Reyksprengja Bjarna Ben
Eftir hátt í tveggja mánaða þögn þá hefur Bjarni Ben loksins stigið fram og svarað varðandi mál kynferðisbrotamannsins Róbert Downeys vegna þeirra spurninga sem kviknuðu í tengslum við þátt Bjarna Ben í afgreiðslu hinnar uppreistu æru.
Það er þó ekki með blaðamannafundi, viðtali við fjölmiðla eða í gegnum samtal við fórnarlömb Róbert Downeys heldur er það í gegnum Fésbókina þar sem hann setur stöðuppfærslu inn á eigin síðu til að svara leiðara í Fréttablaðinu.
Þetta gerir hann aðeins örfáum dögum eftir að hann lokaði á varaþingmann Pírata sem spurði á Twitter út í málið til viðbótar við að hafa hundsað tilraunir fjölmiðla til að ná í sig og tilraunir fórnarlamba sem og aðstandenda til að fá upplýsandi svör um málið.
En í stað þess að reyna að varpa skýrari ljósi á málið í virðingarskyni við fórnarlömbin og jafnvel tilkynna um leið að öll gögn yrðu opinberuð um uppreista æru Róbert Downeys þá hefur hann gripið til hinnar klassísku varnar stjórnmálamanns í vandræðum þegar hann getur ekki þagað mál í hel:
Hann segist ekkert hafa vitað af málinu fyrr en eftir að upplýst hafi verið um afgreiðslu þess af hálfu látinnar samstarfskonu í ríkisstjórn.
Í framhaldi hafa einhverjir stuðningsmenn hans veifað tímalínu úr Morgunblaðinu sem dreift var frítt í hús sama dag og Bjarni kemur með þessa yfirlýsingu. Sú tímalína sýnir eingöngu sérvaldar dagsetningar um kynningu á uppreistri æru Róbert Downeys í ríkisstjórn og hvenær Bjarni leysti Ólöf Nordal af sem innanríkisráðherra eftir afgreiðslu málsins.
Þetta gæti kannski gengið ofan í mann ef það væri ekki fyrir tvö truflandi atriði.
Fyrra atriðið truflar mann augljóslega þegar maður hugsar um þessa þröngu tímalínu sem verið er að halda á lofti sen algildan sannleik. Eingöngu er vísað til þess að Bjarni hafi leyst af Ólöfu af sem innanríkisráðherra EFTIR afgreiðslu málsins en vegna veikinda sinna var Ólöf búin að fara oftar en einu sinni í veikindaleyfi frá því að hún greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum og var talsvert frá árið 2016. Að öllum líkindum hefur Bjarni Ben leyst Ólöfu af oftar en einu sinni og sinnt hennar verkefnum þannig að það eru alveg ágætar líkur á því að málið hafi verið til umfjöllunar í ráðuneytinu á meðan Bjarni leysti hana af. Svona mál eru væntanlega ekki afgreidd á einum degi innan ráðuneytisins heldur taka einhvern tíma hvort sem það eru vikur, mánuði eða ár. Það sem styður þetta líka er að Bjarni hafði fyrir nær tveimur mánuðum siðan talað á þeim nótum eins og að hann hefði komið nálægt endanlegri afgreiðslu málsins frá ráðuneytinu og ekki gert neina tilraun til að leiðrétta fjölmiðla um að hann hefði verið starfandi dómsmálaráðherra meðan málið var afgreitt.
Það síðara er að það hafa engin gögn verið birt sem sanna þessa takmörkuðu tímalínu Morgunblaðsins né að Bjarni hafi ekkert komið nálægt málinu áður. Slík gögn eru bráðnauðsynleg í ljósi þess að Bjarni Ben hefur sagt það oft ósatt gegn betri vitund og/eða borið við minnis- og vitneskjuleysis í málum á borð við Panamaskjölin, Vafningsmálið, o.fl. til viðbótar hinum ýmsu óheilindum Bjarna sjálfs sem gerir orð hans marklaus ein og sér. Það er líka nauðsynlegt að gögn sýni alla tímalínuna frá upphafi umsóknar um uppreista æru í ljósi þess að Morgunblaðið er flokkspólítískt málgagn sem hefur tæklað ýmis vandræðamál ráðherra Sjálfstæðisflokksins á borð við lekamál Hönnu Birnu með vafasömum og hlutdrægum hætti.
Því miður eru öll þessi gögn á borð við fundargerð ríkisstjórnar og afgreiðslu málsins í heild sinni hulin leyndarhjúp sem ekki fæst afléttur né virðist vera nokkur vilji til þess af hálfu stjórnkerfis og núverandi valdhafa.
Manni finnst því ósjálfrátt þessi vörn Bjarna og fyrir Bjarna vera reyksprengja sem er líklegast hönnuð af sannleiksendurhönnunarfyrirtæki(fína nafnið er almannatengslafyrirtæki) á borð við KOM sem ásamt Morgunblaðinu kom einnig við sögu í lekamáli Hönnu Birnu. Það er líka óskiljanlegt að brugðist sé til varnar á þennan hátt þegar auðveldast væri að aflétta leyndinni af öllum gögnum um uppreista æru Róbert Downeys og sýna einfaldlega þannig allan feril málsins því þetta atriði um hvort Bjarni hafi komið nálægt þessu eða ekki er einfaldlega einn hliðarangi af mun stærra máli sem þessari reyksprengju er ætlað að þæfa.
Hið stóra mál er nefnilega spurningin um hvernig og hversvegna Róbert Downey fékk uppreista æru þrátt fyrir iðrunarleysi og að bera öll merki þess að vera það sem kallast á engilsaxnesku „sexual predator“.
Fórnarlömb hans eiga nefnilega fullan rétt á því að vita svörin í heild sinni en því miður er vart annað hægt að sjá en að reynt sé að koma í veg fyrir slíkt með öllum ráðum af hálfu stjórnkerfis og áhrifafólks innan Sjálfstæðisflokksins. Eina svarið sem fæst er að málið hafi fengið eðlilega meðhöndlun en ekkert er skýrt nánar um hvernig það var meðhöndlað, hvaða forsendur liggja til grundvallar uppreistrar æru Róberts, hverjir eru hinir valinkunnu menn sem mæltu með honum og á hvaða hátt það var öðruvísi heldur en mál þeirra sem hafa fengið synjun á uppreistri æru.
Tregðan og stríðið gegn upplýsingu þessa máls fær mann til að fá þær grunsemdir að verið sé að hugsa fyrst og fremst um að verja einhverskonar íslenskan Jimmy Saville sem kom sér skipulega upp öflugu tengslaneti meðal embættismanna og áhrifamanna í stjórnmálum og stjórnsýslu landsins. Maður fær líka þær grunsemdir að þeir valinkunnu menn sem fá að njóta fullkomnar nafnleyndar séu meðal þess tengslanets. Maður fær líka þær grunsemdir að litið hafi verið undan brotum Róbert Downeys í fjölda ára ef ekki áratuga af hálfu stjórnkerfisins sem reynir nú að þagga niður eða þæfa málið með reyksprengjum í von um að krafan um svör gleymist og þáttur þess í því að Róbert gat athafnað sig óáreittur komist aldrei upp.
Óháð manns eigin grunsemdum og hvort Bjarni Ben hafi átt einhvern þátt í afgreiðslu málsins eða ekki þá er eitt öruggt.
Stjórnkerfið allt skuldar fórnarlömbum Róberts skýr og afdráttarlaus svör.
Opinberun allra gagna um hina uppreistu æru er gott fyrsta skref.
Athugasemdir