Líklega er gott að búa á Bessastöðum. Nú þegar Ólafur Ragnar Grímsson er búinn að gefa upp alla von um að hans bíði virðulegt embætti á alþjóðavettvangi, þá vill hann að minnsta kosti ólmur fá að búa þar áfram.
Ekki eru nú allir á eitt sáttir um það. Ég varð reyndar hissa á því hve margir stigu fram og hneyksluðust á hinum sem lýst höfðu andstöðu, vonbrigðum og jafnvel reiði út af þeirri ákvörðun Ólafs að bjóða sig fram í sjötta sinn. Það var sagt dónalegt og jafnvel ólýðræðislegt. En slíkt er alrangt. Það er jafn lýðræðislegt að vera á móti framboði einhvers eins og að vera hlynntur framboði annars.
Að auki er sérstaklega auðskiljanlegt af hverju menn eru á móti framboði Ólafs Ragnars. Hann er að ganga á bak orða sinna (og í annað sinn) þegar hann stekkur fram á sviðið á ný, vitandi að sem sitjandi forseti hefur hann gífurlegt forskot. Auðvitað má hann það – en mér má líka alveg þykja það bæði óheiðarlegt og lágkúrulegt og það er ekkert athugavert við að fólk hrópi hneykslan sína af torgum. Tala nú ekki um af því þess má fastlega vænta að Ólafur Ragnar verði jafn ófyrirleitinn í sinni kosningabaráttu og síðast.
Og það má öllum vera ljóst að lýðræðið hefur ekki gott af að sami maður sitji í svona starfi í 24 ár.
Allra verst er þó að Ólafur segir ekki satt. Það væri sök sér ef hann segði sannleikann:
Mér finnst svo gaman að vera forseti, ég get ekki hugsað mér að hætta að vera forseti, elsku bestu leyfið mér að vera forseti áfram!
Ef hann kæmi svona hreint væri allt klárt og kvitt. Þá tækjum við bara afstöðu til þess hvert og eitt hvort okkur þyki hann eiga skilið að við styðjum hann. Við myndum líta til fortíðar hans, og við myndum horfa fram á veginn og skoða hvort hann sé rétti maðurinn til að fylgja okkur inn í nýjan heim.
Þetta væri allt mjög eðlilegt.
En Ólafur Ragnar treystir sér ekki til að vera veginn og metinn með þessum hætti. Þess vegna býður hann upp á alveg ótrúlegt þvaður, sem ég hélt satt að segja að væri fyrir neðan hans virðingu.
Hann býr til eitthvert neyðarástand í samfélaginu sem enginn geti haft stjórn á nema einmitt hann sjálfur og þykist svo af einskærri skyldurækni ætla að „fórna frelsinu“ til að koma á festu á ný. Þetta er auðvitað hlægilegt kjaftæði. Hér er ekkert neyðarástand sem Ólafur Ragnar einn getur leyst úr og stjórnarmyndun eftir næstu kosningar verður með allra einfaldasta móti. Annað hvort heldur stjórnin velli eða ekki. Enda eiga jafnvel hinir virðulegustu fræðimenn erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum þegar þeir eru spurðir um þessar „skýringar“ Ólafs Ragnars á endurnýjuðu framboði sínu. Og gamlir refir eins og Þorsteinn Pálsson og Davíð Oddsson kalla þetta ýmist „barnalegt“ eða draga allt klamburverk hans sundur og saman í háði.
Aðeins eru þrjár skýringar á hinu ímyndaða neyðarástandi Ólafs Ragnars.
Í fyrsta lagi gæti hann einfaldlega verið að búa þetta til vísvitandi til að reyna að tryggja sér áframhaldandi ból á Bessastöðum. Mér finnst þetta satt að segja líklegasta skýringin. En viljum við forseta sem lýgur um svo mikilsvert mál?
Í öðru lagi gæti hann trúað þessu sjálfur. En þá er gamli stjórnmálafræðiprófessorinn og pólitíkusinn búinn að missa allt jarðsamband og dómgreind á ástandið í landinu. Viljum við slíkan forseta?
Í þriðja lagi gæti hann líka trúað því sjálfur í einlægni að hann sé orðinn ómissandi. Slíkt hendir einmitt þaulsetna valdamenn. En það er þá persónulegt mál og hann ætti helst ekki að trufla okkur með slíkum sjálfsblekkingum.
Athugasemdir