Árið 7 e. H.
Það eru sjö ár frá Hruni.
Sumir segja að því sé fyrir löngu lokið og eigum því að horfa fram á veginn.
Samt erum við enn að vinna úr því, enn að gera það upp, enn að fást við afleiðngarnar og sumir eruenn að reyna að berjast við að bæta þannig úr verði betra og manneskjulegra samfélag sem hefur lært af mistökum sínum.
Dýrkeyptum mistökum sem fólust m.a. í því að frjálshyggjan gerði markaðinn að húsbónda okkar en ekki þægum hundi í bandi líkt og markaðurinn á að vera.
En höfum við eitthvað lært?
Maður efast stórlega um það.
Lítum bara yfir sviðið.
Bankarnir eru komnir á fullt í sömu lætin aftur með ofurlaunum, heimtandi bankabónusa og farnir að selja sérstaklegum vildarvinum fyrirtæki sem þeir stórgræða á án þess að aðrir hafi fengið sömu tækifæri til kaups.
Fjármálaeftirlitið einblínir nú orðið á design-stóla á skrifstofu forstjórans frekar en hvað er að gerast hjá fjármálafyrirtækjunum enda er búið að stórgelda það að nýju.
Það eru lækkaðir skattar á auðmenn og sægreifa meðan gengið er fram með ofstækislegu offorsi í niðurskurði á grunnþjónustu hverskonar.
Nýjasta gullæði græðginnar í ferðaþjónustu fær að vaða áfram og yfir allt saman með tilheyrandi níðingsskap gegn starfsfólki fengnu í gegnum starfsmannaleigur, skattaívilnunum og blindum augum gagnvart skattsvikum sem eru umfangsmikil innan þessa geira.
Peningamenn þagga niður í frjálsri fjölmiðlun með uppkaupum og hagsmunagæsluvæðingu þeirra í þágu ójöfnuðar og spillingar.
Frændur fjármálaráðherra eignast Borgun í gegnum Landsbankann sem fjármálaráðherra ætlar svo næst að einkavinavæða til innvígðra og innmúraðra án þess að fyrri einkavinavæðingar hafi verið rannsakaðar, lögum breytt og hvað þá að hafa til þess nokkurt umboð frá þjóðinni.
Menntamálaráðherra lætur ekki ná í sig vegna viðskipta við fyrirtæki sem hann stóð í almannatengslum fyrir í Kína og virðist hafa fengið ívilnanir hjá sem minna mann einna helst á mútur.
Heilbrigðismálaráðherra og fjármálaráðherra ganga harðast fram í því að halda áfram leiknum frá því fyrir Hrun og reyna að eyðileggja sem mest innviði velferðar- og heilbrigðiskerfisins en yppa svo öxlum og láta sér fátt um finnast þegar manneskja fær ekki lyf vegna þess að „það þarf að halda fjárlög“.
Peningar eru nefnilega orðnir aftur mikilvægari en fólk.
Það hafa engar lýðræðisumbætur orðið, við höfum verið svikin um nýja stjórnarskrá, við höfum verið svikin um þjóðaratkvæðagreiðslu, við höfum verið svikin um réttlæti og réttláta framtíð af hálfu þeirra sem bera helst sök á Hruninu:
Sjálfstæðisflokknum.
Það er m.a.s. byrjað að hlusta á Viðskiptaráð aftur sem syngur það sama og áður.
„Einkavæðing, einkavæðing, einkavæðing.
Skattleysi fyrir ríka, skattleysi fyrir ríka, skattleysi fyrir ríka.
Frelsið er fyrir forríka, fátæktarhöft eru fyrir hina.“
Mantran um Ísland er framar öðrum þjóðum er m.a.s. byrjuð að heyrast aftur.
Og það m.a.s. með sömu andlitum og röddum að nýju.
Enda náðum við bara að láta fáa sæta ábyrgð.
Alltof fáa.
Svo grenjaði landinn yfir því þegar „aumingja Geir“ var dröslað réttilega fyrir Landsdóm.
Landinn heldur nefnilega alltaf með gerandanum í glæpum.
Þeir eru svo miklir íslenskir víkingatöffarar að það er alveg fullkomið að gera þá að sendiherra okkar þjóðarsálar.
Nema þegar þeir nást og bulla fyrir rétti.
Líkt og Hreiðar Már, núverandi fangi á Kvíabryggju sem segir að dómari sé vanhæfur vegna þess að hann sé í samtökum sem berjist gegn spillingu.
Maður heyrir nánast Jón Steinar, Ólaf Börk og Þorstein Davíðsson kinka kolli til samþykktar um að slíkt sé áskrifun á vanhæfni að finnast spilling óeðlileg.
Hafið samt ekki áhyggjur, greinin eftir Jón Steinar birtist bráðlega í miðopnu Morgunblaðsins hans Davíðs Oddsonar og á Eyju Björns Inga Hrafnssonar sem tekur svo viðtal við Jón Steinar í samfélagsþættinum Eyjan á Stöð 2 hans Jóns Ásgeirs.
Djöfull er þetta klikkað.
Svona er þetta sjö árum eftir Hrun og maður er rétt byrjaður að telja upp.
En hey, Sjálfstæðisflokkurinn er að fara að kjósa sér varaformann.
Við getum gleymt þessu Hruni meðan vel almannatengdur flokkurinn misnotar fréttatíma og forsíður blaðanna til að segja okkur fregnir af því að næsti varaformaður verði annað hvort manneskja sem sagði að skýrsla Rannsóknanefndar Alþingis væri tímabundin truflun fyrir flokkinn eða manneskja sem sagði að það ætti ekkert að vera að púkka upp á þessu skýrslu lengur, hún ætti bara heima í skúffu og við ættum að horfa fram á veginn sem stefnir í sömu átt og áður.
Þið munið annars eftir þessari skýrslu, erþaggi?
Hún var uppgjör okkar við Hrunið og vegvísir um hvað við þyrftum að laga til að hér yrði ekki aftur Hrun heldur betra samfélag.
Ha?
Munið þið ekkert eftir henni?
Er þessi rödd að yfirgnæfa lágróma lærdóma hennar?:
„Tjú tjú, grunlausir farþegar, þetta er lestarstjórinn IceHot1. Við erum á ógnarhraða í átt að öðru Hruni, kaupið hlutabréf um borð áður en Einar frændi og fyrrum aðstoðarmenn Davíðs stökkva frá borði við Tortóla.“
Fyrirgefið aðeins núna en ég held að klikkun nái ekki yfir þetta ástand sjö árum síðar.
Við ætluðum að læra nefnilega, munið þið?
Hvað klikkaði?
Ójá, við kusum þá sem sköpuðu Hrunið til valda án þess að muna eftir því.
Við þurfum líka að skamma okkur fyrir að hafa látið það gerast og viðurkenna þau mistök í stað þess að láta eins og allt liðið sem talað var við í skýrslu Rannsóknanefndar Alþingis.
Þið munið kannski að ekkert þeirra viðurkenndi mistök og fá þeirra hafa gert það síðan heldur jafnvel frekar forherst.
En hey, ef við viðurkennum þessi mistök og lærum af þeim þá fáum við kannski stjórnmálamenn sem þora að gera það sem þarf að gera:
Koma hér á nýrri stjórnarskrá, taka á spillingu og ganga hreint til verks gegn því að tjóðra Fenrisúlf frjálshyggjunnar sem er kallaður „hinn frjálsi markaður“.
Einmitt svona hlutir sem komu m.a. fram í skýrslu RNA.
Enda er nú smá von um að við sjálf höfum lært eitthvað með því að styðja við lýðræðisflokka á borð við Pírata þó teikn séu á lofti um að fasísk frjálshyggja og spilling Sjálfstæðisflokksins sé að bæta við sig fylgi að nýju.
Verum bara ekki heimsk aftur.
Kjósum frelsi, lýðræði, jöfnuð, mannréttindi og velsæld öllum til handa.
Kjósum ekki Sjálfstæðisflokkinn sama hvað hann segist hafa breyst.
Ef þið kjósið hann þá eruð þið að styrkja við bakið á atvinnumiðlun ríkisins fyrir Árna Sigfússon og álíka vonlausa kóna.
Horfið frekar á samfélagið sjö árum eftir Hrun og spyrjið ykkur:
„Viljum við raunverulega hafa þetta eins og árið 2007?“
Ef svarið er nei þá eigum við séns í að læra af Hruninu þó spilltir stjórnmálamenn stingi skýrslunni góðu ofan í skúffu og viðskiptalífið jarði lærdómana við hliðina á Geirfinni.
Ef svarið er já, þá munum við þurfa við að borga brúsann aftur fyrir frjálshyggjuna.
Og í framhaldi festast í endalausri hringrás þar sem við kjósum okkur aðra Sigmunda og Bjarna vegna fýlunnar út í næstu Jóhönnu.
Brjótum hringinn.
Lærum af Hruninu.
Það verður kannski of seint fyrir slíkt þegar kemur að áttunda Hrunafmælinu.
Ég nenni allavega ekki að þurfa að hlusta á einhvern Sjallan reyna að velta sök sinni yfir á okkur með orðum á borð við:
„Þið keyptuð ykkur 4K FLATSKJÁ!“.
Athugasemdir