Sr. Örn Bárður Jónsson birti núna fyrir helgi teikningu á Facebook vegg sínum eins og rakið hefur verið í fjölmiðlunum Stundinni og Eyjunni. Á myndinni standa nokkrir þjóðkirkjuprestar frammi fyrir byssuhlaupi hryðjuverkamanns sem er í senn fulltrúi Vantrúar (baráttusamtaka yfirlýstra trúleysingja) og ISIS. Spurt er hvort um stigs- eða eðlismun sé að ræða á samtökunum tveimur. Fljótlega eftir að teikningin hafði verið gagnrýnd af m.a. öðrum þjóðkirkjupresti tók sr. Örn Bárður hana út af vegg sínum. Formaður Vantrúar, Sindri Guðjónsson, brást þegar í stað við á eigin Facebook vettvangi og sagði svo í viðtali við Eyjuna: „Svona ummæli sýna að talsmenn kirkjunnar gera oft ekki greinarmun á hugmyndafræðilegum andstæðingum og persónulegum óvinum, og líta á andstæðan málflutning sem ofsóknir, en ekki skoðanaskipti[.]“
Margir hafa tekið undir gagnrýni formanns Vantrúar og segir t.d. Bjarni Jónsson, fyrrverandi varaformaður Siðmenntar: „Þetta er nú með því ósmekklegasta sem ég hef séð.“ En þótt full ástæða sé til að gagnrýna samlíkingu sr. Arnar Bárðar eru fleiri forvitnilegar hliðar á þessu máli.
Sjálfir hafa vantrúarfélagar og þá ekki síst stofnendur og helstu forystumenn félagsins lengi verið ósparir á yfirlýsingar um þjóðkirkjuna, presta og ýmsa sem þeim er uppsigað við. Þannig hefur kristindómurinn verið lagður að jöfnu við nazisma, þjóðkirkjan nefnd Nazistaflokkur Íslands og prestar hafa ítrekað verið kallaðir hryðjuverkamenn og t.d. barnaníðingar.
„Þannig hefur kristindómurinn verið lagður að jöfnu við nazisma.“
Fyrsti formaður Vantrúar og einn af fimm stofnendum félagsins, Birgir Baldursson, birti t.d. greinina „Hryðjuverkamenn hugans“ á vef Vantrúar þar sem hann beinir spjótum sínum gegn prestum. Í annarri grein, „Atvinnurógur“, skrifar Birgir: „Ég er stoltur af því að ástunda þann atvinnuróg að segja presta hryðjuverkamenn hugans og vinnustað þeirra forneskjulegt ranghugmyndaskrímsli sem samfélaginu væri betra að losa sig við.“
Annar af stofnendum Vantrúar og um tíma formaður félagsins, Matthías Ásgeirsson, hefur lagt áherslu á hversu ofbeldisfull trúarbrögð kristindómurinn og raunar fleiri séu: „Sama hve trúmönnum [svo] langar mikið til að afneita öllu slæmu og öllum sem gera illt geta þeir ekki hreinsað hendur sínar af þessum hryðjuverkamönnum. Íslam og kristni eru ekki trúarbrögð friðar, það er grænsáputúlkun. Í helgibókum beggja trúarbragða eru fylgismenn hvattir til að beita ofbeldi gegn villutrúmönnum [svo].“
Enn annað dæmi er að finna hjá núverandi varaformanni Vantrúar, Þórði Ingvarssyni, en hann skrifaði í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur blogggreinar þar sem hann beitti sér mjög gegn henni með klámi, níði og vísunum í hryðjuverk. Má þar nefna blogggreinina „JÓHANNA SIGURÐARDÓTTIR: HRYÐJUVERK Í TUSSUNNI Á MÉR!!!1!!1111“, þar sem hann segir m.a.: „Kommon þarna litla esbían þín, misstu það útúr þér. Kallaðu mótmæli hryðjuverk. Gerðu það! Plíííís!“ Þess má geta að Þórður hefur einnig skrifað um neikvæða afstöðu sína til fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar á Bandaríkin 11. september 2001: „Mér er nokk sama um þau Bandarísku [svo] börn er misstu foreldrana sína í árásinni 2001.“
„Mér er nokk sama um þau Bandarísku [svo] börn er misstu foreldrana sína í árásinni 2001.“
Fleira af sambærilegum toga má finna í skrifum annarra forystumanna Vantrúar. Einn stjórnarmaðurinn fyrr á árum, Björn Darri Sigurðsson, skrifaði t.d. í stjórnartíð sinni eftirfarandi athugasemd á bloggi sínu um bandarísku íhaldskonuna Ann Coulter sem þekkt er fyrir róttæka harðlínuhægristefnu: „Það þarf að sko lóga þessari tík.“
Allt þetta sýnir að það er talsverð hefð fyrir hryðjuverkamyndmáli í gagnrýninni boðun vantrúarfélaga ekki síður en í umræðunni um þá. Ég skil hins vegar vel að vantrúarfélagar skuli kvarta sáran þegar þeir eru kallaðir hryðjuverkamenn og bornir saman við ISIS. Í þessum efnum hef ég fulla samúð með vantrúarfélögum. Mynd sr. Arnar Bárðar er óréttmæt vegna þess að hún er röng lýsing á samtökunum Vantrú hvað svo sem mönnum kann að finnast um þann félagsskap og tíðar ásakanir á hendur honum um t.d. einelti.
En hverjar ætli séu líklegustu skýringarnar á þessari stóryrtu yfirlýsingu sr. Arnar Bárðar? Hann er meðal fjölmargra sem vantrúarfélagar hafa tekið reglulega fyrir á liðnum árum og hefur m.a. verið kallaður aulabárður, fantur, fífl, fáviti, fyrirbæri, forhertur flautaþyrill, veraldarsauður, pokaprestur, kjólklædd hindurvitnabulla og spesimen aftan úr fornöld. Að sama skapi hefur hann verið sagður grunnhygginn, raunveruleikafirrtur, aum manneskja, óheiðarlegur, lygari og ómerkilegur pappír. Þáverandi formaður Vantrúar, Reynir Harðarson, orðaði það svo á vef félagsins árið 2011 að sr. Örn Bárður verði örugglega hneykslunar- og aðhlátursefni um langa hríð og hafa vantrúarfélagar veitt honum nokkrum sinnum árleg hæðnisverðlaun. Þeir hafa einnig birt skopmyndir og myndbönd af sr. Erni Bárði honum til háðungar eins og t.d. myndbandið „Séra Örn Bárður og trúboð í skólum“ sem hýst er á síðu Vantrúar hjá YouTube og vísað er á af sjálfum vef félagsins. Loks er honum líkt við bulluna á skólalóðinni sem fer að væla ef einhver slær til baka.
„Að sama skapi hefur hann verið sagður grunnhygginn, raunveruleikafirrtur, aum manneskja.“
Hættan við að nota ögranir sem samskiptatól, úr hvorri áttinni sem þær koma, er sú að menn geta hæglega misst sjónar á þeim sem þeir telja andstæðinga sína og í versta tilfelli geta andstæðingarnir tekið að breytast í þá mynd sem dregin er upp í huga þess sem á pennanum heldur. Það er einmitt af þessum sökum sem myndbirting sr. Arnar Bárðar einkennist af skilningsleysi á Vantrú rétt eins og forystumenn Vantrúar virðast stundum samdauna því myndmáli sem þeir beita í trúarlífsumræðunni. Við slíkt vex óþolið og gjáin milli hópanna dýpkar.
Þess ber þó að geta að þegar sr. Örn Bárður baðst opinberlega afsökunar á myndbirtingunni og bað „þolendur að fyrirgefa [sér] mistökin“, tók Vantrú það umsvifalaust til greina og sagði: „Örn Bárður, þér er fyrirgefið. Við tökum út myndirnar líka.“ Nú er vonandi að vantrúarfélagar fylgi sjálfir eftir þessu góða fordæmi og sýni þann manndóm að biðjast einnig afsökunar á því sem þeir hafa birt í þessum anda á liðnum árum en allt er það enn til staðar í netheimum.
Það er holur hljómur í öllu tali um fyrirgefningu ef vantrúarfélagar axla ekki einnig ábyrgð á sínum skrifum og myndbirtingum.
Athugasemdir