Ég byrjaði í blaðamennsku 2. apríl 1979, rétt áður en ég varð nítján ára. Í áratug fékkst ég við flest milli himins og jarðar sem blaðamennskan bauð upp á – skrifaði fréttir (þótt ég væri aldrei mjög áhugasamur um það), greinar um menningarmál, sögu og fleira, tók ógrynni viðtala, þýddi stjörnuspár og Sérstæð sakamál. Aðeins eitt skrifaði ég aldrei um: Pólitík. Ég hafði hreinlega ekki áhuga á að skrifa um það efni, þótt auðvitað hefði ég mínar pólitísku skoðanir og þær styrktust heldur þegar á leið.
Svo var það haustið 1988 að Stefán Jón Hafstein umsjónarmaður síðdegisútvarps á Rás tvö fékk mig til að flytja fjölmiðlagagnrýni tvisvar í viku. Það skemmti ég mér konunglega við í heilan vetur (af hverju er engin fjölmiðlagagnrýni í fjölmiðlunum núna?) en þá tókum við Stefán Jón eftir því að pistlarnir voru æ oftar farnir að snúast um almenn samfélagsmál, frekar en bara fjölmiðla. Þá var heitinu Fjölmiðlapistlar slaufað en áfram hélt ég og fór nú að fjalla um hvað sem á seyði var í samfélaginu. Það gat verið hitt og þetta, en brátt var góður hluti pistlanna farinn að snúast um það sem ég hélt að ég myndi aldrei fá verulegan áhuga á, sem sé innlenda pólitík.
Og hefur svo verið síðan.
Sem pólitískur pistlahöfundur dreg ég náttúrlega dám af mínum lífsskoðunum og sannfæringu, en ef ég neyðist til að skilgreina mig endaði ég yfirleitt á orðunum „frjálslyndur jafnaðarmaður“. Í því felst ósköp einfaldlega að ríkið eigi að sjá af dugnaði um velferðarmál, heilbrigðismál og menntir (í víðum skilningi) og hafa ævinlega jöfnuð og réttlæti millum þjóðfélagsþegnanna að leiðarljósi – einfaldlega af því að þannig fúnkar samfélagið best. En þar fyrir utan skuli afskipti ríkisins af uppátækjum og einkamálum þegna sinna vera sem allra minnst.
Ég hygg að ansi margir landar mínar séu svipaðrar skoðunar og því hefur mér alltaf þótt dálítið dularfullt af hve miklum ofsa menn hneigjast til að skipta sér í flokka og berjast svo blóðugri baráttu við fólk í öðrum flokkum – sem þó er ótrúlega oft sammála manni um flest grundvallaratriði.
Formálinn um mig sem pistlahöfund stafar af því að nú er mér eiginlega í fyrsta sinn nóg boðið í þessum bransa. Mér hefur oft gramist þegar einhverjar skoðanir mínar – sem ég tel auðvitað sjálfur vel ígrundaðar og skynsamlegar! – eru kýldar kaldar af því ég sé sagður tilheyra einhverjum flokkspólitískum herbúðum, en því venst maður þegar árunum og pistlunum fjölgar. Núna síðustu vikur hef ég hins vegar (eins og margir, margir fleiri) talað hvað eftir annað í pistlum og ræðum um nauðsyn á nýrri siðvæðingu í íslenskri stjórnmálabaráttu eftir uppljóstranir Panama-skjalanna. Þær uppljóstranir sýna að stór hluti valdastéttarinnar í landinu telur sér sæma að fara með fé sitt til aflanda – þar á meðal og ekki síst fé sem þessir meðlimir valdastéttarinnar hafa komist yfir á Íslandi og ekki alltaf með sinni eigin vinnu. Tilgangurinn getur varla verið annar en sá að fela féð og/eða koma því í skjól undan skattheimtu. Í tilfelli kjörinna fulltrúa getur engin réttlæting verið fyrir slíku, enda hefur eignarhaldið á aflandsfélögum verið hjúpað blekkingum, lygum og hvers konar brellum.
Menn eru að að koma sínum málum í felur út á jaðri samfélagsins, en heykjast á að borga sinn skerf til þess.
Þetta finnst mér liggja algjörlega í augum uppi, alveg burtséð frá pólitískum skoðunum mínum. En þeim mun meiri vonbrigðum veldur mér að tilraunir okkar sem viljum ekki slíkan subbuskap í æðstu toppstöðum samfélags skuli nú afgreiddar sem flokkspólitískt karp af varnarliði aflandseyinga?
Ég á ýmsa góða kunningja og vini í Sjálfstæðisflokknum: Af hverju telja þeir eðlilegt að bæði formaður þeirra og varaformaður komi við sögu í þessum Panama-skjölum? Það eru hin miklu vonbrigði – að eftir að ég eins og aðrir hafa reynt með samtali og gagnrýni um samfélagsmál að þoka málum eitthvað til skárri vegar, þá skuli ekki hafa tekist betur en þetta: Enginn sjálfstæðismaður, svo ég viti til, hefur lýst yfir andúð sinni á hátterni silkihúfanna tveggja.
Það virðist beinlínis dauðasynd í þeim flokki, sem ber með æ minni rentu heitið SJÁLSTÆÐIS-flokkur.
En samt eykst fylgi flokksins, frekar en hitt!
Er nema von að maður spyrji sig, til hvers er ég að þessu streði?
Athugasemdir