Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Bravó, Gunnar Bragi!

Þá sjaldan það sem það gerist þá verð ég að segja það upphátt.

Ég er ánægður með Framsóknarmann.

Ég er ánægður með utanríkisráðherrann Gunnar Braga Sveinsson fyrir að standa fast í lappirnar gagnvart grátkór kvótagreifanna um að setja hagnað þeirra í forgang vegna viðskiptabanns Rússa.

Svo óvænt ánægður að ég væri m.a.s. til í að steikja smá beikon frá Pylsumeistaranum ofan í hann eftir viðtalið á Sprengisandi þar sem hann lét útgerðina heyra það.

Það þarf nefnilega talsvert þor að taka slaginn við kvótagreifanna og setja þá þjóðarhagsmuni ofar eða líkt og Pawel Bartozek nefnir í góðri grein sinni í Fréttablaðinu, að vera tilbúinn til þess að taka á okkur smáskell í samstöðu svo við getum treyst á að vinaþjóðir séu tilbúnar til að verja okkar hagsmuni þegar á reynir. Það hefur nefnilega engin sérstakan áhuga á að hjálpa þeim sem hugsar eingöngu um rassgatið á sér og er ekki tilbúinn til þess að hjálpa öðrum þegar á hólminn er komið.

Þannig hefur útgerðin líka hagað sér hingað til.

Hún hefur grátið undan örlítilli hækkun veiðigjalda á sama tíma og hún hefur verið að græða tugmilljarða, hún hefur fært fé út úr landi í skálkaskjól á borð við Kýpur og gætt þess að fé fengið með rányrkju rati ekki til samfélaga, hún hefur lagt efnahag heilu þorpanna í rúst til að geta grætt meir og hún hefur barist hart gegn skýru auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Þjóðin hefur aftur á móti þurft að taka á sig gengisfellingar vegna hennar, þjóðin niðurgreiðir launakostnað hennar í gegnum lagaákvæði um að setja megi fiskvinnslufólk beint á atvinnuleysisbætur og á fjölmörgum stöðum hefur fólk þurft að taka á sig fjárhagslegan skaða og eignarýrnun vegna þess að kvótinn var fluttur í burtu. Útgerðin hefur líka beitt ógnarstjórnunartækni til að refsa fólki fyrir skoðanir, gagnrýni og réttindabaráttu, hún hefur einnig misnotað starfsfólk sitt sem peð í eiginhagsmunabaráttu, hún hefur borið fé á þingmenn og stjórnmálaflokka til að tryggja hagsmuni sína, og hún hefur svipt fjölda fólks lífsviðurværinu til að geta aukið sviminháan arðinn á næsta aðalfundi.

Það er því ekki hægt að segja að kvótagreifarnir hafi sýnt það í gegnum tíðina að þeir beri hagsmuni þjóðarinnar fyrir brjósti sér heldur þvert á móti verið viljugir til þess að beita öllum ráðum til að vernda eigin hagsmuni gagnvart þjóðarhagsmunum.

Það sama er upp á teninginn nú og það þarf því ansi miklar hreðjar til að þora að ganga gegn hinu peningalega ofurefli stríðsreksturs sægreifanna sem þeir heyja í gegnum samtök sín, almannatengla, áróðursmiðla og þingmenn sína.

Gunnar Bragi sýndi þær hreðjar.

Fyrir það fær hann hrós og stuðning af minni hálfu.

Vonandi gera fleiri slíkt hið sama.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu