Vigdís Hauksdóttir- Talsmaður stefnu ríkisstjórnarinnar
Nú hefur Vigdís Hauksdóttir gengið enn eina ferðina fram af fólki með orðum sínum um forstjóra Landsspítalans, gagnrýni hans á fjárlaganefnd og ósk spítalans um meira fé til reksturs.
Orðum um að þetta sé væl og andlegt ofbeldi að óska eftir auknu fjármagni til handa heilbrigðis- og velferðarkerfi sem flestir landsmenn vilja hafa sem best.
Viðbrögðin hafa verið sterk og sýna velflest að fólk er fyrir löngu búið að fá sig fullsadda af hennar framferði.
Samt er það nú svo að margir átta sig ekki á einu.
Vigdís Hauksdóttir var að svara þarna sem formaður fjárlaganefndar og sem valdafulltrúi stjórnarmeirihlutans.
Hún er sem slík að tjá skoðanir ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarmeirihlutans á beiðni Landspítalans og gagnrýni forstjórans.
Hún er ekki að tala sem einhver Vigdís út í bæ.
Sem formaður fjárlaganefndar sem starfar hún algjörlega í umboði ríkisstjórnarinnar og með blessun hennar við framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málaflokkum sem verður sýnileg með fjárlögum.
Eiginlega hefur hún meiri völd heldur en sumir ráðherrar s.s. velferðarmálaráðherrann Eygló Harðardóttir sem fær litlu sem engu framgengt þegar hún leggur loksins mál fram.
Enda er þetta eitt valdamesta embætt færibandsins sem kallast alþingi sem stýrist af duttlungum ríkisstjórnarinar sem fulltrúar hennar í nefndum framkvæma eða hindra að verði að veruleika.
Til upprifjunar um framferði Vigdísar þá kom hún fram í fjölmiðlum fyrir tveimur árum og talaði um að refsa RÚV fyrir fréttaflutning sem var óþægilegur fyrir ríkisstjórnina.
Það sem gerðist svo var að fjárlaganefnd undir hennar forystu sem yfirböðuls ríkisstjórnarinnar skar niður fjármagn til RÚV.
Þetta var svo blessað af ríkisstjórn og framkvæmt með þeim afleðingum að fjöldi manns missti vinnuna.
Það er því talsmaður framkvæmdavalds ríkisstjórnarinnar sem talar þegar Vigdís svarar með skætingi, yfirlæti, hótunum og mannfyrirlitningu þegar kemur að því sem fellur undir störf hennar sem formaður fjárlaganefndar.
Þar er valdaembætti ríkisstjórnarinnar að koma fram með skoðanir ríkisstjórnarinnar á fjárþörf Landspítalans.
Skilaboðin eru því skýr frá ríkisstjórinni í gegnum Vigdísi til Landsspítalans:
„Haldið kjafti ellegar hafið þið verra af, þið eruð og verðið ekkert forgangsmál!“
Það sama mun ekki heyrast frá Vigdísi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þegar kemur að t.d. SMS-styrkjaskilaboðum Sigmundar, lækkun veiðigjalda, skattaundanþágum til handa frændum Bjarna Ben eða öðrum áherslum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að yfirstétt landsins.
Þá verður Vigdís umhyggjusöm og hógvær í orðavali.
Enda forgangsmál ríkisstjórnarinnar þar á ferð.
Ólíkt heilbrigðiskerfinu.
Athugasemdir