Gjöf Kára - Sneypa ríkisstjórnar
Það var höfðingjaleg gjöf sem Kári Stefánsson færði íslensku þjóðinni í formi jáeindaskanna þó heilbrigðisráðherra virtist ekkert sérlega upprifinn.
Það gæti þó hlutast af því að þessi gjöf kemur sem ákveðin mótstaða í hinar augljósu fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að brjóta niður heilbrigðiskerfið svo hægt sé að einkavinavæða það. Ekki bætir það heldur úr skák fyrir geð ráðherrans að slíkar gjafir sýna okkur pöpulnum þá sneypu ríkisstjórnarinnar að hvað hún er áhugalaus um að tryggja almenningi góða heilbrigðisþjónustu.
En nóg um það.
Jáeindaskannin á víst að kosta eitthvað um 800 milljónir sem er dágóð upphæð.
Það er 100 sinnum meira heldur en Sigmundur Davíð græddi á aflagningu auðlegðarskattsins.
Auðlegðarskatturinn skilaði svo í heild sinni um 11 milljarða til þjóðarbúsins áður en hann var aflagður vegna aðþrengrda auðmanna. Það hefði verið hægt að kaupa nær 14 jáeindaskanna fyrir það fé.
Áætluð áform Bjarna Benediktssonar um að afnema raforkuskattt á álver mun þýða að ríkissjóður verður af 1,6 milljarði. Það væri hægt að kaupa 2 jáeindaskanna fyrir það.
Veiðigjöld fyrir nýtingu útgerðarinnar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem voru frekar lág, hafa lækkað um ca. 3 milljarða frá því að ríkisstjórnin tók við. Það hefði verið hægt að kaupa um 4 jáeindaskanna á hverju ári fyrir þá lækkun og voru þó veiðigjöldin mjög lág fyrir.
Bara þessar þrjár skattalækkanir hefðu skilað ríkissjóði um 15,6 milljörðum ef allt væri eðlilegt og örugglega meir miðað við raunhækkanir. Það hefði dugað til þess að fjármagna nýjan Landspítala utan um jáeindaskannann frá Kára á 6-7 árum en hann á víst að kosta um 100 milljarða.
Og við skulum ekki einu sinni ræða um hvað það hefði verið auðvelt að bæta kjör hjúkrunarfræðinga og annarra innan heilbrigðiskerfisins ef eitthvað af þessu fé hefði skilað sér í ríkissjóðinn.
Það hefði því verið mjög auðvelt fyrir ríkisstjórnarflokkana að láta kaupa þennan jáeindaskanna ef hún hefði ekki verið það upptekin við auðmannadekrið.
Enda ætlaði hún sér ekkert að kaupa hann.
Boðaður niðurskurður í heilbrigðiskerfinu upp á rúmar 700 millljónir á næsta ári segir okkur það.
Það er nánast eins og eitt stykki jáeindaskanni í mínus.
Og enn ein sneypan fyrir ríkisstjórnina.
Athugasemdir