Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Bankabónusasvívirðan enn á ný

Skömmu fyrir kosningar síðastliðið haust þá fréttist af því að slitabú Kaupþings og Landsbankans ætluðu að greiða sínu liði svívirðilega háa bónusa sem minntu mikið á sturlunina fyrir Hrun.

Þingmenn komu reiðir og alvarlegir fram, börðu í pontu og fóru mikinn um að taka þyrfti á þessum svívirðilega ósóma sem bankabónusar eru.

Þáverandi fjármálaráðherra gaf sér m.a.s. tíma frá því að stinga skýrslum undir stól og kallaði þetta sjálftöku.

Ekkert gerðist svo.

Það sama var upp á teninginn með svívirðilegar launahækkanir til þingmanna og ráðherra sem pólitískt skipað Kjararáð ákvað.

Mikið orðagjálfur en engar aðgerðir til að taka á þeirri siðlausu óhæfu sem var úr takti við kjör almennings líkt og bankabónusar.

Enda er það réttilega metið af slitabúi Glitnis að topparnir þar geta komist upp með það að ná sér í „fundið fé án hirðis“ og taka sér 1,5 milljarð í bankabónus hið minnsta.

Það mun þó eitthvað hvína frá þingmönnum og ráðherrum um þessa svivirðilegu sjálftöku og óhæfu.

En aðgerðir?

Nei, þær verða engar.

Allra síst frá núverandi stjórn sem mun ekki gera neitt sem truflar veisluna enda fengi ekki ránfuglinn að borða ef ójafnaðarfestival frjálshyggjunnar yrði truflað.

En aftur á móti þegar kemur að almennu launafólki að fara fram á mannsæmandi laun þá mun heyrast mikið um röskun á stöðugleika og jafnvægi samfélagsins rétt áður en Skíthælastjórnin grípur til aðgerða með lagasetningum gegn almennu launafólki hvort sem það er lífeyrisréttindasvipting eða lagasetning á verkfall.

 Maður er m.a.s. byrjaður að sjá núna að það er byrjað að gíra upp leikrit pólitískrar réttlætingar fyrir lagasetningu á verkfall sjómanna í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna.

Enda vilja kvótagreifarnir ekki semja.

Þeir vita að Skíthælastjórnin mun redda þeim.

Alveg eins og aðrar slíkar stjórnir hafa gert áður.

Enda snýst stöðugleiki og jafnvægi um það eitt að traðka á réttindum og kjörum almennings til viðbótar því að auka ójöfnuð í þágu hinna ríku.

Plús það að koma ríkiseigum í hendur vina og vandamanna sem borga sér og sínum feita bankabónusa fyrir greiðann.

Helst inn á Panamareikninga.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni