Það sem aldrei var til
Þegar ég leit hálfsofandi á forsíðu Fréttablaðsins í morgun þá lá við að maður svelgdist á kaffinu.
Á forsíðunni stóð nefnilega með stríðsfyrirsögn:
„110 milljarðar horfnir frá í apríl“
Í örfáar sekúndur hélt ég að þarna væri Fréttablaðið jafnvel með nýtt skúbb um skattaundanskot Bjarna Ben, vini og vandamanna til einhverra aflandsfélaga í skattsvikaparadísum.
En svo rankaði heilinn og fór að lesa betur eftir að hafa tekið eftir myndskreytingu með flugvél sem virtist vera að hrapa.
Þetta var bara um einhver hlutabréf í Icelandair og hrun þeirra á hlutabréfamarkaði sem gengur út á fjármálasvindl ýmiskonar eins og íslenskt viðskiptalíf hefur margoft sýnt okkur fram á.
Fyrir utan þá hugsun að verst væri að lífeyrissjóðirnir væru enn eina ferðina að láta gabba sig til að sóa peningum skjólstæðinga sinna í hlutabréfarúllettuna þá flaug manni til hugar að þetta væri góð vísbending um að það styttist verulega í næsta Hrun þegar fjölmiðlar eru farnir að fjalla um fjármálabrask fyrir fáa frekar en fasisma gegn fjöldanum á forsíðum fjölmiðlanna.
Samt var það ein flennistór spurning sem stóð upp úr við umhugsun út frá forsíðunni:
Hvernig getur það horfið sem aldrei var til?
Athugasemdir