Mánaðarafmæli ríkisstjórnarinnar
Nú er víst ríkisstjórnin orðin mánaðargömul.
Á þessum mánuði hefur hún áorkað það að byrja sem óvinsælasta ríkisstjórn Íslandssögunnar.
Hún hefur áorkað það að á meðan einn ráðherra tekur á móti flóttamönnum þá sendir annar aðra flóttamenn og hælisleitendur úr landi. Um leið hefur hún sýnt það að hún starfar ekki heil saman.
Hún hefur komið okkur í skilning um það að héðan í frá verði notaður stálhnefi úr ekta krupstahl á flóttamenn og hælisleitendur þegar kemur að ákvörðunum ráðuneytisins.
Hún hefur sýnt strax að hún verði ekki ríkisstjórn sátta heldur ætlar að fara alla leið með freka kallinn á Reykjavíkurflugvelli sem virðir ekki samninga og dóma.
Hún íhugar að leggja á vegskatta á allar leiðir frá höfuðborgarsvæðinu svo að landsbyggðin þurfi ekki að þola það að sjá Reykvíkinga á ferðalagi.
Hún veltir fyrir sér að leyfa einkavinum að opna einkasjúkrahús sem myndi kippa stoðum undan heilbrigðiskerfinu og sér ekkert að því að sömu einkavinir hafa greitt sér út um 100 milljón króna arð sem hefði frekar átt að renna til Landspítalans.
Hún ætlar sér að gera sem minnst og óljóst þegar kemur að aflandsfélögum en er með stórar hugmyndir um að banna reiðufé svo allir geti greitt færslugjöld og umsýslugjöld til bankanna.
Hún hefur valtað gerræðislega yfir færibandakerfi alþingis með Trumpískum hroka þess sem telur sig eiga allt vald og gert sig að drottnara allra fastanefnda þrátt fyrir að minnihluti þjóðarinnar hafi kosið hana..
Hún hefur eytt nokkurri orku í það að friða sjálfhverfa landsbyggðarþingmenn sem dreymir um ráðherrastól sem þeir fengu ekki og bitlingað þá háværustu í nefndarformennsku.
Hún er margklofin þegar kemur að því að fordæma fasisma forseta Bandaríkjanna og hefur sem stendur sætt sig við það að segja bara eitthvað til heimabrúks en þorir ekki að segja neitt á alþjóðavettvangi þegar kemur að Sámi frænda.
Hún hefur í reynd gefist upp fyrir íslenskum skoðanabræðrum Trumps í þingflokki stærsta flokksins og leyfir þeim að stýra umræðunni í þá átt að það sé dónalegra að kalla Trump fasista heldur en mismuna fólki á grundvelli þjóðernis, trúar og litarháttar.
Hún hefur sýnt okkur það að það er enginn sátt um stjórnarsáttmálann þar sem t.d. einn þingmaður og ráðherra virðast ekki hafa áhuga á að hér verði komið á jafnlaunavottun og stærsti flokkurinn vill setja lög á sjómenn fyrir sægreifana sem styrkir hann fjárhagslega en samstarfsflokkarnir taka dræmt í það...allavega opinberlega.
Svo hefur hún sagt hitt og þetta en eiginlega ekki gert neitt.
Eða hvað?
Jú, hvernig getur maður gleymt því?
Mestur allur tími, orka og metnaður hennar hefur farið í þá vinnu að verja Bjarna Benediktsson forsætisráðherra sem stakk mikilvægum skýrslum undir stól í aðdraganda kosninga og tengslum hans við Panamaskjölin sem olli alþjóðlegu hneyksli.
Þar sameinast ríkisstjórnin og vinnur að heilum hug saman með orðalaginu að „ný vinnubrögð“ sé að ræða.
Og hneykslast óspart á þeim sem gagnrýna þessa verndarstefnu spillingar sem ríkisstjórnin mánaðargamla hefur að leiðarljósi
Það hentar nefnilega ekki ímynd ríkisstjórnarinnar sem vill sýna sig sem einhverskonar glútenfría hipstera-útgáfu af Gamla Íslandi að benda á augljósa spillingu.
Það er nefnilega dónaskapur að benda á það að það sé ennþá sama, ógeðslega eftirbragðið af kökunni sem Bjarni bakar.
Eða að það versnar með hverjum bakstri.
Athugasemdir