Er Óli Óla Keyser Söze Íslands?
Maður á einstaklega erfitt með að kyngja þessum upphrópunum um að stjórnvöld, aðilar innan S-hópsins og fjölmiðlar líka hafi allir verið blekkt af Óla Ólasyni þegar Búnaðarbankinn var einkavinavæddur. Manni finnst einhvern látið að því liggja um leið að allt ferlið hafi bara verið fullkomlega í lagi fyrir utan þetta eina atriði og allir þáttakendur aðrir hafi verið fullkomlega vammlaust fólk.
Allt þetta vammlausa fólk sem átti að tryggja að allt væri í lagi: ráðherrar, embættismenn, fjölmiðlafólk, þingmenn og álitsgjafa hafi Óli Óla átt að hafa blekkt svo auðveldlega og lúmskt að manni er eiginlega farið að skiljast að hann sé að sé hinn eini sanni, íslenski Keyser Söze.
AFSAKIÐ EN STOPP!
TAKIÐ SMÁ REALITY CHECK!
RIFJIÐ UPP SKÝRSLU RANNSÓKNANEFNDAR ALÞINGIS UM BANKAHRUNIÐ OG UPPLJÓSTRANIR FJÖLMIÐLA SÍÐUSTU ÁRATUGI!
Fyrirgefið að ég hrópi hátt en maður verður að vekja athygli á því að þó Óli Óla sé andskoti slæmur krimmi er hann enginn Keyser Söze Íslands.
Hann er bara hefðbundin íslenskur viðskiptamaður sem nýtti sér hið óeðlilega hjónaband viðskipta og stjórnmála á Íslandi til að komast yfir banka og naut aðstoðar fleiri en eins aðila úr stjórnmálum og stjórnkerfi til þess.
Hann makaði krókinn já en hann passaði sig á því að smyrja vélina vel með Framsóknarhúsinu á Hverfisgötu, styrkjum í kosningasjóði og annað í þeim dúr sem fleiri viðskiptamenn hafa notað vel.
Skoðið bara „styrki“ útgerðarinnar til þingmanna og stjórnmálaflokka og þá sjáið þið hverjir tala hvað mest um lækkun veiðigjalda, voru á því að ríkið ætti að taka upp sjómannaafslátt að nýju og berjast hvað mest á móti kerfisbreytingum á kvótakerfinu.
Þetta er ekkert nýtt.
Svona hefur bara Ísland verið eins lengi og maður man eftir.
Óli er ekki Keyser Söze frekar en hinir og hann er ekki sá eini sem eignaðist banka með blekkingum.
Eða eruð þið búin að gleyma Björgólfsfeðgum sem sagðir voru af forkólfum Sjálfstæðisflokksins koma með fullar töskur af erlendu fé til að fjárfesta á Íslandi?
Rifjið aðeins upp eitt.
Þeir fengu lánaðan pening hjá Búnaðarbankanum til að kaupa Landsbankann líkt og S-hópurinn fékk lánaðan pening hjá Landsbankanum til að kaupa í Búnaðarbankanum.
Þetta var því blekking og allir innmúraðir og innvígðir voru „in on it“ eins og sagt er í góðum krimmum.
Rifjið líka upp hverjir voru hvað mest að hamast í því að tryggja S-hópnum og Björgólfsfeðgum bankanna á bak við tjöldin og með beitingu kommisara sinna í einkavinavæðingarnefnd.
Það voru dáðadrengirnir Dabbi og Dóri sem tóku þann dúett saman í sama dúr og þegar þeir gerðu Ísland samsekt mannréttindabrotum, pyntingum og fjöldamorðum i hinu ólöglega Íraksstríði gegn því að Kaninn myndi vera nokkur ár lengur með fjórar herflugvélar. Brotthvarf Kanans hefði nefnilega verið pólitískt óþægilegt svona skömmu fyrir kosningar 2003.
Þeir vildu að þessum aðilum yrðu seldir bankarnir sama hvað enda báðir í nánu talsambandi við væntanlega eigendur.
Við hlið þeirra stóðu svo Geir og Valgerður sem spurðu einskins en sögðu bara það sem þau áttu að segja um hvað þetta væri frábært.
Og þetta er bara smáræði sem við vitum um þessa einkavinavæðingu.
Við vitum nefnilega alls ekkert alla söguna enda hafa Sjálfstæðismenn barist hart gegn því að hún verði rannsökuð.
Þeir eru nefnilega skíthræddir við að öll sagan komist upp þó glæpirnir séu fyrndir.
Hver veit?
Kannski er Keyser Söze Íslands þar í miðjum vefnum sínum.
Ég efast reyndar um það.
Einkavinavæðingin á bönkunum er nefnilega alveg í samræmi við aðrar einkavinavæðingar Íslandssögunnar.
Síldarverksmiðja Ríkisins var seld til pabba Bjarna Ben og fleiri góðra Sjálfstæðismanna vegna þess að þeir sem buðu best voru ekki þóknanlegir kaupendur. Um leið og kaupin voru frágengin þá byrjuðu kaupendurnir á því að greiða sér út arð sem samsvaraði kaupverðinu.
Einkavinavæðingin á Íslenskum Aðalverktökum var framkvæmd af mönnum sem sátu báðum megin við borðið og seldu sjálfum sér ríkiseigur þar sem voru eignir faldar og aðrar seldar á gjafvirði. Manni rámar m.a.s. í það að ríkið hafi verið látið kaupa vinnuvélar á meðan ferlinu stóð og þær fylgdu svo fríkeypis með þar sem þær voru ekki reiknaðar inn í verðið. Þetta er líka eina einkavinavæðing ríkisins sem hægt er að segja með vissu að hafi verið stimpluð ólögleg af Hæstarétti en var kaupunum rift?
Ónei, ekki frekar en einkavinavæðing Borgunar sem þetta minnir á.
Svo var það nú einkavinavæðingin á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Þar var hluturinn seldur til nýstofnaðs fyrirtækis í eigu Glitnis og FL Group. Frá sölunni var gengið eftir að FL Group hafði styrkt Sjálfstæðisflokkinn um 30 millur rétt fyrir áramót og starfsmaður einkavinavæðingarnefndar, Illugi nokkur Gunnarsson, fékk svo stjórnarformennsku í Glitni sjóðum örfáum mánuðum síðar.
Það skal samt tekið fram að ekki er vitað hvort FL Group hafi verið leigusali Illuga Gunnarssonar á þeim tíma.
Þessi dæmi og mörg fleiri sýna að það var enginn Keyser Söze á svæðinu heldur var þetta einfaldlega hefðbundið ferli í gangi þegar kom að því að selja ríkiseigur og tryggja réttum aðilum fyrirtækin. Ef þeir hefðu verið spurði á þeim tíma út í þetta þá hefði svarið annað hvort verið að þarna réðu annarlegar hvatir, þetta væri Baugs/Samfylkingarspuni eða bara hreinlega sagt:
„Honestly, I don‘t give a fuck.“
Svona hafði, hefur og verður alltaf stundaður bissness á Íslandi í þessu hjónabandi viðskipta og stjórnmála.
Sjáið bara Bjarna Ben og fjölskyldu hans.
En kannski er líka ástæðan fyrir hræðslu Sjálfstæðismanna við rannsókn sú að allt þetta verði rannsakað í topp.
Einkavinavæðing á Íslandi er það stór og ljót saga að kannski er best að við fáum hana í hæfilegum skömmtum til að jafna okkur á milli en það er nauðsyn að rannsaka hana alla en ekki bara einkavinavæðingu bankanna. Samt er örugglega best að byrja á henni þar sem hún er það sem er stærst í huga okkar og því erfitt að sjá „minni málin“ fyrir spillingarreyknum af þeirri einkavinavæðingu. Sá spillingarreykur er það mikil mengun í íslensku samfélagi að United Silicon lítur út eins og vistvænt garðrækt í samanburði.
Við þurfum því að rannsaka einkavinavæðinguna í þaula þó Sjálfstæðismenn séu hræddir um hvað komi upp á yfirborðið.
En hver er Keyser Söze Íslands?
Það er allavega ekki Óli Óla eða einhver annar álíka týpískur viðskiptamaður á Íslandi.
Svarið er samt eiginlega augljóst.
Það er einhver fjölfatlaður í hjólastól sem er að reyna að fá smábætur til viðbótar út úr Tryggingastofnun.
Dönsk skoðanakönnun hefur sagt okkur það.
Enda réðst íslenska ríkið hart til atlögu gegn hinum íslenska Keyser Söze með mörg hundruð milljóna tilkostnaði og 62 milljón króna ávinningi.
Okkur munar um þann pening ólíkt þessum hundrað eða hundruðu milljarða sem viðskiptalífið hefur svikið undan skatti, tugmilljarðanna sem liggja í skattsvikaskjólunum og allt peningaþvættið sem hefur átt sér stað í gegnum aflandsfélög íslensks viðskiptalífs án þess að hafa ratað til endurreisnar íslensks samfélags eftir Hrunið sem íslenskt viðskiptalíf og samsekt stjórnkerfi olli hér.
En hinn raunverulegi Keyser Söze myndi ekki koma nálægt slíku.
Hann er of vandur að virðingu sinni og of klókur til að koma nálægt svona hefðbundnum íslenskum viðskiptum.
Hann er nefnilega hinn Ólinn.
Hann er skáldaður krimmi.
Ólíkt Óla Óla.
Athugasemdir