Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Spillt veganesti Stjórnstöðvar Ferðamála

Það hefur farið framhjá fáum að búið er að stofna nýja ríkisstofnun sem heitir Stjórnstöð ferðamála án þess að slíkt hafi farið fyrir þing og verið samþykkt þar.

Þessari stofnun er ætlað að starfa í fimm ár hið minnsta þó líklegast verði hún lengur og til viðbótar við Íslandsstofu, Ferðamálastofu og fleiri álíka stofnanir sem sinna ferðaþjónustunni.

Stofnunin er stofnuð samkvæmt ráðgjafavinnu fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem kostaði hátt á annan tug milljóna án útboð. Það bætir ekki úr skák að þessi fyrrum þingmaður er búinn að fá tugmiljónir í þóknanir frá ríkinu án þess að leitað sé eftir tilboðum í verkin.

Stjórn stofnuninnar er svo eingöngu skipuð ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem virðast geta sinnt stjórnarsetu ólíkt því þegar kemur að því að sitja í sætum sínum á þingi sem kjörnir fulltrúar, fólki úr samtökum sveitarfélaganna og svo fulltrúum fyrirtækja og hagsmunasamtaka ferðaþjónustunnar sem hafa sitt að segja þegar kemur að ákvarðanatöku á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Engum öðrum hagsmunaaðilum s.s. verkalýðsfélögum, eftirlitsaðilum og öðrum sem þurfa að koma nálægt ferðaþjónustu á annan hátt er boðið að vera með í stjórninni.

Væntanlega mun hver stjórnarmaður þurfa nokkur hundruð þúsund króna greiðslur í hverjum mánuði ofan á forstjóra-, bæjarfulltrúa- og ráðherralaunin sín í stað þess að vinna að hagsmunum sinna fyrirtækja og flokka á þeim launum sem viðkomandi aðilar skammta þeim. Slíkt mun taka sinn toll af þessum 140 milljónum sem ætlaðar eru til rekstrar stofnuninnar.

Forstjórinn sem var ráðinn mun kosta svo stofnunina um 2 millur á mánuði sem gerir 24 milljónir á ári plús launatengd gjöld. Launakostnaður af þessum eina manni yrði því hátt í 30 milljónir plús þetta venjulega þ.e. sími, hlunnindi, risna og jeppi sem samtals tekur drjúgan skerf af þessum 140 milljónum sem stofnunin á að hafa til umráða.

Sá var ráðinn án auglýsingar, án þess að hafa þekkingu á ferðaþjónustunni og án tillits til þess að mun mikilvægari forstjórar og forstöðumenn ríkisstofnanna hafa mun lægri laun í störfum sínum s.s. sérstakur saksóknari sem hefur unnið þrotlaust að því að ná hættulegustu glæpamönnum. Í reynd er hann nálægt því að vera á sömu launum og forstjóri Landsspítalans sem er einhver mikilvægasta stofnun landsins.

Þessi ofurlaun virka frekar ankannarlega í því ljósi sem og að á sama tíma þá berst ríkisstjórnin af einstakri hörku gegn því að ríkisstarfsmenn fái mannsæmandi laun og réttmætar kjarabætur. Það virðist nefnilega vera hægt að splæsa skyndilega hátt í 30 milljónum í einhver jakkaföt sem voru fiskupð upp af einhverri biðstofu Samtaka Atvinnulífsins en ekki til umræðu af hálfu ríkisstjórnarinnar að semja um laun við fólkið sem sér um umönnun, löggæslu og fleiri mikilvæg störf í þágu ríkisins.

En hverjar eru svo réttlætingarnar fyrir ráðningu án auglýsingar í trássi við lög?

Þær eru tvær.

Hún er að hinn nýi forstjóri, Hörður Þórhallsson, sé þungaviktarmaður sem er svo góður í að leiða ólík sjónarmið saman og reynslu af verkefnastjórnun.

Ok, gott og vel en hefði það þá ekki komið fram í eðlilegu ráðningarferli og hefði ekki líka verið líklegt að úrval hæfra einstaklinga hefðu sótt um starfið og þegið fyrir eðlileg laun forstöðumanna ríkisstofnanna?

Svarið er jú, líklegast. Þetta er því þunn réttlæting.

Hin réttlætingin er sú að þetta sé tímabundið starf.

Sú réttlæting heldur ekki vatni í ljósi nokkurra hluta:

  • þess að það er ekkert talað um að forstjórinn muni láta af störfum eftir ákveðinn tíma og staðan auglýst að nýju.
  • Tímabundið starf hjá ríkinu er samfelld ráðning til tveggja ára að hámarki samkvæmt vef Fjármálaráðuneytisins en stofnuninni er ætlað að starfa í fimm ár hið minnsta.
  • Fimm ár eru líka skipunartími forstjóra og forstöðumanna eftir að störf hafa verið auglýst og farið í gegnum ráðningarferli.

Enda eru þessar réttlætingar eingöngu ætlaðar til að reyna að fela raunverulega orsök ráðningarinnar.

Þetta er „góður Sjálfstæðismaður“ jafnvel þó að hinn nýi forstjóri hafi reynt að segja ósatt í viðtali við Stundina um tengsl sín við flokkinn.

Það eru nefnilega til myndir af honum í góðu geimi með nokkrum af kommisörum flokksins og það sem um munar er að hann er skráður á landsfund Sjálfstæðisflokksins sem aðeins innvígðir og innmúraðir fá aðgang að.

Maður getur því vart annað en dregið þá ályktun að þessi Stjórnstöð ferðamála er byggð á klíkuskap og spillingu sem smurt var sem veganesti á ferðamannaslóðir.

Nesti sem mun ganga út á það eitt að vera peningahít sem færir almannafé í hendur gæðinganna sem stýra stofnuninni og sitja í stjórn.

Það gæti nefnilega orðið þeirra síðasti séns nú að maka krókinn á kostnað okkar.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti nefnilega ekki orðið í stjórn næst.

Heiðarlegir sjóræningjar með nýja stjórnarskrá að vopni gætu séð til þess.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu