Tveggja húsbænda peningastefnunefnd
Það mun örugglega verða margt skrafað um á næstunni varðandi afnám hafta sem manni líst persónulega á að hafi verið skyndilega kippt af til að reyna að fella gengið vegna augljós þrýstings frá ferðaþjónustu og kvótagreifanna. Reyndar finnst manni athyglisvert að það hafi ekki verið gert fyrr en ljóst var að ASÍ myndi ekki segja upp kjarasamningum og líklegast hefur ríkisstjórn hinna ríku metið það svo að það væri kjörið tækifæri til að láta almenning taka höggið svo kvótagreifarnir og ferðaþjónustufrekjurnar gætu grætt meir.
En nóg um það.
Það er nefnilega eitt þessum málum tengt sem manni finnst umhugsunarvert og þurfa skýringar á. Það er skipun nefndar sem ætlað er að móta peningastefnu íslenska ríkisins til lengri tíma.
Fyrsta atriðið sem flestir tóku eftir var að í nefndina var valinn pólitískur samherji Bjarna Ben: Illugi Gunnarsson. Nú hefði maður haldið að fyrir svona stórt mál sem m.a. snertir komandi ríkisstjórnir væri það nú frumskilyrði að annað hvort yrðu fengnir pólitískt óháðir aðilar eða þá yrði þetta gert með sem breiðastri samvinnu þvert á flokka en það er augljóslega engin vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Það sem er reyndar líka stórt atriði með þessa skipun er að Illugi Gunnarsson hrökklaðist eiginlega af þingi vegna hneykslismála sinna og vanhæfni í störfum sem menntamálaráðherra. Um menntamálaráðherratíð hans er best að benda á holu nokkra við Hótel Sögu sem er ágætur minnisvarði um ráðherratíð og kallast Hola íslenskra fræða í daglegu tali. Hneykslismálið stóra hjá honum var að hann var svo staddur illa fjárhagslega að hann var byrjaður að misnota embætti sitt sem ráðherra til að sinna almannatengslastörfum fyrir leigusala sinn og fyrrum vinnuveitanda sem hann þjónaði mun betur heldur en nokkurn tímann hinum vinnuveitanda sínum: íslensku þjóðinni.
Menn geta nefnilega ekki þjónað tveimur húsbændum í svona störfum.
En þar liggur einmitt stóri hnífurinn í kúnni með hina tvo aðilanna sem eru skipaðir í þessa nefnd sem veldur umhugsun.
Annaraðilinn, Ásgeir Jónsson, starfar sem ráðgjafi fyrir fjármálafyrirtæki sem er meira og minna stjórnað af fyrrum félögum hans úr Kaupþingi. Hagsmunir geta þarna togast á þegar kemur að ákvörðunum og ráðgjöf beggja vegna borðsins þar sem þessi aðili mun hafa yfir að ráða upplýsingar úr mótun peningastefnuninnar sem geta nýst honum í ráðgjöf til viðskiptavina fjármálafyrirtækisins sem borgar honum vel fyrir verkið. Þessi húsbóndi getur þar að auki haft talsverð áhrif á mótun peningastefnunnar og miðað við reynsluna þá eru hagsmunir fjármálafyrirtækja oftast andstæðir og andsnúnir hagsmunum samfélagsins.
Hinsvegar er það Ásdís Kristjánsdóttir sem er starfsmaður stórra hagsmunasamtaka þ.e. Samtaka Atvinnulífsins. Innan vébanda þeirra samtaka eru m.a. fjármálafyrirtæki, útgerðarfyrirtæki og ferðaþjónsutufyrirtæki sem hafa hag af því að peningastefnan verði þeim hliðholl og jafnvel þó það stangist á við almannahagsmuni og hag íslensku þjóðarinnar. Viðkomandi starfsmaður er að auki maki eins af eigendum Gamma og því það tengd hagsmunaaðilum að það er vart hægt að sjá að viðkomandi geti þjónað íslenska ríkinu í þessum málum gegn fjárhagslegum hagsmunum vinnuveitanda síns og maka.
Þegar maður bætir svo að auki við fortíð Ásgeirs Jónssonar sem yfirmanns áróðursdeildar Kaupþings sem blekkti fólk og fjölmiðla allt framyfir Hrun og fortíð Iluga Gunnarssonar sem var settur yfir sjóði Glitnis og m.a. hinn illræmda sjóð 9 í kjölfar þess að hafa einkavinavætt hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til Geysi Group Energy sem var í eigu Glitnis og eins stærsta eiganda Glitnis: FL Group, þá finnst manni eins og að þessi skipun veki upp það stórar efasemdir um hæfni þessa fólks til að vinna að hagsmunamálum íslensku þjóðarinnar.
Það þarf allavega sterkari rökstuðning en „af því bara“ til þess að réttlæta þessa skipun með tilliti til þess að þau þurfa að þjóna tveimur húsbændum þar sem annar hefur jafnvel andstæða hagsmuni eða fjárhagslegan ávinning af því sem fer fram í þessari vinnu. Í tilfelli Illuga hefur það líka sannast að hann hefur þjónað frekar húsbónda sínum á markaði og liggur vel við höggi vegna fjárhagserfiðleika þegar kemur að þrýstingi á að nota stöðu sína sem starfsmaður íslensku þjóðarinnar til hagsbóta fyrir einkaaðila. Manni finnst svo það eiginlega brandari ef svarið verður að segja að þau verði látin undirrita trúnaðaryfirlýsingar enda er fleiri en ein leið til að fela slóðir um misnotkun á þeim upplýsingum sem fást í þessu starfi og því betra að koma í veg fyrir slíkt með því að skipa fólk sem þarf ekki að þjóna tveimur húsbændum.
En svo má vel vera að þessi skipun sé eiginlega óformleg tilkynning um að nú sé verið að færa endanlega allt aftur til 2007 og látið sem að Hrunið, skýrsla Rannsóknanefndar alþingis og afleiðingar gjörða fjármálafyrirtækja hafi aldrei gerst.
Árið 2007 þá réðu fjármálafyrirtækin nefnilega ferðinni.
Þessi nefndarskipun er allavega í anda þess.
Fram að næsta Hruni.
Gengisfellingin eða „afnám hafta“ frestaði því allavega um eitt ár.
Athugasemdir