Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Sjálfhverf snobbhöll alþingis

Hið svokallaða „háttvirta“ alþingi ætlar víst að fara að byggja sér viðbótarhúsnæði við þinghúsið.

Ástæðan sem er gefin upp fyrir þessum framkvæmdum er að alþingi sé að borga svo dýra leigu fyrir húsnæði í kring og því þurfi að byggja nýtt skrifstofuhúsnæði upp á 4.500 fm plús 750 fm bílakjallara sem áætlað er að kosti 2,3 milljarða.

Þetta gæti verið góð og gild röksemd ef ekki kæmi til að þetta eru nákvæmlega sömu röksemdir og Landsbankinn setti fram er varðar byggingu nýrra höfustöðva við hlið Hörpu við miklar mótbárur og herferð sömu þingmanna og ráðherra gegn þeirri byggingu og vilja nú byggja þetta risahúsnæði alþingis á besta stað í bænum.

Það má jafnvel segja líka eins og þá að alþingi sé að fara að byggja á dýrustu lóð bæjarins miðað við staðsetninguna: mitt í hjarta höfuðborgarinnar. Þess til viðbótar má benda á að þetta mun valda gríðarlegu raski á rekstri fyrirtækja þarna í kring með tilheyrandi tekjutapi og óþægindum fyrir þá sem starfa í miðbænum.

En það er ekki nóg með að þetta nýja skrifstofuhúsnæði verði táknrænn minnisvarði um tvískinnungalþingismanna þegar kemur að öðrum en sjálfum sér þá dregur þetta fram líka sjálfhverft áhugaleysi stjórnarmeirihlutans á öðru en sjálfu sér.

Hér og þar um borg og byggðir er heilmmikið af framkvæmdum sem liggur mun meira á heldur en nokkurn tímann sjálfhverf snobbhöll utan um skrifstofur þingmanna.

Til að mynda er enn hola þar sem Hús íslenskra fræða er ætlað að rísa og myndi sú bygging létta á húsnæðisvanda Háskóla Íslands og fleiri stofnanna. Í stað þess er Hola íslenskra fræða orðin eins og minnisvarði um aðgerðarleysi og skemmdarverk ráðherratíðar Illuga Gunnarssonar sem hefur sýnt meiri áhuga á að sinna almannatengslum fyrir leigusala sinn heldur en því sem viðkemur bættri menntun og menningu í landinu.

Það er búið að vera viðvarandi húsnæðisvandi á Landsspítalanum sem þarf að troða sjúklingum inn í kompur ef þeir eru ekki svo heppnir að vera skildir eftir fram á göngum og hluti húsnæðisins liggur undir myglu- og rakaskemmdum.

Fjölmörgum stofnunumskortir fé til að sinna lögbundnum skyldum sínum og fjölmargt fleira ætti að vera í forgangi framar sjálfhverfuhúsnæði alþingis upp á 2,3 milljarða sem væntanlega verður meir í ljósi þess þegar stjórnmálamenn fara að reisa sér minnisvarða í formi bygginga.

Að auki virðist nú ekki sem að alþingi sé í einhverjum sérstökum húsnæðisvandræðum þarna sé miðað við nær tóma þingsali þegar þingfundir eru í gangi. Allavega virðast þingmenn ekkert þurfa að vera í vinnunni til að rökræða mál né kynna sér þau líkt og þingfundum er ætlað að gera enda væri þá þingsalur þéttsetinn af vinnandi fólki með hvern einasta kústaskáp nýttan í húsinu fyrir skrifstofur.

Reyndar ef maður hugsar svo á hinn veginn að ef alþingi sé í húsnæðisvandræðum þá ætti góður hluti þingmanna að geta fengið sérskrifstofuherbergi hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem hefur hingað til verið mjög iðið við að tryggja fjárhag fjölmargra þingmanna og flokka þeirra.

Nú eða jafnvel inni hjá Samtökum Atvinnulífsins, Viðskiptaráði eða MP-banka sem hefur fengið að njóta góðs af frænd- og vinahygli ríkisstjórnarinnar.

Hver veit, kannski gætu m.a.s. frændur Bjarna Ben reddað þessu með aðstöðu hjá Borgun í þakklætisskyni fyrir allar skattaívilnanirnar sem þeir hafa fengið?

Ef ekki þá er nú alltaf hægt að flytja alþingi í eitthvað ódýrt húsnæði nálægt Elliðavatni sem hefur staðið autt frá Hruni eins og stungið var upp í tengslum við höfuðstöðvar Landsbankans þó maður viti ekki hversu hrifnir íbúar þar verði þegar kemur að því að sjá þingmenn á vappi í hverfinu.

Allavega er staðan sú að alþingi sjálft á ekki að vera framarlega í forgangsröðinni þegar kemur að nýju húsnæði og framkvæmdum þess meðan mennta-, heilbrigðis-, samgöngu- og velferðarkerfin eru í sárlegri þörf vegna skorts á fé til framkvæmda, viðhalds og reksturs.

Hið svokallaða „háttvirta alþingi“ á hið minnsta að vera aftast í röðinni þegar kemur að nýjum húsbyggingum.

Enda engin þörf á að reisa sjálfhverfa snobbhöll við Austurvöll nema sem minnisvarða um forgangsröð ríkisstjórnarmeirihlutans sem nú situr við völd.

Og kalla þann minnisvarða Júdasarhöllina.

Sviknu loforðin eru það mörg.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni