Auðvitað var talsmáti Ólínu Þorvarðardóttur gjörsamlega út úr korti í gær. Samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu var þetta bara alveg óþarfur dónaskapur. Ef Ólína hefði hins vegar litið ögn lengra hefði hún líka mátt hafa í huga að „mellur“ ættum við nú að líta á sem fórnarlömb, ekki sem fyrirlitlegt skammaryrði.
Þessi undarlegi dónaskapur Ólínu dæmir sig sjálfur, rétt eins og Kristín Þorsteinsdóttir aðalritstjóri Fréttablaðsins benti á í svari sínu.
Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að forsíðumynd Fréttablaðsins af ritstjóranum að afhenda Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni verðlaun blaðsins fyrir „bestu viðskipti ársins“ var ekki fegursta stund Fréttablaðsins.
Og ansi langt frá því.
Ekki aðeins vegna þess að um þessi „viðskipti“ má deila - eins og Björn Valur gerir til dæmis hérna. Ég hef hvorki haft tíma né þekkingu til að dæma sjálfur um hve góðir samningarnir við kröfuhafana voru, en veit þó að þeir eru alls ekki óumdeilanlegir. Maður hefði þó ekki getað látið sér detta það í hug af frásögn Fréttablaðsins af þessum frábæra díl.
Og ekki aðeins vegna þess að þessi mynd vakti vissulega upp óþægilegar minningar um fleiri „viðskipti ársins“ hjá Fréttablaðinu á fyrri tíð, eins og Egill Helgason bendir hér á.
(Reyndar ættu vinnubrögð Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins, frá fyrri tíð yfirleitt að vera víti til varnaðar fyrir Fréttablaðsmenn nútímans fremur en fordæmi, en það er önnur saga.)
En fyrst og fremst var forsíðumyndin stóra af hinum brosmildu formönnum íhugunarefni fyrir Fréttablaðið sem fjölmiðil. Þar var Ólína Þorvarðardóttir á réttri leið, þótt hún hafi því miður skemmt fyrir sér með sínum vanhugsaða dónaskap.
Það var satt að segja sorglega lítill keimur af hinu gagnrýna „fjórða valdi“ á þessari forsíðu.
Að hrósa valdhöfum fyrir það sem forráðamönnum fjölmiðils finnst þeir hafa gert vel, það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt. En að dilla þeim á þann hátt sem gert var með verðlaunaveitingunni og þó sérstaklega forsíðufréttinni og hinni áróðurskenndu ljósmynd, það er ekki gott og Fréttablaðið gerði sjálfu sér enga greiða með þessu.
Það má auðvitað spyrja: Eiga fjölmiðlar alltaf og eingöngu að sýna valdhöfum tortryggni? Þurfa þeir alltaf að halda helstu ráðamönnum í hæfilegri fjarlægð frá sér?
En svarið við þeim spurningum er nefnilega voðalega einfalt.
Já.
Vilji þeir láta taka sig alvarlega, þá er svarið afdráttarlaust „já“.
Hversu freistandi sem það kann að vera að skella sér með í partíið.
Athugasemdir