"Alvöru erlendir fjárfestar"
Þegar maður hugsar til þess þá man maður varla eftir því að það hafi komið hingað „alvöru erlendir fjárfestar“ til landsins á þessari öld nema þá kannski helst stóriðjan. Samt hefur stóriðjan þurft að fá skattaafslætti, allskonar undanþágur fyrir aumingja og að auki fengið að vera óáreitt með skattaundanskotabrellur sem ganga út á það að færa fé úr landi til viðbótar við allan hinn óþverran sem fylgir stóriðjunni svo hún fáist til að fjárfesta hér.
Stóra erlenda fjárfestingin sem var þegar Björgólfsfeðgar komu til landsins og keyptu banka fyrir erlenda peninga sem var hæpað jafnmikið upp þá og núverandi kaup á Arion-banka reyndist vera tekin að láni í hinum ríkisbankanum. Hinn ríkisbankinn sem var svo líka keyptur með sýndarvottun erlends banka sem átti að sýna að erlendir aðilar hefðu nú komið til að fjárfesta í íslenskum bönkum. Allt var þetta blekking ein alveg eins og hin miklu viðskipti erlendra félaga sem voru að kaupa hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum fyrir Hrun. Þeirra þræðir lágu til Lúxemborg, Tortóla og annarra skattsvikaskjóla þar sem skúffufyrirtæki íslenskra eiganda lágu á bak við kaupin. Svo hrundi spilaborgin og okkur hinum varð ljóst að erlenda fjárfestingin var bara blekking ein og við þurftum að borga þá fyrir eigendurna sem komu ekki með krónu heim úr skattsvikaskjólunum nema í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans.
Eftir Hrun þá bönkuðu svo allskonar vafasamir lukkuriddarar að hætti íslenskra bankstera og viðskiptamanna. Það var t.d. hann Nubo sem ætlaði að gera rokrassgatið Grímsstaði að risaferðamannastað og lét ljósmynda sig í ullarpeysu með harðfisk til að heilla landsmenn en reyndist ekki hafa innistæðu fyrir stóru yfirlýsingunum með tilheyrandi brotthvarfi vegna allra spurninganna sem hann vakti upp um sig. Silfurrefurinn Ross Beatty mætti til að taka þátt í leikriti þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að kaupa HS Orku og sagðist ætla að koma með mucho dineros til landsins. Svo kom í ljós að hann þurfti lán frá Reykjanesbæ og aldrei sáust þessir fjárfestingarpeningar sem hann lofaði heldur fóru frekar peningar úr landi til að borga „lán“ frá honum a la stóriðjan. Að lokum voru það íslenskur almenningur sem tapaði á þessari „fjárfestingu“ með óbeinum hætti vegna allra lánanna frá sveitarfélögum og OR sem sat uppi með ónýtt skuldabréf sem Ross hinn Magmaði var víst ekki líklegur borgunarmaður fyrir. Þeir sem töpuðu þó mest voru Suðurnesjamenn sem glötuðu þar með hitaveitu sinni sem þeir höfðu byggt upp með skattpeningum og störfum sínum í þágu samfélagsins en ekki silfurrefsins.
Þó nokkrir fleiri vafasamir karakterar bönkuðu upp á með tilkynningum um ferðatöskur fullar af seðlum s.s. málaliðafyrirtækið ECA Programs sem sagðist ætla að reka hér flugherþjálfun fyrir flugheri annarra þjóða og skartaði vidjó á heimasíðu sinni sem reyndist vera myndbrot úr Top gun. Málaliðarnir reyndust þó vera orðin tóm en síðast þegar heyrðist af þeim þá var fyrirtækið gjaldþrota eftir svik og pretti með heilan her á eftir sér sem vildi peninga sína til baka. Aðrir álíka fjárfestar komu svo með gylliboð í gegnum lögmann um gáma fulla af gulli til handa Íslendingum gegn því að kaupa ríkisborgararétt fyrir vegabréfamöppuna sína. Til allrar hamingju var landinn ekki það ginkeyptur að gangast að þessu boði þó ýmsum hafi nú fundist þetta alveg sjálfsagt þar sem peningar voru í boði.
Mestmegnis hafa þó fjárfestingar erlendis frá verið af hálfu íslenskra bankstera sem voru að koma þýfi sínu í umferð hér og hrægammast iðrunarlaust í rústum Hrunsins sem þeir orsökuðu. Einstaka erlendur aðili hefur reyndar fjárfest hér frekar hljóðlátt í landkaupum miklum, arðvænlegum hótelrekstri og einstaka sprotafyrirtæki án þess að kalla til herdeild hraðlyginna almannatengla til að reyna að fegra kaupin. Enginn hefur samt sýnt því sérstakan áhuga á að fjárfesta í fjármálastarfsemi(af skiljanlegum ástæðum) fyrr en skyndilega nú með Arion-banka sem ráðamenn hafa uppklappað sem einhvern traustsvott á fjármálakerfið og viðskiptablaðamenn hafa upphafið í hrifningu sinni sem einhver stórfengleg tíðindi sem er frekar hlálegt í ljósi eins:
Þeir upphófu líka kaupin á ríkisbönkunum, fjárfestingar íslenskra bankstera í gegnum huldufélög sín, Magma, Nubo, ECA Programs og fleira sem einhver stórfengleg tíðindi um áhuga erlendra fjárfesta og vörðu þetta jafnvel í pólitískri frjálshyggjuhrifningu sinni fram í rauðan dauðann þegar allir aðrir sáu og sjá enn hvað var að þessum loddaraleikjum.
En þetta er ekki það eina sem maður sér sammerkt með sölunni á Arion-banka og fyrri reynslu okkar af slíku. Þarna er verið að selja til huldufélaga á Cayman-eyjum sem er svona miðstöð alls hins versta tengdu fjármálageiranum hvort sem það er peningaþvætti glæpamanna eða skattaundanskot að hætti forsætisráðherrans okkar. Þarna er verið að selja til fyrirtækja sem hafa orðið uppvís að spillingu með mútugreiðslum og verið sektuð fyrir vafasama viðskiptahætti sem íslensku viðskiptalífi þykja eðlilegir. Þarna eru aðilar sem eru illa staddir fjárhagslega og verið sendir í ruslflokk erlendis en þykja heillavænlegir fjárfestar að mati íslensks viðskiptalífs og stjórnmálamanna. Þarna er verið að taka einhverskonar vafning til að geta tæmt bankann að innan með arðgreiðslum á næstunni og um leið tryggja að starfsmenn seljanda sem er einnig kaupandi að hluta til fái bónusa sína til að tryggja trúmennsku við vafasamt viðskiptasiðferðið. Ef eitthvað er þá er maður jafnvel farinn að bíða eftir fréttinni um að kaupendur hafi fengið lán hjá Arion-banka til að kaupa hlutinn í Arion-banka.
Svo bætir það heldur ekki úr skák að fyrrum aðstoðarmaður núverandi forsætisráðherra sem einhver spilltasti óheilindamaður landsins, kemur beint með innherjaupplýsingar úr starfi sínu við undirbúning afnám hafta inn til Kaupþings og hefst handa við að selja Arion-banka sem svo merkilega vill til að gerist rétt eftir afnám þeirra. Það er reyndar nokkur fnykur af því til viðbótar þegar litið er til þess að skyndilega er ákveðið að slíta viðræðum við lífeyrissjóði um kaup og skyndilega hraðað í því að koma bankanum í hendur huldufélaga á Cayman-eyjum með tilheyrandi yfirlýsingagleði Sjálfstæðismanna sem lofa kaupin og láta sem að það sé ekkert að þessu heldur sé það umræðan sem er vandamálið. Þegar maður bætir við það mix að innvígðir og innmúraðir á alþingi tengjast yfirmönnum Arion-banka og sölumönnum hans þá er maður farinn að hallast að því að Arion-banki sé ætlað að verða hinn nýi banki Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að því að redda Sjálfstæðismönnum vinnu og „réttþenkjandi“ vinum lán sem þarf aldrei að greiða líkt og gert var með Landsbankann á tímum Björgólfsfeðga. Hver veit, kannski er flétta þarna á bak við um að góðir Sjálfstæðismenn, vinir og ættingjar forsætisráðherra séu að kaupa í gegnum huldufélög á Cayman-eyjum eftir að hafa fengið lánað frá ríkisbönkunum til kaupanna?
Annað eins hefur nú gerst hér á landi.
Allavega þá er það ljóst að þetta er ekki einhverjir „alvöru erlendir fjárfestar“ þarna á ferð heldur er þetta enn einn loddaraleikur vafasamra viðskiptamanna sem er ekki til þess fallið að vekja upp aftur traust á bankakerfið eða trú á íslenskan fjármálageira heldur þvert á móti. Það dugar því ekkert að veifa því að FME hafi skoðað eigendur þegar það er orðið ljóst að þeir sem eru sagðir vera í forsvari eru nokkurskonar hrægammasjóðsstjórar Caymaneyjafélaga þar sem allt eignarhald er falið og eru í raun að fronta einhverja aðila sem manni finnst eiginlega gefið miðað við reynsluna að séu raunverulega íslenskir aðilar sem almenningur þekkir ekki af góðu.
Það er nefnilega það sem reynslan af íslensku viðskiptalífi hefur kennt manni.
Á bak við erlendar fjárfestingar leynist ansi oft innmúraður íslenskur hrægammur með skúffufélag í skattsvikaparadís.
Það þarf því að birta allar upplýsingar um alla eigendur og tengda aðila svo við sjáum í reynd hver er að kaupa Arion-banka og hverjir eru raunverulegir eigendur.
Annars er óhætt að dæma þetta sem enn einn vafasama viðskiptavafninginn í skjóli nætur sem fyrr eða síðar lendir á okkur almenningi að borga á meðan íslensku hrægammarnir hlægja sig máttlausa í skálkaskjólum sínum að Höskuldi bankastjóra éta orð sín um að þetta væru alvöru fjárfestar.
Að sjálfsögðu eftir að þeir eru búnir að tæma bankann að innan.
Athugasemdir