Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Þjóðin sem hefur efni á mannúð

Árið 1956 þá tók Ísland á móti 52 flóttamönnum frá Ungverjalandi eftir innrás Sovétmanna þangað.

Íbúar landsins voru þá um 160 þúsund og Ísland var skilgreint sem þróunarríki af alþjóðastofnunum sem veittu landinu ýmsan fjárhagslegan stuðning til viðbótar við Marshall-aðstoðina og hermangið sem landinn græddi talsvert á.

Miðað við það fátæklega litla sem maður hefur lesið um þetta þá þótti landanum þetta ekkert tiltökumál, verið var að hjálpa landlausu fólki á flótta undan ofsóknum, fangelsun, pyntingum og dauða í skugga hryllings seinni heimstyrjaldarinnar sem olli einum stærsta flóttamannavanda sögunnar.

Íslendingar höfðu þá almennt samkennd með öðru fólki, samkennd sem virðist hafa glatast þegar græðgin óð yfir hana á glansandi lakkskóm í kringum aldamótin. Þá urðum við sem þjóð skyndilega svo ofurrík að sjálfselskan, sjálfhverfan og drambið bar okkur ofurliði. Við sem þjóð álitum okkur betri en aðrar þjóðir heims, forsætisráðherra hæddist að fólki í biðröðum eftir mat við Mæðrastyrktarnefnd og margir skoðanabræður hans tóku undir, öryrkjar voru fyrirlitnir og sagðir svindlarar, fjölmörgum þeirra þótti einnig í lagi vegna stuðnings stjórnarherra við Íraksstríðið að pynta og myrða saklaust fólk því við værum „viljug þjóð“ og á því Mammons ári 2007 þá voru fjölmargir Íslendingar uppteknir af því hvað Austur-Evrópubúar og múslimar væru hryllilega vont fólk sem ætti að halda í burtu frá landinu nema þegar kæmi að því að nota þá sem þræla við þrif, veitinga- og verkammanstörf eða við Kárahnjúka og önnur stórkallaleg áform hins íslenska heimsveldis. Þess til viðbótar veltum við okkur upp úr peningum, glingri, gulli og glæstum eigum.

Svo kom Hrunið, svo komu erfiðleikar og svo kom vitundarvakning um stund hversu helsjúk þjóð við vorum orðin.

Svo leið sú stund og við erum búin að spóla aftur til 2007 í þankagangi nema að í stað drambsins hefur sjálfsvorkunarvæl tekið völdin þegar kemur að því að réttlæta allskonar sjálfhverft skeytingarleysi um þá sem minna mega sín.

Horfumst í augun við það.

Við erum ekki þjóð í landi þar sem verið er að heyja blóðuga borgarastyrjöld, við erum ekki þjóð í landi þar sem hungursneyð og vatnsskortur er daglegt brauð, við erum ekki þjóð í landi þar sem er verið að sprengja heimili fólks upp, við erum ekki þjóð í landi þar sem verið er að misþyrma og pynta fólk í massavís, við erum ekki þjóð þar sem stríðandi fylkingar drepa saklaust fólk dags daglega og allra síst erum við ekki þjóð þar sem landsmenn þurfa að velja á milli þess á hverjum degi að taka þá áhættu að fjölskyldan deyi eða leggja á flótta til annarra landa í von um líf án ógnar, ótta og hryllings.

Við erum aftur á móti mjög rík þjóð þó við eigum í okkar erfiðleikum sem flestir stafa af misskiptingu auðs, ójöfnuði, græðgi og skeytingarleysi gagnvart náunganum. Allt eru það hlutir sem hægt er að laga með því að breyta hugsunarhætti stjórnvalda og okkar sjálfra gagnvart því hvernig samfélag Ísland eigi að vera.

Við erum líka þjóð sem hefur ekki efni á því að bera fyrir okkur sjálfselska sjálfsvorkun um hversu allt sé hræðilegt hér og því eigum við ekki hjálpað fólki sem þarf að flýja hryllilegar aðstæður. Við sitjum inn í upphituðum húsum við rafmagnsljós, rífumst á Feisbúkk í gegnum nýjar tölvur milli þess sem við gjóum augum á dýra snjallsímana, við eigum hreint vatn, við eigum nóg af mat og erum almennt mjög örugg í okkar tæknivædda samfélagi sem aldrei hefur upplifað stríð í sinni verstu mynd.

Við aftur á móti höfum sem þjóð efni á því að sýna samkennd og bjarga flóttafólki frá hryllilegum aðstæðum sem við vonandi þurfum aldrei að upplifa. Við höfum allt til alls, við höfum landrými, við höfum tækifæri til að bjarga hundruðum ef ekki þúsundum mannslífa og við eigum að geta sýnt það í verki að við séum enn þjóðin sem tók á móti 52 flóttamönnum árið 1956 án þess að velta sér upp úr því hvað við hefðum það bágt sem þróunarríki.

Það eina sem vantar til að slíkt gerist er samkennd, vilji og mannúð.

Peninganna eigum við nefnilega nóg af.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu