Illska Íslands
Á Íslandi er verið að fara að siga lögreglu á börn til að vísa út úr landi í skjóli nætur.
Þetta er gert vegna þess að þau eru hælisleitendur og flóttamenn, ríkisfanglaus og varnarlaus án nokkurra tengsla við íslenskt stjórnkerfi.
Þetta er gert í trássi við Barnasáttmála SÞ sem Ísland er aðili að, þetta er gert í trássi við lög um réttláta málsmeðferð og þetta er gert án þess að réttlát málsmeðferð hafi átt sér stað.
Dómsmálaráðherra stígur svo fram og segir að þessu verði ekki breytt, mannúð komi ekki til greina, hún sé nú ekki að grípa framfyrir hendurnar á nefndum og stofnunum þó hún hafi gert það í Landsdómsskipkunum sem meirihluti alþingis samþykkti að eðlilegt væri að ráðherrar hefðu slíkt geðþóttavald gagnvart nefndum og stofnunum. Það er borið er við þröngri túlkun á Dyflinnareglugerð sem engin skylda er að fara eftir þegar kemur að brottvísunum nema hjá útlendingahatandi Útlendingastofnun og kerfisköllum hverskonar sem ákveða að þessi börn skulu ekki fá að leita réttar síns fyrir framan Héraðsdómi og Hæstarétti.
Hin réttlausu börn og fjölskyldur þeirra skulu út úr landi sama hvað.
Skilaboð stjórnkerfisins eru skýr.
Hinir valdlausu og varnarlausu eiga ekki skilið mannúð, réttlæti, öryggi eða björgun úr neyð.
Þau geta sjálfum sér um kennt að vera á botni hinnar Ayn Randísku fæðukeðju stjórnkerfisins.
Þetta eru sömu skilaboð og fórnarlömb kynferðisbrota fengu frá stjórnkerfinu þegar uppvíst varð um uppreista æru Róbert Downeys og fleiri kynferðisbrotamanna.
Þeim var sagt bara að fyrirgefa, þeim komi þetta hreinlega ekki við og þau eigi engan rétt á því að vera að skipta sér af svona málum.
Stjórnkerfið hefur líka lagst á eitt um að vernda hinn hvíta, veltengda kynferðisbrotamann Róbert Downey sem sinnti eitt sinn störfum fyrir hinn sovéska kerfisflokk er kenndur er við sjálfstæði og fékk nú lögmannsréttindin sín á silfurfati stjórnkerfisins.
Formaður stjórnskipunar- og þöggunarnefndar alþingis kemur fram við fórnarlömb hans af lítilsvirðingu, innanríkisráðuneytið slær verndarhjúp leyndar um allar upplýsingar, meirihluti þingmanna stjórnskipunar- og þöggunarnefndar alþingis gengur út af fundi til að sýna fórnarlömbum fyrirlitningu, formaður allsherjarnefndar alþingis reynir að koma í veg fyrir að dómsmálaráðherra sé spurður sérstaklega út í mál Róbert Downeys, hin sovéski kerfisflokkur sjálfstæðis gerir þetta að flokkspólitísku máli til stuðnings hinum veltengda Róbert Downey, dómsmálaráðherra segir til afsökunar að ferlið sé vélrænt en snarneitar svo að gefa upp nokkrar upplýsingar um hvernig að málum var staðið, hverjir mæltu með uppreistri æru og hversvegna í ósköpunum var beðið með afgreiðslu þar til tíminn hentaði. Hent er því fram sárabót að lögum um uppreista æru verði breytt og vonast til þess að þögnin nái yfirhöndinni á ný.
Skilaboð stjórnkerfisins eru skýr.
Hin sterku og veltengdu rándýr skal ávallt vernda með kjafti og klóm ólíkt þeim sem eru neðar í fæðukeðjunni hvort sem það eru fórnarlömb rándýra eða réttindalausir flóttamenn og hælisleitendur.
Þetta er illska Íslands.
Athugasemdir