru misnotaðir af fjárhættuspilurum innan vébanda Samtaka Atvinnulífsins til að fjármagna fyrirtæki vina sinna í Kauphöllinni.

Gamla fólkið tekur svo væntalega skellinn í framhaldi með skertum lífeyrisgreiðslum, eitthvað lágtsett fólk á gólfinu missir hugsanlega vinnuna, kannski einhverjar verðhækkanir og topparnir fá kauphækkun fyrir að hafa tekið á málum vegna svart dags á hlutabréfamarkaði.

 Þannig hefur það bara alltaf verið hér á Íslandi dólgafrjálshyggjunnar.

Við hin eigum ekki að vera að hrella okkur með þessu fyrr en fjárfestarnir fara að funda með ríkisstjórninni um hvernig sé best að bjarga peningunum þeirra.

Svo maður gat sofnað rólega, búinn að sannfæra sjálfan sig um að feigðarósinn yrði  bara hjá fjárfestunum og þeim sem eru óheppnir að tengjast þeim.

Enda þegar maður vaknaði þá blöstu við allt aðrar fréttir í dag.

Langt sund í næsta Hrun.

Ekkert að óttast, snertir Ísland lítið.

Eingöngu leiðrétting á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Dagstitringur sem skiptir ekki máli fyrir langtímafjárfestingu.

Keep calm and move along, there‘s nothing to see here.

Svo sá maður hvaðan þetta kom.

Enginn óháður aðili.

Allt hughreystingar frá mönnum sem vinna við fjárhættuspil í kauphöllum hvort sem þeir séu players eða dealers.

Allt hughreystingar frá starfsmönnum fyrirtækja sem hafa beina fjárhagslega hagsmuni af því að sýsla með hlutabréf og/eða verðið haldist stöðugt meðan þeir losa sig undan tapi.

Allt hughreystingar frá aðilum sem hafa lítið gert til að vinna sér inn traust eftir Hrun, starfa undir bágu eftirliti og haga sér enn á sama Hrunvaldandi háttinn.

Allt hughreystingar sem kveikja viðvörunarljós í ljósi reynslunnar.

Blekkingaleikurinn er hafinn.

Varið ykkur á hlutabréfum.

Kaupið ykkur dósamat og haglabyssur.

Teiknin eru á lofti um næsta Hrun.

Nema við höfum vit á því að taka á dólgafrjálshyggjunni, herða eftirlit, refsa hart og sjá til þess að yfirstéttin borgi reikningana sína í stað þess að velta þeim yfir á okkur.

Við eigum nefnilega enn nóg með að borga síðasta kókaínpartýið þeirra.

Fyrir utan Æseif.

Við kusum það víst í burtu.

Eða hvað?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu