Nokkuð undarlegt sjónarmið fannst mér koma fram í gær í samtali Fréttablaðsins við Sigurð Pál Pálsson yfirlækni á öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans.
Þar segir Sigurður Páll meðal annars: „Stærsti vandinn felst í því að fangelsunum er svo þröngur stakkur sniðinn að þau eru ófær um að greina fólk og flokka það í þágu meðferðar, eftir því hvers kyns þjónustu hver og einn þarf á að halda. Þau hafa ekki mannskapinn. Það er ekki svo að allir sem eiga við geðræn vandamál að stríða þurfi innlögn á geðdeild eða að afplána á réttargeðdeild.“
Þá segir Sigurður Páll að greiningar taki lengri tíma þegar menn eru að koma úr mikilli neyslu og bætir við:
„Þá þarf að taka það með í reikninginn. Menn geta farið í tilfallandi geðrof vegna neyslu, svo kemur síðar í ljós hvert hið eiginlega ástand er. Ákvarðanir um sakhæfi eða ósakhæfi eru síðan dómstólanna.“
Hér virðist yfirlæknirinn einfaldlega vera að varpa ábyrgð á ákvörðunum um sakhæfi yfir á dómstóla, þótt auðvitað séu það geðlæknar sem ákveða þetta í raun. Hér hlýt ég að vitna til Helga Seljan sem hefur fjallað mikið um þessi mál í Kastljósi en hann sagði á Facebook um viðtalið við Sigurð Pál:
„Þetta er ótrúlega billegt ... [Þ]að eru hann og hans kollegar sem ákveða í raun um sakhæfi manna. Og þá oft sömu manna og þeir eiga síðan að sjá um og vista. Það er ekkert eðlilegt við það að maður sem metinn hefur verið ótal sinnum með geðsjúkdóm, sviptur sjálfræði og vistaður á geðdeildum á grundvelli sama sjúkdóms, skuli svo allt í einu fá greininguna „Persónuleikaröskun“ og fara þannig frá geðheilbrigðiskerfinu og í fangelsi. Hvers vegna? Jú, af því að hann kveikti í meðan hann var nauðungarvistaður á geðdeild.“
Allra skrýtnast í viðtalinu við Sigurð Pál er samt þetta hér:
„En þetta er alltaf toppótt umræða um einn og einn einstakling.“
Með þessu virðist yfirlæknirinn gefa í skyn - milli línanna - að umræða í fjölmiðlum (ekki síst í Kastljósi) sé ekki endilega mikils virði, þótt það sé því miður svo að einstök dæmi þurfi oft til að vekja athygli á brotalömum í kerfinu. Og því þá að gera lítið úr því sem orðalagi um „toppótta umræðu um einn og einn einstakling“?
Furðulegt. En svo lítið álit hefur Sigurður Páll greinilega látið í ljós á opinberum áhyggjum fólks og fjölmiðla af þessum málum, að Fréttablaðið hefur valið umfjöllun sinni fyrirsögnina „Grunn umræða um geðheilbrigði fanga“ þótt orðin „grunn umræða“ komi raunar ekki nákvæmlega fram í orðum yfirlæknisins heldur virðist túlkun blaðamanna á orðum hans og/eða annarra.
Ég vitna aftur í Helga Seljan:
„Þetta blessaða kerfi ætti að hunskast til þess að hætta að henda ábyrgð á veiku fólki á milli sín með viðkomu á götunni eða í einangrunarklefum fangelsa. Ólafur Ólafsson fyrrverandi landlæknir sagði á sínum tíma að læknar sem hefðu farið eins með geðveikan mann, sem í þrjá áratugi sat í fangelsum og á ógeðslegu geðsjúkrahúsi í Noregi, hefðu brotið lækna sinn. Það skyldi þó ekki enn vera að gerast.“
Vonandi ekki, en orð yfirlæknisins róa mann þó ekki.
Hér er dæmi um hina „toppóttu umræðu“:
Athugasemdir