Sómi og stálhnefi Íslands
Það er eilítið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum íslenskra ráðamanna þessa daganna þegar kemur að flóttamönnum og hælisleitendum sem eru hópar sem síst geta varið sig.
Það má nefnilega skipta þeim viðbrögðum upp í nokkra hópa.
Fyrsti hópurinn sem má til telja eru þeir ráðamenn sem bregðast hart og tæpitungulaust við gagnvart ljótum leikjum Trumps sem bitna hvað harðast á flóttamönnum og hælisleitendum. Líkt og oft áður þá brugðust stjórnarandstöðuflokkarnir hart, skýrt og hreinskipt við þegar kom að því að lýsa andúð sinni á illum verkum Trumps. Stjórnarandstaðan hefur að mestu leyti staðið með þeim gildum að Íslendingar beri skylda til sem siðmenntuð þjóð að taka á móti flóttamönnum og hælisleitendum með manneskjulegum hætti og krafist aðgerða hingað til. Maður veit þó ekki alveg með Framsókn en manni sýnist manneskjulegi parturinn hafi yfirhöndina innan þess flokks sem stendur.
Það eru þó viðbrögð ráðamanna ríkisstjórnarinnar sem vekja mesta athygli. Óttar Proppé brást hart við með gagnrýni og kallaði eftir mótmælum sem flestra við þessari andstyggð sem svokallað múslimabann Trump er. Benedikt Jóhannesson tók ekki eins djúpt í árina í viðtali um helgina en í því viðtali kom það ljóst fram að honum þótti þetta skelfileg, sorgleg og hættuleg þróun sem er farin af stað í Bandaríkjunum með valdatöku Trumps. Þorsteinn Víglundsson brást við með skýrum hætti á Bessastöðum í gær þar sem hann með nánast berum orðum fordæmdi aðgerðir Trump og lýsti andúð Íslendinga á öllum þeim sem loka landamærum sínum fyrir fólki í neyð og leggja stein í götur þeirra.
Þó ég sé síður en svo ánægður með þessa stjórn og þyki lítið til hennar koma þá þykir mér sómi af þegar menn bregðast við með svona skýrri afstöðu gagnvart fasisma og valdníðslu gagnvart þeim sem minnst mega sín. Mestur sómi er þó af viðbrögðum Guðna forseta sem bauð sýrlenskt flóttafólk beint heim á Bessastaði og sýndi því þar með sem mestan heiður sem jafningjum, bauð það velkomið af sínum innileika og kom fram með harða afstöðu með mannréttindum, mannúð og frelsi sem var lítt dulbúinn afstaða gegn aðgerðum Trumps sem er í andstöðu við öll þau gildi.
Slíkan sóma eigum við sem þjóð að geta sýnt sem oftast.
Næsta hópur sýnir þó ekki eins mikinn sóma að manni finnst. Það eru þeir ráðamenn sem tala einstaklega varlega og virðast helst ekki vilja þurfa að styggja Sám frænda jafnvel þó hann sé að traðka grimmt á flóttamönnum og öðrum með einbeittum mannréttindabrotavilja. Þetta mátti sjá í tali tveggja ráðherra um helgina sem töluðu loðið um að mismunun sé nú ekki rétta leiðin í baráttunni gegn hryðjuverkum líkt og hryðjuverkastríðið svokallaða sé það sem skipti mestu máli. Þetta er það viðhorf sem hefur einkennt talsvert íslenska ráðamenn í gegnum tíðina þ.e. að reyna að fylgja eftir og helst ekki styggja Bandaríkin jafnvel þau hagi sér sem drykkfelldur og ofbeldisfullur hjólhýsahyskispabbi sem misþyrmir bæði eigin fjölskyldu og nágrönnum sínum. Manni finnst líka skjóta skökku við í þessu tilfelli að þeir ráðherrar sem töluðu svona og hugsanlega fleiri til, studdu Íraksstríðið með sínum grófu stríðsglæpum og hafa ekkert mótmælt Guantamo ,pyntingafangelsum CIA né fangaflugi CIA í gegnum íslenska lofthelgi. Gott ef þeir hafa ekki jafnvel staðið í vegi fyrir þingsályktunum gegn þessum óhæfuverkum sem hafa hvað mest ýtt undir hryðjuverk og andúð gegn vestrænum samfélögum. Það er svo sem engin sérstakur sómi af þeim sem tala svona varlega enda virðast þeir helst vilja bíða af sér storminn í von um að þurfa ekki að taka afstöðu. Það verður samt að segjast að það hafi orðið mun skorinorðara mælt hjá Guðlaugi Þór þegar ljóst var hver afstaða Norðurlandanna yrði og aðgerðir Trumps voru farnar að bitna á Íslendingum.
Manni finnst þessi hópur ekki sýna neina sérstaka sómakennd þegar kemur að flóttamönnum, hælisleitendum og öðrum hópum sem eiga undir högg að sækja. Þeir ráðamenn sem tiheyra þesum hópi mega þó eiga það stundum að þegar þeim verður ljóst að ráðamenn geta ekki skorist undan því að sýna hug Íslendinga í verki þá gera ráðamenn eitthvað sbr. samþykktir síðustu stjórnar um að taka á móti flóttamönnum. Það sem háir þessum hópi samt er þessi skilyrðislausa undirgefni við Bandaríkin sama hvað gengur á og er honum því litt treystandi til að taka skýra afstöðu með mannúð og mannréttindum ef slíkt gæti styggt Kanann.
Svo er það þriðji hópurinn sem talar á þann hátt um flóttamenn og hælisleitendur sem að þeir séu einhverskonar ógn við Ísland.
Það er fólkið sem talar um að nota stálhnefa gegn hælisleitendum og ætlar að innleiða hér harðari stefnu í útlendingamálum en hér hefur áður þekkst og er hún nú hörð fyrir. Sigríður Andersen Dómsmálaráðherra talar um að beita flóttafólk aukinni hörku, beita Dyflinnarreglugerðinni með miskunnarlausari þröngtúlkun en áður og orðar röksemdir sínar þannig að það eigi að stoppa af alla sem vilja „misnota sér velvild“ Íslendinga. Manni skilst varla annað en svo á henni að allir flóttamenn séu óvelkomnir enda séu þeir allir grunaðir um að ætla sér að „misnota velvild Íslendinga“ þar til annað sannast. Í svipaðan streng tekur svo Óli Björn Kárason sem talar um að beita miskunnarlausum stálhnefa gegn hælisleitendum „sem ætli sér að setjast upp á okkur og velferðarkerfið“. fær mann til að hugsa til stjórnhætta fasistaríkja sem börðu niður með stálhnefa allar mótbárur án tilliti til réttmætis og gagnrýni vegna mannréttindabrota með ógnvekjandi hætti.
Þetta fólk sem tilheyrir flest öfgasinnuðum dólgafrjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins sér svo enga ástæðu til þess að gagnrýna Trump eða álíka mannréttindaþrjóta nema þegar foringi þeirra á Morgunblaðinu hugnast svo. Þessi hópur fólks beitir nefnilega nákvæmlega sömu aðferðum og Trump þegar kemur að valdi sínu og það er að reyna að óvinagera minnihlutahópa sem eiga erfitt með að verja sig sem einhverskonar orsakavalda þess að innviðir Íslands séu illa staddir. Þetta er boðskapur sem nær sérstaklega til fordómafullra fáráðlinga eða fólks sem er það illa statt að það leitar örvæntingafullt að sökudólgi fyrir sínum erfiðleikum og vanmætti velferðarkerfisins. Þessi boðskapur hefur líka þann tilgang að beina athyglinni frá því að orsakir fyrir vanmætti velferðarkerfis, grotnun innviða og slæmrar stöðu samfélagslegs stuðnings eru allt aðrar.
Þær orsakir má nefnilega finna vegna aðgerða og aðgerðaleysis dólgafrjálshyggjuliðsins sem hefur kerfisbundið eyðilegat innviði og grafið undan samfélaginu sem slíku fyrir Hrun og eftir. Þessi hópur lét hér viðgangast stórfelld skattsvik í gegnum aflandsfélög meðan skorið var niður í heilbrigðiskerfi, gerði ekkert neitt til að taka á fjármálakerfi eða öðru sem endaði með því að samfélagið hrundi efnahagslega og með þeim afleiðingum að samfélagslegir innviðir stórsköðuðust. Í stað þess að taka ábyrgð á þeim gjörðum sínum þá hófst þessi hópur nær strax við það að koma sök yfir á aðra og reyna að skapa hatur gagnvart þeim sem reyndu að reisa upp samfélagið og láta réttvísina ná til hinna seku. Þetta er því ekkert nýtt á nálinni nema að nú eru það flóttamenn og hælisleitendur sem eiga að fara að bera ábyrgð á slæmri stöðu heilbrigðis- og velferðarkerfisins auk annarra innviða sem er verið að brjóta niður í átt til einkavinavæðingar að hætti dólgafrjálshyggjunnar. Þessi hópur vill því nú beita stálhnefanum gegn þeim sem enga vörn geta sér veitt svo hægt verði að halda áfram að nota silkihanskana áfram þegar kemur að hinum sterku skoðanabræðrum sem hafa rænt samfélagið að innan:
Aflandsfélagaeigendum og öðrum sem ástunda álíka siðlausa viðskiptahætti sem valda samfélaginu skaða.
Það er því enginn sómi af stálhnefafólkinu heldur aðeins skömm.
Nú mun tíminn einn leiða í ljós hvort sómakennd eða stálhnefar munu að endingu stýra för þessarar ríkisstjórnarinnar þegar kemur að mannréttindum og flóttamönnum en miðað við reynsluna að sem stendur fái sóminn að ráða vegna vinældaleysis stjórnarinnar(sem hugsanlega verður skammlíf). Aftur á móti um leið og hægt verður þá mun stálhnefinn fá að ráða til að viðhalda friðnum innan Sjálfstæðisflokksins sem yfirleitt hallast að notkun stálhnefa í öllum málum.
Nema þegar það hentar ekki með tilliti til stjórnarsamstarfs.
Eða styggir Sám frænda.
Athugasemdir